Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 148-150

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Sálmarnir 114-115

114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,

þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,

hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Amos 6

Vei hinum andvaralausu á Síon og hinum öruggu á Samaríufjalli, aðalsmönnum hinnar ágætustu meðal þjóðanna, og þeim, er Ísraels hús streymir til.

Farið til Kalne og litist um, og haldið þaðan til Hamat hinnar miklu og farið ofan til Gat í Filisteu. Eruð þér betri en þessi konungsríki, eða er land yðar stærra en land þeirra?

Þeir ímynda sér, að hinn illi dagur sé hvergi nærri, og efla yfirdrottnun ranglætisins.

Þeir hvíla á legubekkjum af fílsbeini og liggja flatir á hvílbeðjum sínum. Þeir eta lömb af sauðahjörðinni og ungneyti úr alistíunni.

Þeir raula undir með hörpunni, setja saman ljóð eins og Davíð.

Þeir drekka vínið úr skálum og smyrja sig með úrvals-olíu _ en eyðing Jósefs rennur þeim ekki til rifja.

Fyrir því skulu þeir nú herleiddir verða í fararbroddi hinna herleiddu, og þá skal fagnaðaróp flatmagandi sælkeranna þagna.

Drottinn Guð hefir svarið við sjálfan sig, _ segir Drottinn, Guð allsherjar: Ég hefi viðbjóð á ofmetnaði Jakobs, ég hata hallir hans og framsel borgina og allt, sem í henni er.

Ef tíu menn eru eftir í einu húsi, skulu þeir deyja,

10 og ef frændi hans og líkbrennumaður tekur hann upp til þess að bera beinin út úr húsinu og segir við þann, sem er í innsta afkima hússins: "Er nokkur eftir hjá þér?" og hinn segir: "Nei!" þá mun hann segja: "Þei, þei!" Því að nafn Drottins má ekki nefna.

11 Því sjá, Drottinn býður að slá skuli stóru húsin, þar til er þau hrynja, og litlu húsin, þar til er þau rifna.

12 Hlaupa hestar yfir kletta, eða erja menn sjóinn með uxum, úr því þér umhverfið réttinum í eitur og ávöxtum réttlætisins í malurt?

13 Þér gleðjist yfir Lódebar, þér segið: "Höfum vér ekki fyrir eigin rammleik unnið Karnaím?"

14 Já, sjá, gegn yður, Ísraelsmenn, _ segir Drottinn, Guð allsherjar _ mun ég hefja þjóð, og hún skal kreppa að yður þaðan frá, er leið liggur til Hamat, allt að læknum á sléttlendinu.

Síðara bréf Páls til Þess 1:5-12

Þær eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis, sem þér nú líðið illt fyrir.

Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja.

En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns.

Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.

Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti,

10 á þeim degi, er hann kemur til að vegsamast meðal sinna heilögu og hljóta lof meðal allra, sem trú hafa tekið. Og þér hafið trúað þeim vitnisburði, sem vér fluttum yður.

11 Þess vegna biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar og fullkomni allt hið góða, sem þér viljið og vinnið í trú og með krafti Guðs,

12 svo að nafn Drottins vors Jesú verði dýrlegt í yður og þér í honum fyrir náð Guðs vors og Drottins Jesú Krists.

Lúkasarguðspjall 1:57-68

57 Nú kom sá tími, að Elísabet skyldi verða léttari, og ól hún son.

58 Og nágrannar hennar og ættmenn heyrðu, hversu mikla miskunn Drottinn hafði auðsýnt henni, og samfögnuðu henni.

59 Á áttunda degi komu þeir að umskera sveininn, og vildu þeir láta hann heita Sakaría í höfuðið á föður sínum.

60 Þá mælti móðir hans: "Eigi skal hann svo heita, heldur Jóhannes."

61 En þeir sögðu við hana: "Enginn er í ætt þinni, sem heitir því nafni."

62 Bentu þeir þá föður hans, að hann léti þá vita, hvað sveinninn skyldi heita.

63 Hann bað um spjald og reit: "Jóhannes er nafn hans," og urðu þeir allir undrandi.

64 Jafnskjótt laukst upp munnur hans og tunga, og hann fór að tala og lofaði Guð.

65 En ótta sló á alla nágranna þeirra og þótti þessi atburður miklum tíðindum sæta í allri fjallbyggð Júdeu.

66 Og allir, sem þetta heyrðu, festu það í huga sér og sögðu: "Hvað mun barn þetta verða?" Því að hönd Drottins var með honum.

67 En Sakaría faðir hans fylltist heilögum anda og mælti af spámannlegri andagift:

68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society