Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 5-6

Til söngstjórans. Með hljóðpípu. Davíðssálmur.

Heyr orð mín, Drottinn, gef gaum að andvörpum mínum.

Hlýð þú á kveinstafi mína, konungur minn og Guð minn, því að til þín bið ég.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.

Þú ert eigi sá Guð, er óguðlegt athæfi líki, hinir vondu fá eigi að dveljast hjá þér.

Hinir hrokafullu fá eigi staðist fyrir þér, þú hatar alla er illt gjöra.

Þú tortímir þeim, sem lygar mæla, á blóðvörgum og svikurum hefir Drottinn andstyggð.

En ég fæ að ganga í hús þitt fyrir mikla miskunn þína, fæ að falla fram fyrir þínu heilaga musteri í ótta frammi fyrir þér.

Drottinn, leið mig eftir réttlæti þínu sakir óvina minna, gjör sléttan veg þinn fyrir mér.

10 Einlægni er ekki til í munni þeirra, hjarta þeirra er glötunardjúp. Kok þeirra er opin gröf, með tungu sinni hræsna þeir.

11 Dæm þá seka, Guð, falli þeir sakir ráðagjörða sinna, hrind þeim burt sakir hinna mörgu afbrota þeirra, því að þeir storka þér.

12 Allir kætast, er treysta þér, þeir fagna að eilífu, því að þú verndar þá. Þeir sem elska nafn þitt gleðjast yfir þér.

13 Því að þú, Drottinn, blessar hinn réttláta, hlífir honum með náð þinni eins og með skildi.

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Sálmarnir 10-11

10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?

Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.

Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.

Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.

Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.

Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."

Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.

Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.

Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.

10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.

11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."

12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.

13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?

14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.

15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.

16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.

17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.

18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

Amos 3:1-11

Heyrið þetta orð, sem Drottinn hefir talað gegn yður, þér Ísraelsmenn, gegn öllum þeim kynstofni, sem ég leiddi út af Egyptalandi, svolátandi:

Yður eina læt ég mér annt um fremur öllum kynstofnum jarðarinnar. Þess vegna hegni ég yður fyrir allar misgjörðir yðar.

Mega tveir menn verða samferða, nema þeir mæli sér mót?

Mun ljónið öskra í skóginum, ef það hefir enga bráð? Mun ljónshvolpurinn láta til sín heyra í bæli sínu, ef hann hefir engu náð?

Getur fuglinn komið í gildruna á jörðinni, ef engin snara er þar fyrir hann? Hrökkur gildran upp af jörðinni, nema eitthvað hafi í hana fengist?

Verður lúðurinn svo þeyttur innan borgar, að fólkið flykkist ekki saman í angist? Vill nokkur ógæfa svo til í borginni, að Drottinn sé ekki valdur að henni?

Nei, Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.

Hafi ljónið öskrað, hver skyldi þá ekki óttast? Hafi Drottinn Guð talað, hver skyldi þá ekki spá?

Kallið út yfir hallirnar í Asdód og hallirnar í Egyptalandi og segið: Safnist saman upp á Samaríufjöll og lítið á hina miklu ókyrrð í borginni og ofbeldisverkin inni í henni.

10 Þeir kunna ekki rétt að gjöra _ segir Drottinn _, þeir sem hrúga upp ofríki og kúgun í höllum sínum.

11 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Fjandmenn munu umkringja landið á alla vegu og rífa niður virki þín, og hallir þínar munu rændar verða.

Síðara almenna bréf Péturs 1:12-21

12 Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna yður á þetta, enda þótt þér vitið það og séuð staðfastir orðnir í þeim sannleika, sem þér nú hafið öðlast.

13 Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda yður vakandi með því að rifja þetta upp fyrir yður.

14 Ég veit, að þess mun skammt að bíða, að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér.

15 Og ég vil einnig leggja kapp á, að þér ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa.

16 Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans.

17 Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á."

18 Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.

19 Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.

20 Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér.

21 Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Matteusarguðspjall 21:12-22

12 Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna

13 og mælti við þá: "Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,` en þér gjörið það að ræningjabæli."

14 Blindir og haltir komu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá.

15 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: "Hósanna syni Davíðs!" Þeir urðu gramir við

16 og sögðu við hann: "Heyrir þú, hvað þau segja?" Jesús svaraði þeim: "Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ,Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof."`

17 Og hann fór frá þeim og úr borginni til Betaníu og hafði þar náttstað.

18 Árla morguns hélt hann aftur til borgarinnar og kenndi hungurs.

19 Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því, en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: "Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu." En fíkjutréð visnaði þegar í stað.

20 Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: "Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og svo mundi fara.

22 Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society