Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 69

69 Til söngstjórans. Liljulag. Davíðssálmur.

Hjálpa mér, ó Guð, því að vötnin ætla að drekkja mér.

Ég er sokkinn niður í botnlausa leðju og hefi enga fótfestu, ég er kominn ofan í vatnadjúp og bylgjurnar ganga yfir mig.

Ég hefi æpt mig þreyttan, er orðinn brennandi þurr í kverkunum, augu mín eru döpruð orðin af að þreyja eftir Guði mínum.

Fleiri en hárin á höfði mér eru þeir er hata mig að ástæðulausu, fleiri en bein mín þeir sem án saka eru óvinir mínir. Því sem ég hefi eigi rænt, hefi ég samt orðið að skila aftur.

Þú, Guð, þekkir heimsku mína, og sakir mínar dyljast þér eigi.

Lát eigi þá, er vona á þig, verða til skammar mín vegna, ó Drottinn, Drottinn hersveitanna, lát eigi þá er leita þín, verða til svívirðingar mín vegna, þú Guð Ísraels.

Þín vegna ber ég háðung, þín vegna hylur svívirðing auglit mitt.

Ég er ókunnur orðinn bræðrum mínum og óþekktur sonum móður minnar.

10 Vandlæting vegna húss þíns hefir uppetið mig, og smánanir þeirra er smána þig, hafa lent á mér.

11 Ég hefi þjáð mig með föstu, en það varð mér til háðungar.

12 Ég gjörði hærusekk að klæðnaði mínum, og ég varð þeim að orðskvið.

13 Þeir er sitja í hliðinu, ræða um mig, og þeir er drekka áfengan drykk, syngja um mig.

14 En ég bið til þín, Drottinn, á stund náðar þinnar. Svara mér, Guð, í trúfesti hjálpræðis þíns sakir mikillar miskunnar þinnar.

15 Drag mig upp úr leðjunni, svo að ég sökkvi eigi, lát mig björgun hljóta frá hatursmönnum mínum og úr hafdjúpinu.

16 Lát eigi vatnsbylgjurnar ganga yfir mig, né djúpið svelgja mig, og lát eigi brunninn lykja aftur op sitt yfir mér.

17 Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar, snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.

18 Hyl eigi auglit þitt fyrir þjóni þínum, því að ég er í nauðum staddur, flýt þér að bænheyra mig.

19 Nálgast sál mína, leys hana, frelsa mig sakir óvina minna.

20 Þú þekkir háðung mína og skömm og svívirðing, allir fjendur mínir standa þér fyrir sjónum.

21 Háðungin kremur hjarta mitt, svo að ég örvænti. Ég vonaði, að einhver mundi sýna meðaumkun, en þar var enginn, og að einhverjir mundu hugga, en fann engan.

22 Þeir fengu mér malurt til matar, og við þorstanum gáfu þeir mér vínsýru að drekka.

23 Svo verði þá borðið fyrir framan þá að snöru, og að gildru fyrir þá sem ugglausir eru.

24 Myrkvist augu þeirra, svo að þeir sjái eigi, og lát lendar þeirra ávallt riða.

25 Hell þú reiði þinni yfir þá og lát þína brennandi gremi ná þeim.

26 Búðir þeirra verði eyddar og enginn búi í tjöldum þeirra,

27 því að þann sem þú hefir lostið, ofsækja þeir og auka þjáningar þeirra er þú hefir gegnumstungið.

28 Bæt sök við sök þeirra og lát þá eigi ganga inn í réttlæti þitt.

29 Verði þeir afmáðir úr bók lifenda og eigi skráðir með réttlátum.

30 En ég er volaður og þjáður, hjálp þín, ó Guð, mun bjarga mér.

31 Ég vil lofa nafn Guðs í ljóði og mikla það í lofsöng.

32 Það mun Drottni líka betur en uxar, ungneyti með hornum og klaufum.

33 Hinir auðmjúku sjá það og gleðjast, þér sem leitið Guðs _ hjörtu yðar lifni við.

34 Því að Drottinn hlustar á hina fátæku og fyrirlítur eigi bandingja sína.

35 Hann skulu lofa himinn og jörð, höfin og allt sem í þeim hrærist.

36 Því að Guð veitir Síon hjálp og reisir við borgirnar í Júda, og menn skulu búa þar og fá landið til eignar.

37 Niðjar þjóna hans munu erfa það, og þeir er elska nafn hans, byggja þar.

Sálmarnir 73

73 Asafs-sálmur. Vissulega er Guð góður við Ísrael, við þá sem hjartahreinir eru.

Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,

því að ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.

Þeir hafa engar hörmungar að bera, líkami þeirra er heill og hraustur.

Þeim mætir engin mæða sem öðrum mönnum, og þeir verða eigi fyrir neinum áföllum eins og aðrir menn.

Fyrir því er hrokinn hálsfesti þeirra, þeir eru sveipaðir ofríki eins og yfirhöfn.

Frá mörhjarta kemur misgjörð þeirra, girndir þeirra ganga fram úr öllu hófi.

Þeir spotta og tala af illsku, mæla kúgunarorð í mikilmennsku sinni.

Með munni sínum snerta þeir himininn, en tunga þeirra er tíðförul um jörðina.

10 Fyrir því aðhyllist lýðurinn þá og teygar gnóttir vatns.

11 Þeir segja: "Hvernig ætti Guð að vita og Hinn hæsti að hafa nokkra þekkingu?"

12 Sjá, þessir menn eru guðlausir, og þó lifa þeir ætíð áhyggjulausir og auka efni sín.

13 Vissulega hefi ég til ónýtis haldið hjarta mínu hreinu og þvegið hendur mínar í sakleysi,

14 ég þjáist allan daginn, og á hverjum morgni bíður mín hirting.

15 Ef ég hefði haft í hyggju að tala þannig, sjá, þá hefði ég brugðið trúnaði við kyn barna þinna.

16 En ég hugsaði um, hvernig ég ætti að skilja það, það var erfitt í augum mínum,

17 uns ég kom inn í helgidóma Guðs og skildi afdrif þeirra:

18 Vissulega setur þú þá á sleipa jörð, þú lætur þá falla í rústir.

19 Sviplega verða þeir að auðn, líða undir lok, tortímdir af skelfingum.

20 Eins og draum er maður vaknar, þannig fyrirlítur þú, Drottinn, mynd þeirra, er þú ríst á fætur.

21 Þegar beiskja var í hjarta mínu og kvölin nísti hug minn,

22 þá var ég fáráðlingur og vissi ekkert, var sem skynlaus skepna gagnvart þér.

23 En ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína.

24 Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.

25 Hvern á ég annars að á himnum? Og hafi ég þig, hirði ég eigi um neitt á jörðu.

26 Þótt hold mitt og hjarta tærist, er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.

27 Því sjá, þeir sem fjarlægjast þig, farast, þú afmáir alla þá, sem eru þér ótrúir.

28 En mín gæði eru það að vera nálægt Guði, ég hefi gjört Drottin að athvarfi mínu og segi frá öllum verkum þínum.

Esrabók 7:27-28

27 Lofaður sé Drottinn, Guð feðra vorra, sem blásið hefir konunginum slíku í brjóst, að gjöra musteri Drottins í Jerúsalem dýrlegt,

28 og hneigt til mín hylli konungs og ráðgjafa hans og allra hinna voldugu höfðingja konungs! Og ég tók í mig hug, með því að hönd Drottins, Guðs míns, hvíldi yfir mér, og safnaði saman höfðingjum Ísraels til þess að fara heim með mér.

Esrabók 8:21-36

21 Og ég lét boða þar föstu við fljótið Ahava, til þess að vér skyldum auðmýkja oss fyrir Guði vorum til að biðja hann um farsællega ferð fyrir oss, börn vor og allar eigur vorar.

22 Því að ég fyrirvarð mig að biðja konung um herlið og riddara til verndar fyrir óvinum á leiðinni. Því að vér höfum sagt konungi: "Hönd Guðs vors hvílir yfir öllum þeim, sem leita hans, þeim til góðs, en máttur hans og reiði yfir öllum þeim, sem yfirgefa hann."

23 Vér föstuðum því og báðum Guð um þetta, og hann bænheyrði oss.

24 Síðan valdi ég tólf úr af prestahöfðingjunum og Serebja, Hasabja og með þeim tíu af bræðrum þeirra,

25 og vó þeim út silfrið og gullið og áhöldin _ gjöfina til húss Guðs vors, er konungur og ráðgjafar hans og höfðingjar hans og allir Ísraelsmenn, þeir er þar voru, höfðu gefið.

26 Og þannig vó ég í hendur þeirra sex hundruð og fimmtíu talentur í silfri, hundrað talentur í silfuráhöldum, hundrað talentur í gulli.

27 Auk þess tuttugu gullkönnur, þúsund daríka virði, og tvö ker af gullgljáum góðum eiri, dýrmæt sem gull.

28 Og ég sagði við þá: "Þér eruð helgaðir Drottni, og áhöldin eru heilög, og silfrið og gullið eru sjálfviljagjöf til Drottins, Guðs feðra yðar.

29 Gætið því þessa og varðveitið það, þar til er þér vegið það aftur út í augsýn prestahöfðingjanna og levítanna og ætthöfðingja Ísraels í Jerúsalem í herbergi musteris Drottins."

30 Síðan tóku prestarnir og levítarnir við silfrinu og gullinu og áhöldunum eftir vigt til þess að flytja það til Jerúsalem, til musteris Guðs vors.

31 Því næst lögðum vér upp frá fljótinu Ahava hinn tólfta dag hins fyrsta mánaðar og héldum til Jerúsalem, og hönd Guðs vors hvíldi yfir oss, svo að hann frelsaði oss undan valdi óvina og stigamanna.

32 Og vér komum til Jerúsalem og dvöldumst þar í þrjá daga.

33 En á fjórða degi var silfrið og gullið og áhöldin vegin út í musteri Guðs vors í hendur Meremóts prests Úríasonar, _ og með honum var Eleasar Pínehasson, og með þeim voru levítarnir Jósabad Jesúason og Nóadja Binnúíson _

34 allt saman með tölu og vigt. Og öll vigtin var þá skrifuð upp.

35 Þeir er heim komu úr herleiðingunni, þeir hernumdu, er aftur sneru, færðu Ísraels Guði brennifórnir: tólf naut fyrir allan Ísrael, níutíu og sex hrúta, sjötíu og sjö lömb, tólf hafra í syndafórn _ allt sem brennifórn Drottni til handa.

36 Og þeir fengu jörlum konungs og landstjórunum í héraðinu hinumegin Fljóts konungsboðin, og þeir aðstoðuðu lýðinn og musteri Guðs.

Opinberun Jóhannesar 15

15 Og ég sá annað tákn á himni, mikið og undursamlegt: Sjö engla, sem höfðu sjö síðustu plágurnar, því að með þeim fullnaðist reiði Guðs.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið, og ég sá þá, sem unnið höfðu sigur á dýrinu og líkneski þess og á tölu nafns þess, standa við glerhafið og halda á hörpum Guðs.

Og þeir syngja söng Móse, Guðs þjóns, og söng lambsins og segja: Mikil og dásamleg eru verkin þín, Drottinn Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna.

Hver skyldi ekki óttast, Drottinn, og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur, allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér, því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Og eftir þetta sá ég, að upp var lokið musterinu á himni, tjaldbúð vitnisburðarins.

Og út gengu úr musterinu englarnir sjö, sem höfðu plágurnar sjö, klæddir hreinu, skínandi líni og gyrtir gullbeltum um brjóst.

Og englunum sjö fékk ein af verunum fjórum sjö gullskálar, fullar reiði Guðs, hans sem lifir um aldir alda.

Og musterið fylltist af reyknum af dýrð Guðs og mætti hans, og enginn mátti inn ganga í musterið, uns fullnaðar væru þær sjö plágur englanna sjö.

Matteusarguðspjall 14:13-21

13 Þegar Jesús heyrði þetta, fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum.

14 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá af þeim, er sjúkir voru.

15 Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara, að þeir geti náð til þorpanna og keypt sér vistir."

16 Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa þeir að fara, gefið þeim sjálfir að eta."

17 Þeir svara honum: "Vér höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska."

18 Hann segir: "Færið mér það hingað."

19 Og hann bauð fólkinu að setjast í grasið. Þá tók hann brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum, en þeir fólkinu.

20 Og þeir neyttu allir og urðu mettir. Og þeir tóku saman brauðbitana, er af gengu, tólf körfur fullar.

21 En þeir, sem neytt höfðu, voru um fimm þúsund karlmenn, auk kvenna og barna.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society