Book of Common Prayer
45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.
2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.
3 Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.
4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.
5 Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.
6 Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.
7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.
8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.
9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.
10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.
11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,
12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.
13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."
14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.
15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.
16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.
17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.
18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.
47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]
6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!
9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
5 Haggaí spámaður og Sakaría Íddósson, spámennirnir, spáðu hjá Gyðingum, þeim er voru í Júda og Jerúsalem, í nafni Ísraels Guðs, sem yfir þeim var.
2 Þá fóru þeir Serúbabel Sealtíelsson og Jósúa Jósadaksson til og hófu að byggja musteri Guðs í Jerúsalem, og spámenn Guðs voru með þeim og aðstoðuðu þá.
3 Um þær mundir komu til þeirra Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar þeirra og mæltu til þeirra á þessa leið: "Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?"
4 Síðan mæltu þeir til þeirra á þessa leið: "Hvað heita menn þeir, er reisa stórhýsi þetta?"
5 En auga Guðs þeirra vakti yfir öldungum Gyðinga, svo að menn gátu ekki stöðvað þá, þar til er málið kæmi til Daríusar og bréfleg skipun um þetta væri komin aftur.
6 Afrit af bréfinu, sem þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, og Star Bósnaí og samborgarar hans, Afarsekear, sem bjuggu í héraðinu hinumegin Fljóts, sendu Daríusi konungi, _
7 skýrslu sendu þeir honum og þannig var ritað í henni: "Hvers kyns heill Daríusi konungi!
8 Konunginum sé vitanlegt, að vér höfum farið til skattlandsins Júda, til musteris hins mikla Guðs. Er verið að byggja það úr stórum steinum, og eru bjálkar settir inn í veggina. Er unnið kostgæfilega að verki þessu, og miðar því vel áfram hjá þeim.
9 Því næst spurðum vér öldungana á þessa leið: ,Hver hefir leyft yður að reisa þetta hús og fullgjöra þessa múra?`
10 Líka spurðum vér þá að heiti til þess að láta þig vita, svo að vér gætum skrifað upp nöfn þeirra manna, er forustuna hafa.
11 Og þeir svöruðu oss á þessa leið: ,Vér erum þjónar Guðs himinsins og jarðarinnar og reisum að nýju musterið, sem byggt var fyrir ævalöngu, og reisti það og fullgjörði mikill konungur í Ísrael.
12 En af því að feður vorir höfðu egnt Guð himinsins til reiði, þá ofurseldi hann þá í hendur Nebúkadnesars Babelkonungs, Kaldeans. Hann lagði musteri þetta í eyði og flutti lýðinn til Babýloníu.
13 En á fyrsta ári Kýrusar, konungs í Babýlon, veitti Kýrus konungur leyfi til að endurreisa þetta musteri Guðs.
14 Og einnig gull- og silfuráhöldin úr húsi Guðs, þau er Nebúkadnesar hafði haft á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutt til musterisins í Babýlon, þau tók Kýrus konungur úr musterinu í Babýlon, og voru þau fengin manni þeim, er hann hafði skipað landstjóra og Sesbasar hét.
15 Og hann sagði við hann: ,Tak áhöld þessi, far og legg þau í musterið í Jerúsalem. Hús Guðs skal aftur reist verða á sínum fyrra stað.`
16 Síðan kom Sesbasar þessi og lagði grundvöllinn að húsi Guðs í Jerúsalem, og síðan fram á þennan dag hafa menn verið að byggja það, og enn er því ekki lokið.
17 Og nú, ef konunginum þóknast svo, þá sé gjörð leit í fjárhirslu konungsins þar í Babýlon, hvort svo sé, að Kýrus hafi veitt leyfi til að reisa þetta musteri Guðs í Jerúsalem, og konungur láti oss vita vilja sinn í þessu máli."
4 Eftir þetta sá ég sýn: Opnar dyr á himninum og raustin hin fyrri, er ég heyrði sem lúður gylli, talaði við mig og sagði: "Stíg upp hingað, og ég mun sýna þér það, sem verða á eftir þetta."
2 Jafnskjótt var ég hrifinn í anda. Og sjá: Hásæti stóð á himni og einhver sat í hásætinu.
3 Sá, er þar sat, sýndist líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið á að sjá sem smaragður.
4 Umhverfis hásætið voru tuttugu og fjögur hásæti, og í þeim hásætum sá ég sitja tuttugu og fjóra öldunga, skrýdda hvítum klæðum og á höfðum þeirra gullkórónur.
5 Út frá hásætinu gengu eldingar, dunur og þrumur, og sjö eldblys brunnu frammi fyrir hásætinu. Það eru þeir sjö andar Guðs.
6 Og frammi fyrir hásætinu var sem glerhaf, líkt kristalli. Fyrir miðju hásætinu og umhverfis hásætið voru fjórar verur alsettar augum í bak og fyrir.
7 Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni.
8 Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu. Og eigi láta þær af, dag og nótt, að segja: Heilagur, heilagur, heilagur, Drottinn Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.
9 Og þegar verurnar gjalda honum, sem í hásætinu situr, dýrð og heiður og þökk, honum sem lifir um aldir alda,
10 þá falla öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir honum, sem í hásætinu situr, og tilbiðja hann, sem lifir um aldir alda, og varpa kórónum sínum niður fyrir hásætinu og segja:
11 Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.
13 Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið.
2 Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni.
3 Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: "Sáðmaður gekk út að sá,
4 og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.
5 Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.
6 Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.
7 Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það.
8 En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.
9 Hver sem eyru hefur, hann heyri."
by Icelandic Bible Society