Book of Common Prayer
37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.
19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.
20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.
21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.
22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.
23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.
24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.
25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.
26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.
27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,
28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.
29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.
30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.
31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.
32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,
33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.
34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.
35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,
36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.
37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,
38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.
39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.
40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.
1 Á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn honum því í brjóst _ til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust _ að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, á þessa leið:
2 "Svo segir Kýrus Persakonungur: Öll konungsríki jarðarinnar hefir Drottinn, Guð himnanna, gefið mér, og hann hefir skipað mér að reisa sér musteri í Jerúsalem í Júda.
3 Hver sá meðal yðar, sem tilheyrir þjóð hans, með honum sé Guð hans, og hann fari heim til Jerúsalem í Júda og reisi musteri Drottins, Ísraels Guðs. Hann er sá Guð, sem býr í Jerúsalem.
4 Og hvern þann, sem enn er eftir, á sérhverjum þeim stað þar sem hann dvelst sem útlendingur, hann skulu menn á þeim stað styrkja með silfri og gulli og lausafé og kvikfénaði, auk sjálfviljagjafa til Guðs musteris í Jerúsalem."
5 Þá tóku ætthöfðingjar Júda og Benjamíns og prestarnir og levítarnir sig upp _ allir þeir, er Guð hafði blásið því í brjóst að fara og reisa musteri Drottins í Jerúsalem.
6 Og allir nágrannar þeirra hjálpuðu þeim um áhöld úr silfri, um gull, um lausafé og um kvikfénað og um gersemar, auk alls þess, er menn gáfu sjálfviljuglega.
7 Kýrus konungur lét af hendi kerin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar hafði flutt burt frá Jerúsalem og sett í musteri guðs síns.
8 Kýrus Persakonungur fékk þau í hendur Mítredat féhirði, og hann taldi þau út í hendur Sesbasar, höfðingja Júdaættkvíslar.
9 En talan á þeim var þessi: 30 gullskálar, 1.000 silfurskálar, 29 pönnur,
10 30 könnur af gulli, silfurkönnur minni háttar: 410, önnur ker 1.000 _
11 öll kerin af gulli og silfri til samans 5.400. Allt þetta flutti Sesbasar með sér, þá er hinir herleiddu voru fluttir frá Babýlon heim til Jerúsalem.
16 En hvað snertir samskotin til hinna heilögu, þá skuluð einnig þér fara með þau eins og ég hef fyrirskipað söfnuðunum í Galatíu.
2 Hvern fyrsta dag vikunnar skal hver yðar leggja í sjóð heima hjá sér það, sem efni leyfa, til þess að ekki verði fyrst farið að efna til samskota, þegar ég kem.
3 En þegar ég svo kem, mun ég senda þá, sem þér teljið hæfa, með líknargjöf yðar til Jerúsalem, og skrifa með þeim.
4 En ef betra þykir að ég fari líka, þá geta þeir orðið mér samferða.
5 Ég mun koma til yðar, er ég hef farið um Makedóníu, því að um Makedóníu legg ég leið mína.
6 Ég mun ef til vill staldra við hjá yður, eða jafnvel dveljast vetrarlangt, til þess að þér getið búið ferð mína, hvert sem ég þá kann að fara.
7 Því að nú vil ég ekki sjá yður rétt í svip. Ég vona sem sé, ef Drottinn lofar, að standa við hjá yður nokkra stund.
8 Ég stend við í Efesus allt til hvítasunnu,
9 því að mér hafa opnast þar víðar dyr og verkmiklar og andstæðingarnir eru margir.
15 Þegar Jesús varð þess vís, fór hann þaðan. Margir fylgdu honum, og alla læknaði hann.
16 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.
17 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:
18 Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt.
19 Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum.
20 Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, uns hann hefur leitt réttinn til sigurs.
21 Á nafn hans munu þjóðirnar vona.
by Icelandic Bible Society