Book of Common Prayer
105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!
2 Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.
3 Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.
4 Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.
5 Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,
6 þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.
7 Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.
8 Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,
9 sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,
10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,
11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.
12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,
13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.
14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.
15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."
16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,
17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.
18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,
19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.
20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.
21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,
22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.
23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.
24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.
25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.
26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,
27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.
28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,
29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,
30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,
31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,
32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,
33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,
34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,
35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,
36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.
37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.
38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.
39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.
40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.
41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.
42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn
43 og leiddi lýð sinn út með gleði, sína útvöldu með fögnuði.
44 Og hann gaf þeim lönd þjóðanna, það sem þjóðirnar höfðu aflað með striti, fengu þeir til eignar,
45 til þess að þeir skyldu halda lög hans og varðveita lögmál hans. Halelúja.
28 Þá gekk marskálkurinn fram og kallaði hárri röddu á Júda tungu, tók til máls og sagði: "Heyrið orð hins mikla konungs, Assýríukonungs!
29 Svo segir konungurinn: Látið eigi Hiskía tæla yður, því að hann fær ekki frelsað yður af hans hendi.
30 Og látið eigi Hiskía koma yður til að treysta á Drottin með því að segja: ,Drottinn mun vissulega frelsa oss, og þessi borg skal ekki verða Assýríukonungi í hendur seld.`
31 Hlustið eigi á Hiskía! Því að svo segir Assýríukonungur: Gjörið frið við mig og gangið mér á hönd, þá skal hver yðar mega eta af sínum vínviði og sínu fíkjutré og hver yðar drekka vatn úr sínum brunni,
32 þar til er ég kem og flyt yður í annað eins land og yðar land, í kornland og aldinlagar, í brauðland og víngarða, í olíuviðarland og hunangs, svo að þér megið lifa og eigi deyja. Hlustið því eigi á Hiskía! Því að hann ginnir yður, er hann segir: ,Drottinn mun frelsa oss.`
33 Hefir nokkur af guðum þjóðanna frelsað land sitt undan hendi Assýríukonungs?
34 Hvar eru guðir Hamatborgar og Arpadborgar? Hvar eru guðir Sefarvaím, Hena og Íva? Hafa þeir frelsað Samaríu undan minni hendi?
35 Hverjir eru þeir af öllum guðum landanna, er frelsað hafi lönd sín undan minni hendi, svo að Drottinn skyldi fá frelsað Jerúsalem undan minni hendi?"
36 En lýðurinn þagði og svaraði honum engu orði, því að skipun konungs var þessi: "Svarið honum eigi."
37 En þeir Eljakím Hilkíason dróttseti, Sébna kanslari og Jóak Asafsson ríkisritari gengu á fund Hiskía með sundurrifnum klæðum og fluttu honum orð marskálksins.
9 Er ég ekki frjáls? Er ég ekki postuli? Hef ég ekki séð Jesú, Drottin vorn? Eruð þér ekki verk mitt, sem ég hef unnið fyrir Drottin?
2 Þótt ekki væri ég postuli fyrir aðra, þá er ég það fyrir yður. Þér eruð staðfesting Drottins á postuladómi mínum.
3 Þetta er vörn mín gagnvart þeim, sem dæma um mig.
4 Höfum vér ekki rétt til að eta og drekka?
5 Höfum vér ekki rétt til að ferðast um með kristna eiginkonu, alveg eins og hinir postularnir og bræður Drottins og Kefas?
6 Eða erum við Barnabas þeir einu, sem eru ekki undanþegnir því að vinna?
7 Hver tekst nokkurn tíma herþjónustu á hendur á sjálfs sín mála? Hver plantar víngarð og neytir ekki ávaxtar hans? Hver gætir hjarðar og neytir ekki af mjólk hjarðarinnar?
8 Tala ég þetta á mannlegan hátt, eða segir ekki einnig lögmálið það?
9 Ritað er í lögmáli Móse: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir." Hvort lætur Guð sér annt um uxana?
10 Eða segir hann það ekki að öllu leyti vor vegna? Jú, vor vegna stendur skrifað, að sá sem plægir og sá sem þreskir eigi að gjöra það með von um hlutdeild í uppskerunni.
11 Ef vér nú höfum sáð hjá yður því, sem andlegt er, er það þá of mikið að vér uppskerum hjá yður það, sem líkamlegt er?
12 Ef aðrir hafa þennan rétt hjá yður, höfum vér hann þá ekki miklu fremur? En vér höfum ekki hagnýtt oss þennan rétt, heldur sættum oss við allt, til þess að tálma ekki fagnaðarerindinu um Krist.
13 Vitið þér ekki, að þeir, sem vinna við helgidóminn, lifa af því, sem kemur úr helgidóminum, og þeir, sem starfa við altarið, taka hlut með altarinu?
14 Þannig hefur Drottinn einnig fyrirskipað að þeir, sem prédika fagnaðarerindið, skuli lifa af fagnaðarerindinu.
15 En ég hef ekki hagnýtt mér neitt af þessu og ég skrifa þetta ekki heldur til þess, að svo verði við mig gjört. Mér væri betra að deyja, _ enginn skal ónýta það, sem ég hrósa mér af.
22 Margir munu segja við mig á þeim degi: ,Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?`
23 Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.`
24 Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni, er byggði hús sitt á bjargi.
25 Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi, því það var grundvallað á bjargi.
26 En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni, er byggði hús sitt á sandi.
27 Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll, og fall þess var mikið."
28 Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu, undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans,
29 því að hann kenndi þeim eins og sá, er vald hefur, og ekki eins og fræðimenn þeirra.
by Icelandic Bible Society