Book of Common Prayer
88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.
15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?
16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.
17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.
18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.
19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.
91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,
2 sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"
3 Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,
4 hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.
5 Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,
6 drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.
7 Þótt þúsund falli þér við hlið og tíu þúsund þér til hægri handar, þá nær það ekki til þín.
8 Þú horfir aðeins á með augunum, sér hversu óguðlegum er endurgoldið.
9 Þitt hæli er Drottinn, þú hefir gjört Hinn hæsta að athvarfi þínu.
10 Engin ógæfa hendir þig, og engin plága nálgast tjald þitt.
11 Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum.
12 Þeir munu bera þig á höndum sér, til þess að þú steytir ekki fót þinn við steini.
13 Þú skalt stíga ofan á höggorma og nöðrur, troða fótum ljón og dreka.
14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.
15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.
16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."
92 Gott er að lofa Drottin og lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti,
2 að kunngjöra miskunn þína að morgni og trúfesti þína um nætur
3 á tístrengjað hljóðfæri og hörpu með strengjaleik gígjunnar.
4 Þú hefir glatt mig, Drottinn, með dáð þinni, yfir handaverkum þínum fagna ég.
5 Hversu mikil eru verk þín, Drottinn, harla djúpar hugsanir þínar.
6 Fíflið eitt skilur eigi, og fáráðlingurinn einn skynjar eigi þetta.
7 Þegar óguðlegir greru sem gras og allir illgjörðamennirnir blómguðust, þá var það til þess að þeir skyldu afmáðir verða að eilífu,
8 en þú sem ert á hæðum, ert til að eilífu, Drottinn.
9 Því sjá, óvinir þínir, Drottinn, því sjá, óvinir þínir farast, allir illgjörðamennirnir tvístrast.
10 En mig lætur þú bera hornið hátt eins og vísundinn, mig hressir þú með ferskri olíu.
11 Auga mitt lítur með gleði á fjandmenn mína, eyra mitt heyrir með gleði um níðingana, er rísa gegn mér.
12 Hinir réttlátu gróa sem pálminn, vaxa sem sedrustréð á Líbanon.
13 Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, gróa í forgörðum Guðs vors.
14 Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir.
15 Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur, klettur minn, sem ekkert ranglæti er hjá.
17 Varðmaður stóð uppi á turninum í Jesreel, og er hann sá flokk Jehú koma, sagði hann: "Ég sé flokk manna." Þá mælti Jóram: "Tak riddara og send móti þeim til þess að spyrja þá, hvort þeir fari með friði."
18 Riddarinn fór í móti honum og sagði: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér." Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Sendimaðurinn er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur."
19 Þá sendi hann annan riddara, og er hann kom til þeirra, sagði hann: "Konungur lætur spyrja, hvort þér farið með friði." Jehú svaraði: "Hvað varðar þig um það? Snú við og fylg mér."
20 Varðmaðurinn sagði frá því og mælti: "Hann er kominn til þeirra, en kemur ekki aftur. Er þar ekið, sem aki þar Jehú Nimsíson, því að hann ekur eins og vitlaus maður."
21 Þá bauð Jóram að beita fyrir vagn sinn. Og er beitt hafði verið fyrir vagn hans, fóru þeir Jóram Ísraelskonungur og Ahasía Júdakonungur af stað, hvor á sínum vagni. Fóru þeir í móti Jehú og hittu hann á landspildu Nabóts Jesreelíta.
22 En er Jóram sá Jehú, sagði hann: "Fer þú með friði, Jehú?" Hann svaraði: "Hvað er um frið að ræða, meðan Jesebel móðir þín heldur áfram með hórdóm sinn og hina margvíslegu töfra sína?"
23 Þá sneri Jóram við og lagði á flótta og kallaði til Ahasía: "Svik, Ahasía!"
24 En Jehú þreif boga sinn og skaut Jóram milli herða, svo að örin gekk í gegnum hjartað, og hné hann niður í vagni sínum.
25 Þá sagði hann við Bídkar, riddara sinn: "Tak hann og kasta honum á landspildu Nabóts Jesreelíta, því að þú manst víst, að ég og þú riðum báðir á eftir Akab föður hans, þá er Drottinn kvað upp þessi dómsorð gegn honum:
26 ,Sannarlega sá ég í gær blóð Nabóts og blóð barna hans, segir Drottinn, og mun ég launa þér á landspildu þessari, segir Drottinn.` Tak hann því og kasta honum á landspilduna eftir orði Drottins."
27 Þegar Ahasía Júdakonungur sá þetta, flýði hann í áttina til garðhússins. En Jehú elti hann og sagði: "Hann líka! Skjótið hann í vagninum!" Og þeir skutu hann á Gúr-stígnum, sem er hjá Jibleam. Og hann flýði til Megiddó og dó þar.
28 Síðan settu menn hans hann á vagn og fluttu hann til Jerúsalem og jörðuðu hann í gröf hans hjá feðrum hans í borg Davíðs.
29 En Ahasía hafði orðið konungur í Júda á ellefta ríkisári Jórams Akabssonar.
30 Nú kom Jehú til Jesreel. En er Jesebel frétti það, smurði hún sig í kringum augun skrýddi höfuð sitt og horfði út um gluggann.
31 Og er Jehú kom í hliðið, kallaði hún: "Hvernig líður Simrí, sem myrti herra sinn?"
32 En hann leit upp í gluggann og mælti: "Hver er með mér, hver?" Og er tveir eða þrír hirðmenn litu út til hans,
33 sagði hann: "Kastið henni ofan!" Og þeir köstuðu henni ofan, og slettist þá blóð hennar á vegginn og hestana, og tróðu þeir hana undir fótunum.
34 En hann gekk inn og át og drakk. Síðan sagði hann: "Lítið eftir þessari bölvuðu konu og jarðið hana, því að konungsdóttir er hún."
35 Þá fóru þeir til þess að jarða hana, en fundu ekkert af henni, nema hauskúpuna og fætur og hendur.
36 Og er þeir komu aftur og sögðu honum frá, mælti hann: "Rætast nú orð Drottins, þau er hann talaði fyrir munn þjóns síns Elía frá Tisbe: ,Á landareign Jesreelborgar skulu hundar eta hold Jesebelar,
37 og hræ Jesebelar skal liggja á landareign Jesreelborgar sem tað á túni, svo að menn skulu ekki geta sagt: Það er Jesebel."`
7 En svo að ég minnist á það, sem þér hafið ritað um, þá er það gott fyrir mann að snerta ekki konu.
2 En vegna saurlifnaðarins hafi hver og einn sína eiginkonu og hver og ein hafi sinn eiginmann.
3 Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum.
4 Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan.
5 Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir, til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.
6 Þetta segi ég í tilhliðrunarskyni, ekki sem skipun.
7 En þess óska ég, að allir menn væru eins og ég er sjálfur, en hver hefur sína náðargjöf frá Guði, einn þessa og annar hina.
8 Hinum ókvæntu og ekkjunum segi ég, að þeim er best að halda áfram að vera ein eins og ég.
9 En hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband, því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.
7 Þegar þér biðjist fyrir, skuluð þér ekki fara með fánýta mælgi að hætti heiðingja. Þeir hyggja, að þeir verði bænheyrðir fyrir mælgi sína.
8 Líkist þeim ekki. Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann.
9 En þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn,
10 til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
11 Gef oss í dag vort daglegt brauð.
12 Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
13 Og eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. [Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu, amen.]
14 Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.
15 En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.
by Icelandic Bible Society