Book of Common Prayer
50 Asafs-sálmur. Drottinn er alvaldur Guð, hann talar og kallar á jörðina frá upprás sólar til niðurgöngu hennar.
2 Frá Síon, ímynd fegurðarinnar, birtist Guð í geisladýrð.
3 Guð vor kemur og þegir ekki. Eyðandi eldur fer fyrir honum, og í kringum hann geisar stormurinn.
4 Hann kallar á himininn uppi og á jörðina, til þess að dæma lýð sinn:
5 "Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum."
6 Þá kunngjörðu himnarnir réttlæti hans, því að Guð er sá sem dæmir. [Sela]
7 "Heyr, þjóð mín, og lát mig tala, Ísrael, og lát mig áminna þig, ég er Drottinn, Guð þinn!
8 Eigi er það vegna fórna þinna, að ég ávíta þig, brennifórnir þínar eru stöðuglega frammi fyrir mér.
9 Ég þarf ekki að taka uxa úr húsi þínu né geithafra úr stíu þinni,
10 því að mín eru öll skógardýrin og skepnurnar á fjöllum þúsundanna.
11 Ég þekki alla fugla á fjöllunum, og mér er kunnugt um allt það sem hrærist á mörkinni.
12 Væri ég hungraður, mundi ég ekki segja þér frá því, því að jörðin er mín og allt sem á henni er.
13 Et ég nauta kjöt, eða drekk ég hafra blóð?
14 Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.
15 Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig."
16 En við hinn óguðlega segir Guð: "Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn,
17 þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér?
18 Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.
19 Þú hleypir munni þínum út í illsku, og tunga þín bruggar svik.
20 Þú situr og bakmælir bróður þínum og ófrægir son móður þinnar.
21 Slíkt hefir þú gjört, og ég ætti að þegja? Þú heldur, að ég sé líkur þér! Ég mun hegna þér og endurgjalda þér augljóslega.
22 Hyggið að þessu, þér sem gleymið Guði, til þess að ég sundurrífi ekki og enginn fái bjargað.
23 Sá sem færir þakkargjörð að fórn, heiðrar mig, og þann sem breytir grandvarlega, vil ég láta sjá hjálpræði Guðs."
59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.
2 Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.
3 Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,
4 því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.
5 Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!
6 En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]
7 Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
8 Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"
9 En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.
10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.
11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.
12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,
13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.
14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]
15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.
16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.
17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.
18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.
60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,
2 þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.
3 Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.
4 Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.
5 Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.
6 Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]
7 Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
93 Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir íklæðst hátign, Drottinn hefir skrýðst, hann hefir spennt sig belti styrkleika síns og fest jörðina, svo að hún haggast eigi.
2 Hásæti þitt stendur stöðugt frá öndverðu, frá eilífð ert þú.
3 Straumarnir hófu upp, Drottinn, straumarnir hófu upp raust sína, straumarnir hófu upp dunur sínar.
4 Drottinn á hæðum er tignarlegri en gnýr mikilla, tignarlegra vatna, tignarlegri en boðar hafsins.
5 Vitnisburðir þínir eru harla áreiðanlegir, húsi þínu hæfir heilagleiki, ó Drottinn, um allar aldir.
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
18 Löngu síðar kom orð Drottins til Elía, á þriðja ári þurrksins, svolátandi: "Far og lát Akab sjá þig. Ég ætla að gefa regn á jörð."
2 Þá fór Elía, til þess að láta Akab sjá sig. Hallærið var mikið í Samaríu.
3 Kallaði Akab þá Óbadía dróttseta fyrir sig. En Óbadía óttaðist Drottin mjög.
4 Fyrir því tók Óbadía, þá er Jesebel útrýmdi spámönnum Drottins, hundrað spámenn og fal þá, sína fimmtíu menn í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni.
5 Akab sagði við Óbadía: "Kom þú, við skulum fara um landið og leita uppi allar vatnslindir og alla læki. Vera má, að við finnum gras, svo að við getum haldið lífinu í hestum og múlum og þurfum ekki að fella nokkurn hluta af skepnunum."
6 Síðan skiptu þeir með sér landinu til yfirferðar. Akab fór einn sér í aðra áttina, og Óbadía fór einn sér í hina áttina.
7 En er Óbadía var á leiðinni, sjá, þá mætti Elía honum. Og er hann þekkti hann, féll hann fram á ásjónu sína og mælti: "Ert það þú, herra minn Elía?"
8 Hann svaraði honum: "Er ég víst. Far og seg herra þínum: Elía er hér!"
9 En Óbadía mælti: "Hvað hefi ég misgjört, er þú vilt selja þjón þinn í hendur Akab, svo að hann drepi mig?
10 Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, er engin sú þjóð til og ekkert það konungsríki, að herra minn hafi ekki sent þangað til þess að leita þín, og ef sagt var: ,Hann er hér ekki!` þá lét hann konungsríkið og þjóðina vinna eið að því, að enginn hefði hitt þig.
11 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!`
12 En færi ég nú frá þér, þá mundi andi Drottins hrífa þig, ég veit ekki hvert, og ef ég þá kæmi til þess að segja Akab frá þessu, og hann fyndi þig ekki, þá mundi hann drepa mig, og þó hefir þjónn þinn óttast Drottin í frá barnæsku.
13 Hefir ekki herra minn frétt, hvað ég gjörði, er Jesebel drap spámenn Drottins, að ég fal hundrað manns af spámönnum Drottins, sína fimmtíu manns í hvorum helli, og birgði þá upp með brauði og vatni?
14 Og þó segir þú nú: ,Far og seg herra þínum: Elía er hér!` til þess að hann drepi mig."
15 En Elía svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna, mun ég láta Akab sjá mig þegar í dag."
16 Þá fór Óbadía til móts við Akab og sagði honum frá þessu. Fór þá Akab til fundar við Elía.
17 En er Akab sá Elía, sagði Akab við hann: "Ert þú þar, skaðvaldur Ísraels?"
18 Elía svaraði: "Eigi hefi ég valdið Ísrael skaða, heldur þú og ætt þín, þar sem þér hafið virt boð Drottins að vettugi og þú elt Baalana.
19 En send þú nú og stefn til mín öllum Ísrael á Karmelfjalli, svo og þeim fjögur hundruð og fimmtíu Baalsspámönnum og þeim fjögur hundruð Aséruspámönnum, er eta við borð Jesebelar."
12 Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.
13 Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.
14 Gjörið allt án þess að mögla og hika,
15 til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum.
16 Haldið fast við orð lífsins, mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis.
17 Og enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína, þegar ég ber trú yðar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst yður öllum.
18 Af hinu sama skuluð þér einnig gleðjast og samgleðjast mér.
19 En ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar, til þess að mér verði einnig hughægra, þá er ég fæ að vita um hagi yðar.
20 Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. _
21 Allir leita þess, sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er. _
22 En þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.
23 Hann vona ég þá að geta sent, jafnskjótt og ég sé, hvað um mig verður.
24 En ég ber það traust til Drottins, að ég muni og bráðum koma sjálfur.
25 Ég taldi það og nauðsynlegt að senda til yðar Epafrodítus, bróður minn, samverkamann og samherja, en sendimann yðar og erindreka í því að bæta úr þörf minni.
26 Hann hefur þráð yður alla og liðið illa út af því, að þér höfðuð heyrt, að hann hefði orðið sjúkur.
27 Því sjúkur varð hann, að dauða kominn, en Guð miskunnaði honum og ekki einungis honum, heldur og mér, til þess að ég skyldi eigi hafa hryggð á hryggð ofan.
28 Fyrir því læt ég mér enn annara um að senda hann heim, til þess að þér verðið aftur glaðir, er þér sjáið hann, og mér verði hughægra.
29 Takið því á móti honum í nafni Drottins með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri.
30 Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp það, sem brast á hjálp yðar mér til handa.
13 Þegar þeir voru farnir, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera, uns ég segi þér, því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því."
14 Hann vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands.
15 Þar dvaldist hann þangað til Heródes var allur. Það sem Drottinn sagði fyrir munn spámannsins, skyldi rætast: "Frá Egyptalandi kallaði ég son minn."
16 Þá sá Heródes, að vitringarnir höfðu gabbað hann, og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri, en það svaraði þeim tíma, er hann hafði komist að hjá vitringunum.
17 Nú rættist það, sem sagt var fyrir munn Jeremía spámanns:
18 Rödd heyrðist í Rama, grátur og kveinstafir miklir, Rakel grætur börnin sín og vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.
19 Þegar Heródes var dáinn, þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi
20 og segir: "Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir, sem sátu um líf barnsins."
21 Hann tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.
22 En þá er hann heyrði, að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar föður síns, óttaðist hann að fara þangað, og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi.
23 Þar settist hann að í borg, sem heitir Nasaret, en það átti að rætast, sem sagt var fyrir munn spámannanna: "Nasarei skal hann kallast."
by Icelandic Bible Society