Book of Common Prayer
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.
2 Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.
3 Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,
4 því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]
5 Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]
6 Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.
7 Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]
8 Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:
9 Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.
10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.
11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
12 Rehabeam fór til Síkem, því að allur Ísrael var kominn þangað til þess að taka hann til konungs.
2 En er Jeróbóam Nebatsson frétti (hann var enn í Egyptalandi, þangað sem hann hafði flúið undan Salómon konungi), að Salómon væri dáinn, sneri hann heim frá Egyptalandi.
3 Þeir sendu boð og létu kalla hann. Þá kom Jeróbóam og allur söfnuður Ísraels og mæltu til Rehabeams á þessa leið:
4 "Faðir þinn lagði á oss hart ok, en gjör þú nú léttari hina hörðu ánauð föður þíns og hið þunga ok, er hann á oss lagði, og munum vér þjóna þér."
5 Hann svaraði þeim: "Farið nú burt og komið aftur til mín að þrem dögum liðnum." Og lýðurinn fór burt.
6 Þá ráðgaðist Rehabeam konungur við öldungana, sem þjónað höfðu Salómon föður hans meðan hann lifði, og mælti: "Hver andsvör ráðið þér mér að gefa þessum mönnum?"
7 Þeir svöruðu honum og mæltu: "Ef þú í dag verður lýð þessum eftirlátur, lætur að orðum þeirra, gjörir að vilja þeirra og tekur vel máli þeirra, munu þeir verða þér eftirlátir alla daga."
8 En Rehabeam hafnaði ráði því, er öldungarnir réðu honum, en ráðgaðist við unga menn, er vaxið höfðu upp með honum og nú þjónuðu honum,
9 og sagði við þá: "Hver ráð gefið þér til, hversu vér skulum svara lýð þessum, er talað hefir til mín á þessa leið: ,Gjör léttara ok það, er faðir þinn á oss lagði`?"
10 Þá svöruðu honum hinir ungu menn, er vaxið höfðu upp með honum: "Svo skalt þú svara lýð þessum, er sagði við þig: ,Faðir þinn gjörði ok vort þungt, en gjör þú oss það léttara` _ svo skalt þú mæla til þeirra: ,Litlifingur minn er digrari en lendar föður míns.
11 Hafi faðir minn lagt á yður þungt ok, mun ég gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."`
12 Og Jeróbóam og allur lýðurinn kom til Rehabeams á þriðja degi, eins og konungur hafði sagt, þá er hann mælti: "Komið til mín aftur á þriðja degi."
13 Þá veitti konungur lýðnum hörð andsvör og fór eigi að ráðum þeim, er öldungarnir höfðu ráðið honum,
14 en talaði til þeirra á þessa leið, að ráði hinna ungu manna: "Faðir minn gjörði ok yðar þungt, en ég mun gjöra ok yðar enn þyngra. Faðir minn refsaði yður með keyrum, en ég mun refsa yður með gaddasvipum."
15 Þannig veitti konungur lýðnum enga áheyrn, því að svo var til stillt af Drottni, til þess að hann gæti látið rætast orð sín, þau er hann hafði talað til Jeróbóams Nebatssonar fyrir munn Ahía frá Síló.
16 Er allur Ísrael sá, að konungur veitti þeim enga áheyrn, þá lét lýðurinn þessi svör í móti koma: "Hverja hlutdeild eigum vér í Davíð? Engan erfðahlut eigum vér í Ísaísyni. Far heim til þín, Ísrael! Gæt þú þíns eigin húss, Davíð!" Síðan fór Ísrael heim til sín.
17 En yfir þeim Ísraelsmönnum, er bjuggu í Júdaborgum, var Rehabeam konungur.
18 Rehabeam konungur sendi til þeirra Adóníram, sem var yfir kvaðarmönnum, en allur Ísrael lamdi hann grjóti til bana, og Rehabeam konungur hljóp í skyndi á vagn sinn og flýði til Jerúsalem.
19 Þannig gekk Ísrael undan ætt Davíðs, og stendur svo enn í dag.
20 Þegar Ísraelslýður heyrði, að Jeróbóam væri aftur kominn, sendu þeir og kölluðu hann á þingið og tóku hann til konungs yfir allan Ísrael. En enginn fylgdi Davíðsætt, nema Júda-ættkvísl ein.
7 Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn.
8 Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.
9 Kvartið ekki hver yfir öðrum, bræður, svo að þér verðið ekki dæmdir. Dómarinn stendur fyrir dyrum.
10 Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði.
11 Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið. Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.
12 En umfram allt, bræður mínir, sverjið ekki, hvorki við himininn né við jörðina né nokkurn annan eið. En já yðar sé já, nei yðar sé nei, til þess að þér fallið ekki undir dóm.
19 Bræður mínir, ef einhver meðal yðar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur,
33 Á hádegi varð myrkur um allt land til nóns.
34 Og á nóni kallaði Jesús hárri röddu: "Elóí, Elóí, lama sabaktaní!" Það þýðir: Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?
35 Nokkrir þeirra, er hjá stóðu, heyrðu þetta og sögðu: "Heyrið, hann kallar á Elía!"
36 Hljóp þá einn til, fyllti njarðarvött ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka. Hann mælti: "Látum sjá, hvort Elía kemur að taka hann ofan."
37 En Jesús kallaði hárri röddu og gaf upp andann.
38 Og fortjald musterisins rifnaði í tvennt, ofan frá allt niður úr.
39 Þegar hundraðshöfðinginn, sem stóð gegnt honum, sá hann gefa upp andann á þennan hátt, sagði hann: "Sannarlega var þessi maður sonur Guðs."
by Icelandic Bible Society