Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:145-176

145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.

146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.

147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.

148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.

149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.

150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.

151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.

152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.

153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.

154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.

155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.

156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.

157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.

158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.

159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.

160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.

161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.

162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.

163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.

164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.

165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.

166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.

167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.

168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.

169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.

170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.

171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.

172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.

173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.

174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.

175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.

176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.

Sálmarnir 128-130

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _

þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.

Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,

en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.

Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.

Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.

Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,

og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Síðari Samúelsbók 18:19-23

19 Akímaas Sadóksson mælti: "Ég ætla að hlaupa og færa konungi fagnaðartíðindin, að Drottinn hafi rétt hluta hans á óvinum hans."

20 En Jóab sagði við hann: "Þú ert ekki maður til að flytja tíðindin í dag. Öðru sinni getur þú flutt tíðindin, en í dag getur þú ekki flutt tíðindin, því að konungsson er dauður."

21 Því næst sagði Jóab við Blálendinginn: "Far þú og seg konunginum það, sem þú hefir séð." Þá laut Blálendingurinn Jóab og hljóp af stað.

22 Akímaas Sadóksson kom enn að máli við Jóab og mælti: "Komi hvað sem koma vill: Leyf og mér að fara og hlaupa á eftir Blálendingnum." Jóab svaraði: "Til hvers viltu vera að hlaupa þetta, sonur minn, þar sem þér þó eigi munu greidd verða nein sögulaunin."

23 Hann svaraði: "Komi hvað sem koma vill: Ég hleyp." Þá sagði Jóab við hann: "Hlauptu þá!" Þá hljóp Akímaas af stað veginn yfir Jórdansléttlendið og komst á undan Blálendingnum.

Postulasagan 23:23-35

23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: "Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða.

24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra."

25 Og hann ritaði bréf, svo hljóðandi:

26 "Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra.

27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi, er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því, að hann var rómverskur, og bjargaði honum.

28 En ég vildi vita, fyrir hverja sök þeir ákærðu hann, og fór með hann niður í ráð þeirra.

29 Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi.

30 En þar sem ég hef fengið bendingu um, að setið sé um líf mannsins, sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér."

31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann um nótt til Antípatris.

32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans, en létu riddarana fara með honum.

33 Þeir fóru inn í Sesareu, skiluðu bréfinu til landstjórans og færðu Pál fyrir hann.

34 Hann las bréfið og spurði, úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð, að hann væri frá Kilikíu.

35 Þá mælti hann: "Ég mun rannsaka mál þitt, þegar kærendur þínir koma." Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.

Markúsarguðspjall 12:13-27

13 Þá sendu þeir til hans nokkra farísea og Heródesarsinna, og skyldu þeir veiða hann í orðum.

14 Þeir koma og segja við hann: "Meistari, vér vitum, að þú ert sannorður og hirðir ekki um álit neins, enda gjörir þú þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika. Leyfist að gjalda keisaranum skatt eða ekki? Eigum vér að gjalda eða ekki gjalda?"

15 En hann sá hræsni þeirra og sagði við þá: "Hví freistið þér mín? Fáið mér denar, látið mig sjá."

16 Þeir fengu honum pening. Hann spyr: "Hvers mynd og yfirskrift er þetta?" Þeir svöruðu: "Keisarans."

17 En Jesús sagði við þá: "Gjaldið keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er." Og þá furðaði stórlega á honum.

18 Saddúkear komu til hans, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

19 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, ,að deyi maður barnlaus, en láti eftir sig konu, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.`

20 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu, en dó barnlaus.

21 Annar bróðirinn gekk að eiga hana og dó barnlaus. Eins hinn þriðji,

22 og allir sjö urðu barnlausir. Síðast allra dó konan.

23 Í upprisunni, þegar menn rísa upp, kona hvers þeirra verður hún þá? Allir sjö höfðu átt hana."

24 Jesús svaraði þeim: "Er það ekki þetta, sem veldur því, að þér villist: Þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs?

25 Þegar menn rísa upp frá dauðum, kvænast þeir hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himnum.

26 En um þá dauðu, að þeir rísa upp, hafið þér ekki lesið það í bók Móse, í sögunni um þyrnirunninn? Guð segir við Móse: ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`

27 Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda. Þér villist stórlega."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society