Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 120-127

120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.

Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.

Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?

Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.

Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.

Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.

Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."

Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.

Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,

þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,

því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.

Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.

Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.

Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _

hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,

þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.

Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,

þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.

Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.

Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.

Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.

125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.

Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.

Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.

Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.

En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!

126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.

Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."

Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.

Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.

Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.

Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.

Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!

Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.

Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.

Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.

Síðari Samúelsbók 18:9-18

Þá vildi svo til, að Absalon rakst á menn Davíðs. Absalon reið múl einum, og rann múllinn inn undir þétt lim mikillar eikar og festist höfuð hans í eikinni. Hékk hann þar milli himins og jarðar, en múllinn, sem hann reið, rann undan honum.

10 Þetta sá maður nokkur, sagði Jóab frá því og mælti: "Sjá, ég sá Absalon hanga í eik einni."

11 Þá sagði Jóab við manninn, sem færði honum tíðindin: "Nú, fyrst þú sást hann, hví vannst þú þá ekki þegar á honum? Þá skyldi ég hafa gefið þér tíu sikla silfurs og belti."

12 Þá sagði maðurinn við Jóab: "Þó að taldir væru í lófa mér þúsund siklar silfurs, mundi ég samt ekki leggja hönd á konungsson, því að í áheyrn vorri lagði konungur svo fyrir þig, Abísaí og Íttaí: ,Gætið sveinsins Absalons.`

13 En ef ég hefði breytt sviksamlega við hann _ og enginn hlutur er konungi hulinn _, þá mundir þú hafa staðið fjarri."

14 Þá sagði Jóab: "Ekki má ég þá lengur tefja hjá þér," _ greip þrjú skotspjót og rak þau í brjóst Absalons. En með því að hann var enn með lífi í limi eikarinnar,

15 þustu að tíu knapar, skjaldsveinar Jóabs, og lustu Absalon til bana.

16 Þá lét Jóab þeyta lúðurinn, og liðið hætti að elta Ísrael, því að Jóab stöðvaði herinn.

17 Síðan tóku þeir Absalon, köstuðu honum í gryfju eina mikla þar í skóginum og urpu yfir hann afar mikla steindys, en allir Ísraelsmenn flýðu, hver heim til sín.

18 Absalon hafði þegar í lifanda lífi tekið merkissteininn í Kóngsdal og reist hann sér að minnisvarða, með því að hann hugsaði: "Ég á engan son til að halda uppi nafni mínu," og nefnt merkissteininn nafni sínu. Fyrir því er hann enn í dag nefndur Absalonsvarði.

Postulasagan 23:12-24

12 Þegar dagur rann, bundust Gyðingar samtökum og sóru þess eið að eta hvorki né drekka, fyrr en þeir hefðu ráðið Pál af dögum.

13 Voru þeir fleiri en fjörutíu, sem þetta samsæri gjörðu.

14 Þeir fóru til æðstu prestanna og öldunganna og sögðu: "Vér höfum svarið þess dýran eið að neyta einskis, fyrr en vér höfum ráðið Pál af dögum.

15 Nú skuluð þér og ráðið leggja til við hersveitarforingjann, að hann láti senda hann niður til yðar, svo sem vilduð þér kynna yður mál hans rækilegar. En vér erum við því búnir að vega hann, áður en hann kemst alla leið."

16 En systursonur Páls heyrði um fyrirsátina. Hann gekk inn í kastalann og sagði Páli frá.

17 Páll kallaði til sín einn hundraðshöfðingjann og mælti: "Far þú með þennan unga mann til hersveitarforingjans, því að hann hefur nokkuð að segja honum."

18 Hundraðshöfðinginn tók hann með sér, fór með hann til hersveitarforingjans og sagði: "Fanginn Páll kallaði mig til sín og bað mig fara til þín með þennan unga mann. Hann hefur eitthvað að segja þér."

19 Hersveitarforinginn tók í hönd honum, leiddi hann afsíðis og spurði: "Hvað er það, sem þú hefur að segja mér?"

20 Hinn svaraði: "Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að senda Pál niður í ráðið á morgun, þar eð þeir ætli að rannsaka mál hans rækilegar.

21 En lát þú ekki að vilja þeirra, því að menn þeirra, fleiri en fjörutíu, sitja fyrir honum og hafa svarið þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hafi vegið hann. Nú eru þeir viðbúnir og bíða eftir, að svarið komi frá þér."

22 Hersveitarforinginn lét piltinn fara og bauð honum: "Þú mátt engum segja, að þú hafir gjört mér viðvart um þetta."

23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: "Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða.

24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra."

Markúsarguðspjall 11:27-12:12

27 Þeir koma aftur til Jerúsalem, og þegar hann var á gangi í helgidóminum, koma til hans æðstu prestarnir, fræðimennirnir og öldungarnir

28 og segja við hann: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér það vald, að þú gjörir þetta?"

29 Jesús sagði við þá: "Ég vil leggja eina spurningu fyrir yður. Svarið henni, og ég mun segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

30 Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum? Svarið mér!"

31 Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?

32 Eða ættum vér að svara: Frá mönnum?" _ það þorðu þeir ekki fyrir lýðnum, því allir töldu, að Jóhannes hefði verið sannur spámaður.

33 Þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."

12 Og hann tók að tala til þeirra í dæmisögum: "Maður plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.

Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna að fá hjá þeim hlut af ávexti víngarðsins.

En þeir tóku hann og börðu og sendu burt tómhentan.

Aftur sendi hann til þeirra annan þjón. Hann lömdu þeir í höfuðið og svívirtu.

Enn sendi hann annan, og hann drápu þeir, og marga fleiri ýmist börðu þeir eða drápu.

Einn átti hann eftir enn, elskaðan son. Hann sendi hann síðastan til þeirra og sagði: ,Þeir munu virða son minn.`

En vínyrkjar þessir sögðu sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, þá fáum vér arfinn.`

Og þeir tóku hann og drápu og köstuðu honum út fyrir víngarðinn.

Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra? Hann mun koma, tortíma vínyrkjunum og fá öðrum víngarðinn.

10 Hafið þér eigi lesið þessa ritningu: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn.

11 Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum."

12 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögunni. Og þeir yfirgáfu hann og gengu burt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society