Book of Common Prayer
45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.
2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.
3 Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.
4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.
5 Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.
6 Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.
7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.
8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.
9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.
10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.
11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,
12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.
13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."
14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.
15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.
16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.
17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.
18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.
47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]
6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!
9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
25 Samúel dó, og allur Ísrael safnaðist saman og syrgði hann, og var hann grafinn hjá húsi sínu í Rama. Davíð tók sig upp og fór ofan í Maoneyðimörk.
2 En í Maon var maður, er bú átti í Karmel. Hann var auðugur mjög og átti þrjú þúsund sauðfjár og eitt þúsund geitur. Hann var þá að klippa sauði sína í Karmel.
3 Maður þessi hét Nabal og kona hans Abígail. Hún var kona vitur og fríð sýnum, en hann maður harður og illur viðureignar. Hann var af ætt Kalebs.
4 Og Davíð frétti í eyðimörkinni, að Nabal væri að klippa sauði sína.
5 Þá sendi Davíð tíu sveina. Og Davíð sagði við sveinana: "Farið til Karmel og gangið á fund Nabals og berið honum kveðju mína
6 og mælið svo við bróður minn: Heill sért þú og heill sé húsi þínu og heill sé öllu, sem þú átt.
7 Nú hefi ég heyrt, að verið sé að klippa sauði þína. Fjárhirðar þínir hafa með oss verið og vér höfum þeim ekkert mein gjört, enda hefir þeim einskis vant orðið allan þann tíma, er þeir hafa verið í Karmel.
8 Spyr þú sveina þína, og munu þeir segja þér hið sanna. Lát því sveinana finna náð í augum þínum, því að á hátíðardegi erum vér komnir. Gef því þjónum þínum og Davíð syni þínum það, sem þú hefir fyrir hendi."
9 Þegar sveinar Davíðs komu á fund Nabals, fluttu þeir honum öll þessi orð í nafni Davíðs og þögnuðu síðan.
10 En Nabal svaraði þjónum Davíðs og mælti: "Hver er Davíð? Og hver er Ísaíson? Margir gjörast þeir nú þrælarnir, sem strjúka frá húsbændum sínum.
11 Á ég að taka brauð mitt og vín og sláturfé mitt, sem ég hefi slátrað handa sauðaklippurum mínum, og gefa það mönnum, sem ég ekki einu sinni veit hvaðan eru?"
12 Þá sneru sveinar Davíðs á leið og hurfu aftur og komu og fluttu honum öll þessi orð.
13 Þá mælti Davíð til sinna manna: "Gyrðið yður nú, hver sínu sverði!" Og þeir gyrtu sig, hver sínu sverði. Síðan gyrtist og Davíð sínu sverði, og lögðu þeir nú af stað undir forystu Davíðs, um fjögur hundruð manns, en tvö hundruð urðu eftir hjá farangrinum.
14 Einn af sveinum Nabals sagði Abígail, konu Nabals, frá þessu og mælti: "Sjá, Davíð gjörði sendimenn úr eyðimörkinni með kveðju til húsbónda vors, en hann jós yfir þá fáryrðum.
15 Og menn þessir hafa þó verið mjög góðir við oss. Oss hefir ekkert mein verið gjört og oss hefir einskis vant orðið allan þann tíma, er vér héldum oss nálægt þeim, meðan vér vorum í haganum.
16 Þeir voru sem varnargarður í kringum oss bæði um nætur og daga allan þann tíma, er vér héldum fénu til haga nálægt þeim.
17 Hygg nú að og sjá til, hvað þú skalt gjöra, því að ógæfa er búin húsbónda vorum og öllu húsi hans, en hann er slíkt hrakmenni, að ekki má við hann mæla."
18 Þá brá Abígail við og tók tvö hundruð brauð og tvo vínlegla, fimm tilreidda sauði og fimm mæla af bökuðu korni, hundrað rúsínukökur og tvö hundruð fíkjukökur og klyfjaði með asna
19 og sagði við sveina sína: "Farið á undan mér, sjá, ég kem á eftir yður." En Nabal manni sínum sagði hún ekki frá þessu.
20 Og er hún kom ríðandi á asna ofan fjallið og var í hvarfi, sjá, þá kom Davíð með menn sína ofan í móti henni, og rakst hún þar á þá.
21 En Davíð hafði sagt: "Já, til einskis hefi ég varðveitt allt, sem sá maður átti á eyðimörkinni, svo að einskis varð vant af öllu, sem hann átti. Hann hefir launað mér gott með illu.
22 Guð láti Davíð gjalda þess nú og síðar, ef ég læt eftir verða einn karlmann af öllu því, sem hann á, þegar birtir á morgun."
14 Í Íkóníum gengu þeir á sama hátt inn í samkundu Gyðinga og töluðu þannig, að mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú.
2 En vantrúa Gyðingar vöktu æsing með heiðingjum og illan hug gegn bræðrunum.
3 Dvöldust þeir þar alllangan tíma og töluðu djarflega í trausti til Drottins, sem staðfesti orð náðar sinnar með því að láta tákn og undur gerast fyrir hendur þeirra.
4 Skiptust nú borgarbúar í tvo flokka, og voru sumir með Gyðingum, aðrir með postulunum.
5 Heiðingjar og Gyðingar gjörðu ásamt yfirvöldum sínum samblástur um að misþyrma þeim og grýta þá.
6 Þeir komust að þessu og flýðu til borganna Lýstru og Derbe í Lýkaóníu og héraðsins umhverfis.
7 Þar héldu þeir áfram að flytja fagnaðarerindið.
8 Í Lýstru var maður nokkur máttvana í fótum, lami frá móðurlífi, og hafði aldrei getað gengið.
9 Maður þessi heyrði á mál Páls, en Páll horfði á hann og sá, að hann hafði trú til þess að verða heill,
10 og sagði hárri raustu: "Rís upp og stattu í fæturna!" Hann spratt upp og tók að ganga.
11 Múgurinn sá, hvað Páll hafði gjört, og tók að hrópa á lýkaónsku: "Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor."
12 Kölluðu þeir Barnabas Seif, en Pál Hermes, því að hann hafði orð fyrir þeim.
13 En prestur í hofi Seifs utan borgar kom með naut og kransa að borgarhliðunum og vildi færa fórnir ásamt fólkinu.
14 Þegar postularnir, Barnabas og Páll, heyrðu þetta, rifu þeir klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu:
15 "Menn, hví gjörið þér þetta? Menn erum vér sem þér, yðar líkar, og flytjum yður þau fagnaðarboð, að þér skuluð hverfa frá þessum fánýtu goðum til lifanda Guðs, sem skapaði himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er.
16 Hann hefur um liðnar aldir leyft, að sérhver þjóð gengi sína vegu.
17 En þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði."
18 Með þessum orðum fengu þeir með naumindum fólkið ofan af því að færa þeim fórnir.
21 Og hann sagði við þá: "Ekki bera menn ljós inn og setja það undir mæliker eða bekk? Er það ekki sett á ljósastiku?
22 Því að ekkert er hulið, að það verði eigi gjört opinbert, né leynt, að það komi ekki í ljós.
23 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!"
24 Enn sagði hann við þá: "Gætið að, hvað þér heyrið. Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða og við yður bætt.
25 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur."
26 Þá sagði hann: "Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð.
27 Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti.
28 Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu.
29 En þá er ávöxturinn er fullþroska, lætur hann þegar bera út sigðina, því að uppskeran er komin."
30 Og hann sagði: "Við hvað eigum vér að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum vér að lýsa því?
31 Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold, er það smærra hverju sáðkorni á jörðu.
32 En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar, að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess."
33 Í mörgum slíkum dæmisögum flutti hann þeim orðið, svo sem þeir gátu numið,
34 og án dæmisagna talaði hann ekki til þeirra, en fyrir lærisveinum sínum skýrði hann allt, þegar þeir voru einir.
by Icelandic Bible Society