Book of Common Prayer
1 Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,
2 heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
3 Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.
4 Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
5 Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.
6 Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
2 Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?
2 Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:
3 "Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."
4 Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.
5 Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:
6 "Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."
7 Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.
8 Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.
9 Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."
10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.
11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.
12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,
13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
4 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.
2 Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.
3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]
4 Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.
5 Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]
6 Færið réttar fórnir og treystið Drottni.
7 Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.
8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.
9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
15 Samúel sagði við Sál: "Drottinn sendi mig til þess að smyrja þig til konungs yfir lýð sinn Ísrael. Hlýð því boði Drottins.
2 Svo segir Drottinn allsherjar: Ég vil hefna þess, er Amalek gjörði Ísrael, að hann gjörði honum farartálma, þá er hann fór af Egyptalandi.
3 Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna."
7 Sál vann sigur á Amalek frá Havíla suður undir Súr, sem liggur fyrir austan Egyptaland.
8 Og Agag, konung Amaleks, tók hann höndum lifandi, en fólkið allt bannfærði hann með sverðseggjum.
9 Þó þyrmdi Sál og fólkið Agag og bestu sauðunum og nautunum, öldu og feitu skepnunum, og öllu því, sem vænt var, og vildu ekki bannfæra það. En allt það af fénaðinum, sem var lélegt og rýrt, bannfærðu þeir.
10 Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi:
11 "Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín." Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina.
12 Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: "Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal."
13 Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: "Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins."
14 En Samúel mælti: "Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?"
15 Sál svaraði: "Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært."
16 Samúel sagði við Sál: "Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt." Sál sagði við hann: "Tala þú!"
17 Samúel mælti: "Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael?
18 Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.`
19 Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?"
20 Þá mælti Sál við Samúel: "Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað.
21 En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa."
22 Samúel mælti: "Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.
23 Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi."
19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus
20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.
21 Allir þeir, sem heyrðu það, undruðust stórum og sögðu: "Er þetta ekki maðurinn, sem í Jerúsalem hugðist eyða þeim, er ákölluðu þetta nafn? Kom hann ekki hingað til að fara með þá í böndum til æðstu prestanna?"
22 En Sál efldist æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.
23 Að allmörgum dögum liðnum réðu Gyðingar með sér að taka hann af lífi.
24 En Sál fékk vitneskju um ráðagjörð þeirra. Þeir gættu borgarhliðanna nótt og dag til að ná lífi hans.
25 En lærisveinarnir tóku hann um nótt og komu honum út fyrir borgarmúrinn með því að láta hann síga ofan í körfu.
26 Þá er hann kom til Jerúsalem, reyndi hann að samlaga sig lærisveinunum, en þeir hræddust hann allir og trúðu ekki, að hann væri lærisveinn.
27 En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna og skýrði þeim frá, hvernig hann hefði séð Drottin á veginum, hvað hann hefði sagt við hann og hversu einarðlega hann hefði talað í Jesú nafni í Damaskus.
28 Dvaldist hann nú með þeim í Jerúsalem, gekk þar út og inn og talaði einarðlega í nafni Drottins.
29 Hann talaði og háði kappræður við grískumælandi Gyðinga, en þeir leituðust við að ráða hann af dögum.
30 Þegar bræðurnir urðu þessa vísir, fóru þeir með hann til Sesareu og sendu hann áfram til Tarsus.
31 Nú hafði kirkjan frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta Drottins og óx við styrkingu heilags anda.
44 Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns,
45 því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju.
46 Þá kallaði Jesús hárri röddu: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!" Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann.
47 Þegar hundraðshöfðinginn sá það, er við bar, vegsamaði hann Guð og sagði: "Sannarlega var þessi maður réttlátur."
48 Og fólkið allt, sem komið hafði saman að horfa á, sá nú, hvað gjörðist, og barði sér á brjóst og hvarf frá.
49 En vinir hans allir sem og konurnar, er fylgdu honum frá Galíleu, stóðu álengdar og horfðu á þetta.
50 Maður er nefndur Jósef. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís
51 og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti Guðs ríkis.
52 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú,
53 tók hann síðan ofan, sveipaði línklæði og lagði í gröf, höggna í klett, og hafði þar enginn verið áður lagður.
54 Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd.
55 Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður.
56 Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.
by Icelandic Bible Society