Book of Common Prayer
24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.
2 Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.
3 _ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?
4 _ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.
5 Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.
6 _ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________
7 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
8 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.
9 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]
29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.
2 Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.
3 Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.
4 Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.
5 Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.
6 Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.
7 Raust Drottins klýfur eldsloga.
8 Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.
9 Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!
10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.
11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.
8 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.
2 Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.
3 Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.
4 Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!
5 Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]
6 Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.
7 Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.
8 Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]
10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!
11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.
12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.
13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.
16 Þér vitið sjálfir, að vér bjuggum á Egyptalandi og hvernig vér komumst mitt í gegnum þær þjóðir, er þér urðuð að fara gegnum.
17 Og þér sáuð viðurstyggðir þeirra og skurðgoð þeirra úr tré og steinum, silfri og gulli, sem hjá þeim voru.
18 Aðeins að eigi sé meðal yðar karl eða kona eða heimili eða ættkvísl, sem í dag snúi hjarta sínu frá Drottni Guði vorum og gangi að dýrka guði þessara þjóða! Aðeins að eigi sé meðal yðar rót, sem beri eitur og malurt að ávexti! _
19 enginn sem telji sig sælan í hjarta sínu og segi, er hann heyrir orð þessa eiðfesta sáttmáls: "Mér mun vel farnast, þótt ég gangi fram í þrjósku hjarta míns." Slíkt mundi leiða til þess, að hið vökvaða yrði afmáð ásamt hinu þurra.
20 Drottinn mun eigi vilja fyrirgefa honum, heldur mun reiði Drottins og vandlæting þá bálast gegn slíkum manni, og öll bölvunin, sem rituð er í þessari bók, mun þá á honum hvíla, og Drottinn mun afmá nafn hans af jörðinni.
21 Og Drottinn mun skilja slíka ættkvísl úr öllum ættkvíslum Ísraels henni til glötunar, samkvæmt öllum bölvunum sáttmálans, sem ritaður er í þessari lögmálsbók.
22 Hin komandi kynslóð, börn yðar, sem upp munu vaxa eftir yður, og útlendir menn, sem koma munu af fjarlægu landi, munu segja, er þeir sjá plágur þær og sóttir, er Drottinn hefir lagt á land þetta, _
23 landið er allt orðið að brennisteini, salti og brunaskellum, þar verður eigi sáð og ekkert sprettur þar og engin jurt kemur þar upp úr jörðinni, en allt er umturnað eins og Sódóma og Gómorra, Adma og Sebóím, er Drottinn umturnaði í reiði sinni og heift _,
24 já, allar þjóðir munu segja: "Hvers vegna hefir Drottinn farið svo með þetta land? Hvernig stendur á þessari miklu ofsareiði?"
25 Þá munu menn svara: "Af því að þeir yfirgáfu sáttmála Drottins, Guðs feðra sinna, sem hann gjörði við þá, er hann leiddi þá af Egyptalandi,
26 en gengu að dýrka aðra guði og falla fram fyrir þeim, guði, er þeir þekktu eigi og hann hafði eigi úthlutað þeim.
27 Fyrir því upptendraðist reiði Drottins gegn landi þessu, svo að hann lét yfir þá koma alla þá bölvun, sem rituð er í þessari bók.
28 Og Drottinn sleit þá upp úr landi þeirra í reiði og heift og mikilli gremju og þeytti þeim í annað land, og er svo enn í dag."
29 Hinir leyndu hlutir heyra Drottni Guði vorum, en það, sem opinberað er, heyrir oss og börnum vorum ævinlega, svo að vér megum breyta eftir öllum orðum lögmáls þessa.
12 Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum.
2 Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.
3 Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn.
4 Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt.
5 Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans.
6 En konan flýði út á eyðimörkina, þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.
7 Þá hófst stríð á himni: Míkael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans,
8 en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni.
9 Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.
10 Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: "Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt.
11 Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.
12 Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma."
29 Þaðan fór Jesús og kom að Galíleuvatni. Og hann gekk upp á fjall og settist þar.
30 Menn komu til hans hópum saman og höfðu með sér halta menn og blinda, fatlaða, mállausa og marga aðra og lögðu þá fyrir fætur hans, og hann læknaði þá.
31 Fólkið undraðist, þegar það sá mállausa mæla, fatlaða heila, halta ganga og blinda sjá. Og þeir lofuðu Guð Ísraels.
32 Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði: "Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Þeir hafa nú hjá mér verið þrjá daga og hafa ekkert til matar. Ég vil ekki láta þá fara fastandi frá mér, þeir gætu örmagnast á leiðinni."
33 Lærisveinarnir sögðu: "Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?"
34 Jesús spyr: "Hve mörg brauð hafið þér?" Þeir svara: "Sjö, og fáeina smáfiska."
35 Þá bauð hann fólkinu að setjast á jörðina,
36 tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu.
37 Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar.
38 En þeir, sem neytt höfðu, voru fjórar þúsundir karlmanna auk kvenna og barna.
39 Síðan lét hann fólkið fara, sté í bátinn og kom í Magadanbyggðir.
by Icelandic Bible Society