Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 31

31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,

hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.

Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.

Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.

Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!

Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.

Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni

og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.

10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.

11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.

12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.

13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.

14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.

15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"

16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.

17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.

19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.

20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.

21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.

23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.

24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.

25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.

Sálmarnir 35

35 Davíðssálmur. Deil þú, Drottinn, við þá er deila við mig, berst þú við þá er berjast við mig.

Tak skjöld og törgu og rís upp mér til hjálpar.

Tak til spjót og öxi til þess að mæta ofsækjendum mínum, seg við sál mína: "Ég er hjálp þín!"

Lát þá er sitja um líf mitt hljóta smán og svívirðing, lát þá hverfa aftur með skömm, er ætla að gjöra mér illt.

Lát þá verða sem sáðir fyrir vindi, þegar engill Drottins varpar þeim um koll.

Lát veg þeirra verða myrkan og hálan, þegar engill Drottins eltir þá.

Því að ástæðulausu hafa þeir lagt net sitt leynt fyrir mig, að ástæðulausu hafa þeir grafið gryfju fyrir mig.

Lát tortíming koma yfir þá, er þá varir minnst, lát netið, er þeir hafa lagt leynt, veiða sjálfa þá, lát þá falla í þeirra eigin gryfju.

En sál mín skal kætast yfir Drottni, gleðjast yfir hjálpræði hans.

10 Öll bein mín skulu segja: "Drottinn, hver er sem þú, er frelsar hinn umkomulausa frá þeim sem er honum yfirsterkari, hinn hrjáða og snauða frá þeim sem rænir hann?"

11 Ljúgvottar rísa upp, þeir spyrja mig um það sem ég veit ekki um.

12 Þeir launa mér gott með illu, einsemd varð hlutfall mitt.

13 En þegar þeir voru sjúkir, klæddist ég hærusekk, þjáði mig með föstu og bað með niðurlútu höfði,

14 gekk um harmandi, sem vinur eða bróðir ætti í hlut, var beygður eins og sá er syrgir móður sína.

15 En þeir fagna yfir hrösun minni og safnast saman, útlendingar og ókunnugir menn safnast saman móti mér, mæla lastyrði og þagna eigi.

16 Þeir freista mín, smána og smána, nísta tönnum í gegn mér.

17 Drottinn, hversu lengi vilt þú horfa á? Frelsa sál mína undan eyðileggingu þeirra, mína einmana sál undan ljónunum.

18 Þá vil ég lofa þig í miklum söfnuði, vegsama þig í miklum mannfjölda.

19 Lát eigi þá sem án saka eru óvinir mínir, hlakka yfir mér, lát eigi þá sem að ástæðulausu hata mig, skotra augunum.

20 Því að frið tala þeir eigi, og móti hinum kyrrlátu í landinu hugsa þeir upp sviksamleg orð.

21 Þeir glenna upp ginið í móti mér, segja: "Hæ, hæ! Nú höfum vér séð það með eigin augum!"

22 Þú hefir séð það, Drottinn, ver eigi hljóður, Drottinn, ver eigi langt í burtu frá mér.

23 Vakna, rís upp og lát mig ná rétti mínum, Guð minn og Drottinn, til þess að flytja mál mitt.

24 Dæm mig eftir réttlæti þínu, Drottinn, Guð minn, og lát þá eigi hlakka yfir mér,

25 lát þá ekki segja í hjarta sínu: "Hæ! Ósk vor er uppfyllt!" lát þá ekki segja: "Vér höfum gjört út af við hann."

26 Lát þá alla verða til skammar og hljóta kinnroða, er hlakka yfir ógæfu minni, lát þá íklæðast skömm og svívirðing, er hreykja sér upp gegn mér.

27 Lát þá kveða fagnaðarópi og gleðjast, er unna mér réttar, lát þá ætíð segja: "Vegsamaður sé Drottinn, hann sem ann þjóni sínum heilla!"

28 Og tunga mín skal boða réttlæti þitt, lofstír þinn liðlangan daginn.

Fimmta bók Móse 5:1-22

Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Heyr þú, Ísrael, lög þau og ákvæði, sem ég birti yður í dag. Lærið þau og varðveitið þau, svo að þér haldið þau.

Drottinn Guð vor gjörði við oss sáttmála á Hóreb.

Ekki gjörði Drottinn þennan sáttmála við feður vora, heldur við oss, oss sem hér erum allir lifandi í dag.

Drottinn talaði við yður á fjallinu augliti til auglitis út úr eldinum.

Ég stóð þá á milli Drottins og yðar til þess að flytja yður orð Drottins, því að þér hræddust eldinn og fóruð ekki upp á fjallið. Hann sagði:

"Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér, engar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eða því, sem er á jörðu niðri, eða því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, og í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,

10 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

11 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

12 Gættu þess að halda hvíldardaginn heilagan, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér.

13 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,

14 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín, uxi þinn eða asni eða nokkur skepna, eða útlendingur, sem hjá þér er innan þinna borgarhliða, svo að þræll þinn og ambátt þín geti hvílt sig eins og þú.

15 Og minnstu þess, að þú varst þræll á Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leiddi þig út þaðan með sterkri hendi og útréttum armlegg. Þess vegna bauð Drottinn Guð þinn þér að halda hvíldardaginn.

16 Heiðra föður þinn og móður þína, eins og Drottinn Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

17 Þú skalt ekki morð fremja.

18 Þú skalt ekki drýgja hór.

19 Þú skalt ekki stela.

20 Þú skalt ekki bera falsvitni gegn náunga þínum.

21 Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, og ekki ágirnast hús náunga þíns, ekki land hans, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."

22 Þessi orð talaði Drottinn með hárri röddu til alls safnaðar yðar á fjallinu út úr eldinum, skýinu og sortanum. Bætti hann þar engu við, og hann ritaði þau á tvær steintöflur og fékk mér þær.

Síðara bréf Páls til Kori 4:1-12

Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.

Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.

En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.

Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.

Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.

Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.

En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.

Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,

ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.

10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.

11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.

12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.

Lúkasarguðspjall 16:10-18

10 Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.

11 Ef þér reynist ekki trúir í hinum rangláta mammón, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði?

12 Og ef þér reynist ekki trúir í því sem annars er, hver gefur yður þá það, sem yðar er?

13 Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón."

14 En farísearnir, sem voru menn fégjarnir, heyrðu þetta og gjörðu gys að honum.

15 En hann sagði við þá: "Þér eruð þeir, sem réttlætið sjálfa yður í augum manna, en Guð þekkir hjörtu yðar. Því það, sem hátt er að dómi manna, er viðurstyggð í augum Guðs.

16 Lögmálið og spámennirnir ná fram til Jóhannesar. Þaðan í frá er flutt fagnaðarerindi Guðs ríkis, og hver maður vill ryðjast þar inn.

17 En það er auðveldara, að himinn og jörð líði undir lok, en einn stafkrókur lögmálsins falli úr gildi.

18 Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society