Book of Common Prayer
26 Davíðssálmur. Lát mig ná rétti mínum, Drottinn, því að ég geng fram í grandvarleik og þér treysti ég óbifanlega.
2 Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig, prófa hug minn og hjarta.
3 Því að ég hefi elsku þína fyrir augum, og ég geng í sannleika þínum.
4 Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.
5 Ég hata söfnuð illvirkjanna, sit eigi meðal óguðlegra.
6 Ég þvæ hendur mínar í sakleysi og geng í kringum altari þitt, Drottinn,
7 til þess að láta lofsönginn hljóma og segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
8 Drottinn, ég elska bústað húss þíns og staðinn þar sem dýrð þín býr.
9 Hríf eigi sál mína burt með syndurum né líf mitt með morðingjum,
10 þeim er hafa svívirðing í höndum sér og hægri höndina fulla af mútugjöfum.
11 En ég geng fram í grandvarleik, frelsa mig og líkna mér.
12 Fótur minn stendur á sléttri grund, í söfnuðunum vil ég lofa Drottin.
28 Davíðssálmur. Til þín, Drottinn, hrópa ég, þú bjarg mitt, ver eigi hljóður gagnvart mér. Ef þú þegir við mér, verð ég sem þeir, er til grafar eru gengnir.
2 Heyr þú á grátbeiðni mína, er ég hrópa til þín, er ég lyfti höndum mínum til Hins allrahelgasta í musteri þínu.
3 Hríf mig eigi á burt með óguðlegum og með illgjörðamönnum, þeim er tala vinsamlega við náunga sinn, en hafa illt í hyggju.
4 Launa þeim eftir verkum þeirra, eftir þeirra illu breytni, launa þeim eftir verkum handa þeirra, endurgjald þeim það er þeir hafa aðhafst.
5 Því að þeir hyggja eigi á verk Drottins né handaverk hans, hann rífi þá niður og reisi þá eigi við aftur.
6 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir heyrt grátbeiðni mína.
7 Drottinn er vígi mitt og skjöldur, honum treysti hjarta mitt. Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt, og með ljóðum mínum lofa ég hann.
8 Drottinn er vígi lýð sínum og hjálparhæli sínum smurða.
9 Hjálpa lýð þínum og blessa eign þína, gæt þeirra og ber þá að eilífu.
36 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins.
2 Rödd syndarinnar talar til hins guðlausa í fylgsnum hjarta hans, enginn guðsótti býr í huga hans.
3 Hún smjaðrar fyrir honum í augum hans og misgjörð hans verður uppvís og hann verður fyrir hatri.
4 Orðin af munni hans eru tál og svik, hann er hættur að vera hygginn og breyta vel.
5 Í hvílu sinni hyggur hann á tál, hann fetar vonda vegu, forðast eigi hið illa.
6 Drottinn, til himna nær miskunn þín, til skýjanna trúfesti þín.
7 Réttlæti þitt er sem fjöll Guðs, dómar þínir sem reginhaf. Mönnum og skepnum hjálpar þú, Drottinn.
8 Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð, mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
9 Þau seðjast af feiti húss þíns, og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðsemda þinna.
10 Hjá þér er uppspretta lífsins, í þínu ljósi sjáum vér ljós.
11 Lát miskunn þína haldast við þá er þekkja þig, og réttlæti þitt við þá sem hjartahreinir eru.
12 Lát eigi fót hins hrokafulla troða á mér né hönd óguðlegra hrekja mig burt.
13 Þar eru illgjörðamennirnir fallnir, þeim er varpað um koll og þeir fá eigi risið upp aftur.
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
15 Gætið yðar því vandlega, líf yðar liggur við _ því að þér sáuð enga mynd á þeim degi, þegar Drottinn talaði við yður hjá Hóreb út úr eldinum, _
16 að þér ekki mannspillið yður á því að búa yður til skurðgoð í mynd einhvers líkneskis, hvort heldur er í líki karls eða konu,
17 í líki einhvers ferfætlings, sem til er á jörðinni, í líki einhvers fleygs fugls, er flýgur í loftinu,
18 í líki einhvers dýrs, sem skríður á jörðinni, eða í líki einhvers fisks, sem til er í vötnunum undir jörðinni,
19 og að þú eigi, þegar þú lyftir augum þínum til himins og sér sólina, tunglið og stjörnurnar, allan himinsins her, látir tælast til þess að falla fram fyrir þeim og dýrka þau. Því að Drottinn Guð þinn hefir skipt þeim meðal allra þjóða undir himninum.
20 Yður hefir Drottinn tekið að sér og leitt yður út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, svo að þér skylduð verða eignarþjóð hans, sem og hefir verið til þessa.
21 Drottinn reiddist mér yðar vegna, svo að hann sór, að ég skyldi ekki komast yfir Jórdan og ekki komast inn í góða landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar,
22 heldur hlýt ég að deyja í þessu landi og fæ ekki að komast yfir Jórdan. En þér munuð komast yfir um og fá þetta góða land til eignar.
23 Gætið yðar, að þér gleymið ekki sáttmálanum, er Drottinn Guð yðar hefir við yður gjört, og búið yður ekki til skurðgoð í mynd einhvers þess, er Drottinn Guð þinn hefir bannað þér.
24 Því að Drottinn Guð þinn er eyðandi eldur, vandlátur Guð.
12 Þetta er hrósun vor: Samviska vor vitnar um, að vér höfum lifað í heiminum, og sérstaklega hjá yður, í heilagleika og hreinleika, sem kemur frá Guði, ekki látið stjórnast af mannlegri speki, heldur af náð Guðs.
13 Vér skrifum yður ekki annað en það, sem þér getið lesið og skilið. Ég vona, að þér munið til fulls skilja það,
14 sem yður er að nokkru ljóst, að þér getið miklast af oss eins og vér af yður á degi Drottins vors Jesú.
15 Í þessu trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til yðar, til þess að þér skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi.
16 Ég hugðist bæði koma við hjá yður á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta yður búa ferð mína til Júdeu.
17 Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé "já, já" sama og "nei, nei"?
18 Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það, sem vér segjum yður, er ekki bæði já og nei.
19 Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem vér höfum prédikað á meðal yðar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði "já" og "nei", heldur er allt í honum "já".
20 Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru, þá er játun þeirra í honum. Þess vegna segjum vér og fyrir hann amen Guði til dýrðar.
21 Það er Guð, sem gjörir oss ásamt yður staðfasta í Kristi og hefur smurt oss.
22 Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum.
15 Allir tollheimtumenn og bersyndugir komu til Jesú að hlýða á hann,
2 en farísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: "Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim."
3 En hann sagði þeim þessa dæmisögu:
4 "Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?
5 Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.
6 Þegar hann kemur heim, kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.`
7 Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, sem ekki hafa iðrunar þörf.
8 Eða kona, sem á tíu drökmur og týnir einni drökmu, kveikir hún þá ekki á lampa, sópar húsið og leitar vandlega, uns hún finnur hana?
9 Og er hún hefur fundið hana, kallar hún saman vinkonur sínar og grannkonur og segir: ,Samgleðjist mér, því að ég hef fundið drökmuna, sem ég týndi.`
10 Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun."
by Icelandic Bible Society