Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 29

29 Davíðssálmur. Tjáið Drottni vegsemd, þér guðasynir, tjáið Drottni vegsemd og vald.

Tjáið Drottni dýrð þá er nafni hans hæfir, fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða.

Raust Drottins hljómar yfir vötnunum, Guð dýrðarinnar lætur þrumur drynja, Drottinn ríkir yfir hinum miklu vötnum.

Raust Drottins hljómar með krafti, raust Drottins hljómar með tign.

Raust Drottins brýtur sundur sedrustré, Drottinn brýtur sundur sedrustrén á Líbanon.

Hann lætur Líbanonfjöll hoppa eins og kálfa og Hermonfjall eins og ungan vísund.

Raust Drottins klýfur eldsloga.

Raust Drottins lætur eyðimörkina skjálfa, Drottinn lætur Kadeseyðimörk skjálfa.

Raust Drottins lætur hindirnar bera fyrir tímann og gjörir skógana nakta, og allt í helgidómi hans segir: Dýrð!

10 Drottinn situr í hásæti uppi yfir flóðinu, Drottinn mun ríkja sem konungur að eilífu.

11 Drottinn veitir lýð sínum styrkleik, Drottinn blessar lýð sinn með friði.

Sálmarnir 98

98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.

Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.

Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.

Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.

Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,

með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.

Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.

Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman

fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.

Jesaja 66:18-23

18 En ég þekki athafnir þeirra og hugsanir. Sá tími kemur, að ég mun saman safna öllum þjóðum og tungum, og þær skulu koma og sjá mína dýrð.

19 Og ég mun gjöra tákn á þeim og senda flóttamenn frá þeim til þjóðanna, til Tarsis, Pút og Lúd, sem benda boga, til Túbal og Javan, til hinna fjarlægu eylanda, sem ekki hafa neina fregn af mér og ekki hafa séð dýrð mína, og þeir skulu kunngjöra dýrð mína meðal þjóðanna.

20 Þeir munu flytja alla bræður yðar heim frá öllum þjóðum sem fórnargjöf Drottni til handa, á hestum og á vögnum, í burðarstólum, á múlum og úlföldum, til míns heilaga fjalls, til Jerúsalem _ segir Drottinn _ eins og þegar Ísraelsmenn færa fórnargjafir í hreinum kerum til húss Drottins.

21 Og af þeim mun ég einnig taka presta og levíta _ segir Drottinn.

22 Já, eins og hinn nýi himinn og hin nýja jörð, sem ég skapa, munu standa stöðug fyrir mínu augliti _ segir Drottinn _ eins mun afsprengi yðar og nafn standa stöðugt.

23 Og á mánuði hverjum, tunglkomudaginn, og á viku hverri, hvíldardaginn, skal allt hold koma til þess að falla fram fyrir mér _ segir Drottinn.

Bréf Páls til Rómverja 15:7-13

Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.

Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,

en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."

10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"

11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"

12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."

13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society