Book of Common Prayer
66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2 syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.
3 Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]
5 Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.
6 Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.
7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]
8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.
13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,
14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.
15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]
16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.
17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.
18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.
19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.
20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.
67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.
2 Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]
3 svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.
4 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
5 Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]
6 Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.
7 Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.
8 Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
12 Ég rita yður, börnin mín, af því að syndir yðar eru yður fyrirgefnar fyrir sakir nafns hans.
13 Ég rita yður, þér feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég rita yður, þér ungu menn, af því að þér hafið sigrað hinn vonda.
14 Ég hef ritað yður, börn, af því að þér þekkið föðurinn. Ég hef ritað yður, feður, af því að þér þekkið hann, sem er frá upphafi. Ég hef ritað yður, ungu menn, af því að þér eruð styrkir og Guðs orð er stöðugt í yður og þér hafið sigrað hinn vonda.
15 Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins.
16 Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.
17 Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.
41 Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því, að hann sagði: "Ég er brauðið, sem niður steig af himni,"
42 og þeir sögðu: "Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?"
43 Jesús svaraði þeim: "Verið ekki með kurr yðar á meðal.
44 Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.
45 Hjá spámönnunum er skrifað: ,Þeir munu allir verða af Guði fræddir.` Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín.
46 Ekki er það svo, að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð föðurinn.
47 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf.
by Icelandic Bible Society