Book of Common Prayer
119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.
2 Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta
3 og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.
4 Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.
5 Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.
6 Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.
7 Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.
8 Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.
9 Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.
10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.
11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.
12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.
13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.
14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.
15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.
16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.
17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.
18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.
19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.
20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.
21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.
22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.
23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.
24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.
12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.
2 Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.
3 Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.
4 Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,
5 þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"
6 "Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."
7 Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.
8 Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.
9 Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.
13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?
4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,
5 að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.
6 Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
2 Orðið, sem Jesaja Amozsyni vitraðist um Júda og Jerúsalem.
2 Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.
3 Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: "Komið, förum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum," því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.
4 Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.
5 Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi Drottins.
6 Þú hefir hafnað þjóð þinni, ættmönnum Jakobs, því að þeir eru allir í austurlenskum göldrum og spáförum, eins og Filistar, og fylla landið útlendum mönnum.
7 Land þeirra er fullt af silfri og gulli, og fjársjóðir þeirra eru óþrjótandi. Land þeirra er fullt af stríðshestum, og vagnar þeirra eru óteljandi.
8 Land þeirra er fullt af falsguðum, þeir falla fram fyrir eigin handaverkum sínum, fram fyrir því, sem fingur þeirra hafa gjört.
9 En mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast, og eigi munt þú fyrirgefa þeim.
10 Gakk þú inn í bergið og fel þig í jörðu fyrir ógnum Drottins og ljóma hátignar hans.
11 Hin drembilegu augu mannsins skulu lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera.
13 Og þess vegna þökkum vér líka Guði án afláts, því að þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, _ eins og það í sannleika er. Og það sýnir kraft sinn í yður, sem trúið.
14 Þér hafið, bræður, tekið yður til fyrirmyndar söfnuði Guðs í Júdeu, sem eru í Kristi Jesú. Því að þér hafið þolað hið sama af löndum yðar sem þeir urðu að þola af Gyðingum,
15 er bæði líflétu Drottin Jesú og spámennina og hafa ofsótt oss. Þeir eru Guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir.
16 Þeir vilja meina oss að tala til heiðingjanna, til þess að þeir megi verða hólpnir. Þannig fylla þeir stöðugt mæli synda sinna. En reiðin er þá líka yfir þá komin um síðir.
17 En vér, bræður, sem um stundarsakir höfum verið skildir frá yður að líkamanum til en ekki huganum, höfum þráð yður mjög og gjört oss allt far um að fá að sjá yður aftur.
18 Þess vegna ætluðum vér að koma til yðar, ég, Páll, oftar en einu sinni, en Satan hefur hamlað því.
19 Hver er von vor eða gleði vor eða sigursveigurinn, sem vér hrósum oss af? Eruð það ekki einmitt þér, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans?
20 Jú, þér eruð vegsemd vor og gleði.
19 Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari.
20 Þeir höfðu gætur á honum og sendu njósnarmenn, er létust vera einlægir. Þeir áttu að hafa á orðum hans, svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans.
21 Þeir spurðu hann: "Meistari, vér vitum, að þú talar og kennir rétt og gjörir þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika.
22 Leyfist oss að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"
23 En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá:
24 "Sýnið mér denar. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?" Þeir sögðu: "Keisarans."
25 En hann sagði við þá: "Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er."
26 Og þeir gátu ekki haft neitt á orðum hans í viðurvist lýðsins, en undruðust svar hans og þögðu.
by Icelandic Bible Society