Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 30

30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.

Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.

Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.

Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.

Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.

Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.

En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."

Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.

Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:

10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?

11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"

12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,

13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.

Sálmarnir 32

32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.

Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.

Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,

því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]

Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]

Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.

Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]

Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:

Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.

10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.

11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!

Sálmarnir 42-43

42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.

Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?

Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.

Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.

Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.

10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"

11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"

12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.

Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?

Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,

svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

Error: Book name not found: Sir for the version: Icelandic Bible
Opinberun Jóhannesar 10

10 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar.

Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni.

Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum.

Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: "Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki."

Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins

og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða,

en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.

Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: "Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni."

Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: "Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang."

10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum.

11 Þá segja þeir við mig: "Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga."

Lúkasarguðspjall 11:1-13

11 Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: "Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum."

En hann sagði við þá: "Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

gef oss hvern dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni."

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð,

því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.`

Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð`?

Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,

12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg?

13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society