Book of Common Prayer
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.
162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.
163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.
164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.
165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.
166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.
167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.
168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.
169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.
172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.
173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.
175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.
176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _
2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.
3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,
4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.
5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.
6 Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.
7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,
8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!
130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2 Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!
3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?
4 En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.
5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.
6 Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.
7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.
8 Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.
2 Vei þeim, sem hugsa upp rangindi og hafa illt með höndum í hvílurúmum sínum og framkvæma það, þegar ljómar af degi, jafnskjótt og þeir megna.
2 Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans.
3 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég bý yfir óhamingju, sem ég mun senda þessari kynslóð, og þér skuluð ekki fá af yður hrundið né gengið hnarreistir undir, því að það munu verða vondir tímar.
4 Á þeim degi munu menn háðkvæði um yður kveða og hefja harmatölur á þessa leið: "Vér erum gjörsamlega eyðilagðir, landeign þjóðar minnar er úthlutað með mæliþræði, og enginn fær mér hana aftur. Ökrum vorum er skipt milli þeirra, er oss hafa hertekið!"
5 Fyrir því skalt þú engan hafa, er dragi mæliþráð yfir landskika í söfnuði Drottins.
6 "Prédikið ekki," _ svo prédika þeir. "Menn eiga ekki að prédika um slíkt! Skömmunum linnir ekki!"
7 Hvílíkt tal, Jakobs hús! Er Drottinn óþolinmóður, eða eru gjörðir hans slíkar? Eru ekki orð hans gæskurík við þá, sem breyta ráðvandlega?
8 En þjóð mín hefir nú þegar lengi risið upp á móti mér sem óvinur. Utan af kyrtlinum dragið þér yfirhöfnina af þeim, sem ugglausir fara um veginn, sem fráhverfir eru stríði.
9 Konur þjóðar minnar rekið þér út úr húsunum, sem hafa verið yndi þeirra, rænið börn þeirra prýði minni að eilífu.
10 Af stað og burt með yður! Því að hér er ekki samastaður fyrir yður vegna saurgunarinnar, sem veldur tjóni, og það ólæknandi tjóni.
11 Ef einhver, sem færi með hégóma og lygar, hræsnaði fyrir þér og segði: "Ég skal spá þér víni og áfengum drykk," það væri spámaður fyrir þessa þjóð!
12 Safna, já safna vil ég, Jakob, öllum þínum, færa saman leifar Ísraels eins og sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga, og þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni.
13 Forustusauðurinn fer fyrir þeim, þeir ryðjast fram, fara í gegnum hliðið og halda út um það, og konungur þeirra fer fyrir þeim og Drottinn er í broddi fylkingar þeirra.
23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: "Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða.
24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra."
25 Og hann ritaði bréf, svo hljóðandi:
26 "Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra.
27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi, er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því, að hann var rómverskur, og bjargaði honum.
28 En ég vildi vita, fyrir hverja sök þeir ákærðu hann, og fór með hann niður í ráð þeirra.
29 Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi.
30 En þar sem ég hef fengið bendingu um, að setið sé um líf mannsins, sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér."
31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann um nótt til Antípatris.
32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans, en létu riddarana fara með honum.
33 Þeir fóru inn í Sesareu, skiluðu bréfinu til landstjórans og færðu Pál fyrir hann.
34 Hann las bréfið og spurði, úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð, að hann væri frá Kilikíu.
35 Þá mælti hann: "Ég mun rannsaka mál þitt, þegar kærendur þínir koma." Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.
18 Lærisveinar Jóhannesar sögðu honum frá öllu þessu. Hann kallaði þá til sín tvo lærisveina sína,
19 sendi þá til Drottins og lét spyrja: "Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"
20 Mennirnir fóru til hans og sögðu: "Jóhannes skírari sendi okkur til þín og spyr: ,Ert þú sá sem koma skal, eða eigum vér að vænta annars?"`
21 Á þeirri stundu læknaði hann marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gaf mörgum blindum sýn.
22 Og hann svaraði þeim: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi.
23 Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér."
24 Þá er sendimenn Jóhannesar voru burt farnir, tók hann að tala til mannfjöldans um Jóhannes: "Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn?
25 Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, í konungssölum er þá að finna, sem skartklæðin bera og lifa í sællífi.
26 Hvað fóruð þér þá að sjá? Spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann.
27 Hann er sá sem um er ritað: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn fyrir þér.
28 Ég segi yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes. En hinn minnsti í Guðs ríki er honum meiri."
29 Og allur lýðurinn, sem á hlýddi, og enda tollheimtumenn, viðurkenndu réttlæti Guðs og létu skírast af Jóhannesi.
30 En farísear og lögvitringar gjörðu að engu áform Guðs um þá og létu ekki skírast af honum.
31 "Við hvað á ég þá að líkja mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir?
32 Líkir eru þeir börnum, sem á torgi sitja og kallast á: ,Vér lékum fyrir yður á flautu, og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér gráta.`
33 Nú kom Jóhannes skírari, át ekki brauð né drakk vín, og þér segið: ,Hann hefur illan anda.`
34 Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur, og þér segið: ,Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra!`
35 En spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar."
by Icelandic Bible Society