Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 41

41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.

Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.

Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.

Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."

Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"

Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.

Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:

"Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."

10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.

11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.

12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.

13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________

14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.

Sálmarnir 52

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

Sálmarnir 44

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

Jobsbók 32:1-10

32 Og þessir þrír menn hættu að svara Job, því að hann þóttist vera réttlátur.

Þá upptendraðist reiði Elíhú Barakelssonar Búsíta af Rams kynstofni. Upptendraðist reiði hans gegn Job, af því að hann taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði.

Reiði hans upptendraðist og gegn vinum hans þremur, fyrir það að þeir fundu engin andsvör til þess að sanna Job, að hann hefði á röngu að standa.

En Elíhú hafði beðið með að mæla til Jobs, því að hinir voru eldri en hann.

En er Elíhú sá, að mennirnir þrír gátu engu svarað, upptendraðist reiði hans.

Þá tók Elíhú Barakelsson Búsíti til máls og sagði: Ég er ungur að aldri, en þér eruð öldungar, þess vegna fyrirvarð ég mig og kom mér eigi að því að kunngjöra yður það, sem ég veit.

Ég hugsaði: Aldurinn tali, og árafjöldinn kunngjöri speki!

En _ það er andinn í manninum og andblástur hins Almáttka, sem gjörir þá vitra.

Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir, og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er.

10 Fyrir því segi ég: Hlýð á mig, nú ætla einnig ég að kunngjöra það, sem ég veit.

Jobsbók 32:19-33:1

19 Sjá, brjóst mitt er sem vín, er ekki fær útrás, ætlar að rifna, eins og nýfylltir belgir.

20 Ég ætla að tala til þess að létta á mér, ætla að opna varir mínar og svara.

21 Ég ætla ekki að draga taum neins, og ég ætla engan að skjalla.

22 Því að ég kann ekki að skjalla, ella kynni skapari minn bráðlega að kippa mér burt.

33 En heyr þú, Job, ræðu mína, og hlýð þú á öll orð mín.

Jobsbók 33:19-28

19 Maðurinn er og agaður með kvölum á sæng sinni, og stríðið geisar stöðuglega í beinum hans.

20 Þá vekur lífshvötin óbeit hjá honum á brauðinu og sál hans á uppáhaldsfæðunni.

21 Hold hans eyðist og verður óásjálegt, og beinin, sem sáust ekki áður, verða ber,

22 svo að sál hans nálgast gröfina og líf hans engla dauðans.

23 En ef þar er hjá honum árnaðarengill, talsmaður, einn af þúsund til þess að boða manninum skyldu hans,

24 og miskunni hann sig yfir hann og segi: "Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina, ég hefi fundið lausnargjaldið,"

25 þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.

26 Hann biður til Guðs, og Guð miskunnar honum, lætur hann líta auglit sitt með fögnuði og veitir manninum aftur réttlæti hans.

27 Hann syngur frammi fyrir mönnum og segir: "Ég hafði syndgað og gjört hið beina bogið, og þó var mér ekki goldið líku líkt.

28 Guð hefir leyst sálu mína frá því að fara ofan í gröfina, og líf mitt gleður sig við ljósið."

Postulasagan 13:44-52

44 Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð Drottins.

45 En er Gyðingar litu mannfjöldann, fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti.

46 Páll og Barnabas svöruðu þá einarðlega: "Svo hlaut að vera, að orð Guðs væri fyrst flutt yður. Þar sem þér nú vísið því á bug og metið sjálfa yður ekki verða eilífs lífs, þá snúum vér oss nú til heiðingjanna.

47 Því að svo hefur Drottinn boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar."

48 En er heiðingjar heyrðu þetta, glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú.

49 Og orð Drottins breiddist út um allt héraðið.

50 En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar og vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum.

51 En þeir hristu dustið af fótum sér móti þeim og fóru til Íkóníum.

52 En lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.

Jóhannesarguðspjall 10:19-30

19 Aftur varð ágreiningur með Gyðingum út af þessum orðum.

20 Margir þeirra sögðu: "Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?"

21 Aðrir sögðu: "Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda. Mundi illur andi geta opnað augu blindra?"

22 Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur.

23 Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum.

24 Þá söfnuðust Gyðingar um hann og sögðu við hann: "Hve lengi lætur þú oss í óvissu? Ef þú ert Kristur, þá seg oss það berum orðum."

25 Jesús svaraði þeim: "Ég hef sagt yður það, en þér trúið ekki. Verkin, sem ég gjöri í nafni föður míns, þau vitna um mig,

26 en þér trúið ekki, því að þér eruð ekki úr hópi sauða minna.

27 Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér.

28 Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni.

29 Faðir minn, sem hefur gefið mér þá, er meiri en allir, og enginn getur slitið þá úr hendi föðurins.

30 Ég og faðirinn erum eitt."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society