Book of Common Prayer
145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.
146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.
147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.
148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.
149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.
150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.
151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.
152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.
153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.
154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.
155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.
156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.
157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.
158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.
159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.
160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.
161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.
162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.
163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.
164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.
165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.
166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.
167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.
168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.
169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.
170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.
171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.
172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.
173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.
174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.
175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.
176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _
2 þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.
3 Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,
4 en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.
5 Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.
6 Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.
7 Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,
8 og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!
130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
2 Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!
3 Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?
4 En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.
5 Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.
6 Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.
7 Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.
8 Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.
41 Um morguninn eftir tók Balak Bíleam með sér og fór með hann upp til fórnarhæðar Baals, en þaðan sá hann ysta hluta herbúða Ísraels.
23 Þá mælti Bíleam við Balak: "Gjör þú mér hér sjö ölturu og fá mér hingað sjö uxa og sjö hrúta."
2 Og Balak gjörði sem Bíleam sagði, og Balak og Bíleam fórnuðu uxa og hrút á altari hverju.
3 Bíleam sagði við Balak: "Statt þú hér hjá brennifórn þinni, ég ætla að ganga burt. Vera má að Drottinn kunni að koma til móts við mig, en hvað sem hann birtir mér, skal ég tjá þér." Fór hann þá upp á skóglausa hæð.
4 Og Guð kom til móts við Bíleam, og Bíleam sagði við hann: "Ég hefi búið sjö ölturu og fórnað uxa og hrút á hverju altari."
5 Drottinn lagði þá Bíleam orð í munn og sagði: "Far þú aftur til Balaks, og mæl svo sem ég segi þér."
6 Fór hann þá aftur til hans. Og sjá, hann stóð hjá brennifórn sinni og allir höfðingjar Móabs með honum.
7 Flutti hann þá kvæði sitt og mælti: Til Mesópótamíu lét Balak sækja mig, konungur Móabs, til hinna austlægu fjalla. "Kom þú, bölva Jakob fyrir mig, kom þú, formæl Ísrael!"
8 Hvernig má ég biðja bölbæna þeim, er Guð eigi biður bölbæna, og hvernig má ég formæla þeim, er Drottinn eigi formælir?
9 Af fjallstindinum sé ég hann, og af hæðunum lít ég hann. Hann er þjóðflokkur, sem býr einn sér og telur sig eigi meðal hinna þjóðanna.
10 Hver mun telja mega duft Jakobs, og hver mun fá tölu komið á fjöld Ísraels? Deyi önd mín dauða réttlátra og verði endalok mín sem þeirra.
11 Þá sagði Balak við Bíleam: "Hvað hefir þú gjört mér? Ég fékk þig til þess að biðja óvinum mínum bölbæna, og sjá, þú hefir margblessað þá."
12 En Bíleam svaraði og sagði: "Hvort hlýt ég eigi að mæla það eitt, er Drottinn leggur mér í munn?"
13 Varð þá hið góða mér til dauða? Fjarri fer því! Nei, það var syndin. Til þess að hún birtist sem synd, olli hún mér dauða með því, sem gott er. Þannig skyldi syndin verða yfir sig syndug fyrir boðorðið.
14 Vér vitum, að lögmálið er andlegt, en ég er holdlegur, seldur undir syndina.
15 Því að ég veit ekki, hvað ég aðhefst. Það sem ég vil, það gjöri ég ekki, en það sem ég hata, það gjöri ég.
16 En ef ég nú gjöri einmitt það, sem ég vil ekki, þá er ég samþykkur lögmálinu, að það sé gott.
17 En nú er það ekki framar ég sjálfur, sem gjöri þetta, heldur syndin, sem í mér býr.
18 Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða.
19 Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.
20 En ef ég gjöri það, sem ég vil ekki, þá er það ekki lengur ég sjálfur, sem framkvæmi það, heldur syndin, sem í mér býr.
21 Þannig reynist mér það þá regla fyrir mig, sem vil gjöra hið góða, að hið illa er mér tamast.
22 Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs,
23 en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.
24 Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?
25 Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Svo þjóna ég þá sjálfur lögmáli Guðs með huga mínum, en lögmáli syndarinnar með holdinu.
33 Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.
34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn.
35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja.
36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.
37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: "Þeir munu virða son minn.
38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.`
39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?"
41 Þeir svara: "Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma."
42 Og Jesús segir við þá: "Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.
43 Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. [
44 Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]"
45 Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá.
46 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.
by Icelandic Bible Society