Book of Common Prayer
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
5 Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet.
6 Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins.
7 En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.
8 En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði,
9 að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi.
10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.
11 Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið.
12 Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann.
13 En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes.
14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans.
15 Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi.
16 Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra.
17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."
18 Sakaría sagði við engilinn: "Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri."
19 En engillinn svaraði honum: "Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn.
20 Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma."
21 Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist, hve honum dvaldist í musterinu.
22 En er hann kom út, gat hann ekki talað við þá, og skildu þeir, að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram.
23 Og er þjónustudagar hans voru liðnir, fór hann heim til sín.
by Icelandic Bible Society