Book of Common Prayer
8 Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.
2 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.
3 Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.
4 Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,
5 hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?
6 Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
7 Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:
8 sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,
9 fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.
10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!
47 Til söngstjórans. Kóraítasálmur.
2 Klappið saman lófum, allar þjóðir, fagnið fyrir Guði með gleðiópi.
3 Því að Drottinn, Hinn hæsti, er ógurlegur, voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni.
4 Hann leggur undir oss lýði og þjóðir fyrir fætur vora.
5 Hann útvaldi handa oss óðal vort, fremdarhnoss Jakobs, sem hann elskar. [Sela]
6 Guð er upp stiginn með fagnaðarópi, með lúðurhljómi er Drottinn upp stiginn.
7 Syngið Guði, syngið, syngið konungi vorum, syngið!
8 Því að Guð er konungur yfir gjörvallri jörðinni, syngið Guði lofsöng!
9 Guð er orðinn konungur yfir þjóðunum, Guð er setstur í sitt heilaga hásæti.
10 Göfugmenni þjóðanna safnast saman ásamt lýð Abrahams Guðs. Því að Guðs eru skildir jarðarinnar, hann er mjög hátt upphafinn.
24 Davíðssálmur. Drottni heyrir jörðin og allt sem á henni er, heimurinn og þeir sem í honum búa.
2 Því að hann hefir grundvallað hana á hafinu og fest hana á vötnunum.
3 _ Hver fær að stíga upp á fjall Drottins, hver fær að dveljast á hans helga stað?
4 _ Sá er hefir óflekkaðar hendur og hreint hjarta, eigi sækist eftir hégóma og eigi vinnur rangan eið.
5 Hann mun blessun hljóta frá Drottni og réttlætingu frá Guði hjálpræðis síns.
6 _ Þessi er sú kynslóð er leitar Drottins, stundar eftir augliti þínu, þú Jakobs Guð. [Sela] _________
7 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
8 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan.
9 _ Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga.
10 _ Hver er þessi konungur dýrðarinnar? _ Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar. [Sela]
96 Syngið Drottni nýjan söng, syngið Drottni öll lönd!
2 Syngið Drottni, lofið nafn hans, kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
3 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.
4 Því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegur er hann öllum guðum framar.
5 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.
6 Heiður og vegsemd eru fyrir augliti hans, máttur og prýði í helgidómi hans.
7 Tjáið Drottni lof, þér kynkvíslir þjóða, tjáið Drottni vegsemd og vald.
8 Tjáið Drottni dýrð þá, er nafni hans hæfir, færið gjafir og komið til forgarða hans,
9 fallið fram fyrir Drottni í helgum skrúða, titrið fyrir honum, öll lönd!
10 Segið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur orðinn! Hann hefir fest jörðina, svo að hún bifast ekki, hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
11 Himinninn gleðjist og jörðin fagni, hafið drynji og allt sem í því er,
12 foldin fagni og allt sem á henni er, öll tré skógarins kveði fagnaðaróp,
13 fyrir Drottni, því að hann kemur, hann kemur til þess að dæma jörðina. Hann mun dæma heiminn með réttlæti og þjóðirnar eftir trúfesti sinni.
9 Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór og höfuðhár hans sem hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi.
10 Eldstraumur gekk út frá honum, þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum. Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp.
11 Ég horfði og horfði vegna hinna háværu stóryrða, sem hornið talaði, þar til er dýrið var drepið, líkami þess eyðilagður og honum kastað í eld til að brennast.
12 Vald hinna dýranna var og frá þeim tekið og þeim afmarkað lífskeið til ákveðins tíma og stundar.
13 Ég horfði í nætursýnunum, og sjá, einhver kom í skýjum himins, sem mannssyni líktist. Hann kom þangað, er hinn aldraði var fyrir, og var leiddur fyrir hann.
14 Og honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur. Hans vald er eilíft vald, sem ekki skal undir lok líða, og ríki hans skal aldrei á grunn ganga.
5 Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.
6 Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?
7 Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.
8 Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.
9 En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.
10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.
11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,
12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.
13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.
14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn,
15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.
16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.
17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.
18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.
16 En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til.
17 Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa.
18 Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: "Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.
19 Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda,
by Icelandic Bible Society