Book of Common Prayer
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
22 Til söngstjórans. Lag: Hind morgunroðans. Davíðssálmur.
2 Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig? Ég hrópa, en hjálp mín er fjarlæg.
3 "Guð minn!" hrópa ég um daga, en þú svarar ekki, og um nætur, en ég finn enga fró.
4 Og samt ert þú Hinn heilagi, sá er ríkir uppi yfir lofsöngvum Ísraels.
5 Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim,
6 til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.
7 En ég er maðkur og eigi maður, til spotts fyrir menn og fyrirlitinn af lýðnum.
8 Allir þeir er sjá mig gjöra gys að mér, bregða grönum og hrista höfuðið.
9 "Hann fól málefni sitt Drottni. Hann hjálpi honum! hann frelsi hann, því að hann hefir þóknun á honum!"
10 Já, þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
11 Til þín var mér varpað frá móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.
12 Ver eigi fjarri mér, því að neyðin er nærri, og enginn hjálpar.
13 Sterk naut umkringja mig, Basans uxar slá hring um mig.
14 Þeir glenna upp ginið í móti mér sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
15 Mér er hellt út sem vatni, og öll bein mín eru gliðnuð sundur; hjarta mitt er sem vax, bráðnað sundur í brjósti mér;
16 gómur minn er þurr sem brenndur leir, og tungan loðir föst í munni mér. Og í duft dauðans leggur þú mig.
17 Því að hundar umkringja mig, hópur illvirkja slær hring um mig, hendur mínar og fætur hafa þeir gegnumstungið.
18 Ég get talið öll mín bein _ þeir horfa á og hafa mig að augnagamni,
19 þeir skipta með sér klæðum mínum og kasta hlut um kyrtil minn.
20 En þú, ó Drottinn, ver eigi fjarri! þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar,
21 frelsa líf mitt undan sverðinu og sál mína undan hundunum.
22 Frelsa mig úr gini ljónsins, frá hornum vísundarins. Þú hefir bænheyrt mig!
23 Ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt, í söfnuðinum vil ég lofa þig!
24 Þér sem óttist Drottin, lofið hann! Tignið hann, allir niðjar Jakobs! Dýrkið hann, allir niðjar Ísraels!
25 Því að hann hefir eigi fyrirlitið né virt að vettugi neyð hins hrjáða og eigi hulið auglit sitt fyrir honum, heldur heyrt, er hann hrópaði til hans.
26 Frá þér kemur lofsöngur minn í stórum söfnuði, heit mín vil ég efna frammi fyrir þeim er óttast hann.
27 Snauðir munu eta og verða mettir, þeir er leita Drottins munu lofa hann. Hjörtu yðar lifni við að eilífu.
28 Endimörk jarðar munu minnast þess og hverfa aftur til Drottins og allar ættir þjóðanna falla fram fyrir augliti hans.
29 Því að ríkið heyrir Drottni, og hann er drottnari yfir þjóðunum.
30 Já, fyrir honum munu öll stórmenni jarðar falla fram, fyrir honum munu beygja sig allir þeir er hníga í duftið. En ég vil lifa honum,
31 niðjar mínir munu þjóna honum. Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni,
32 og lýð sem enn er ófæddur mun boðað réttlæti hans, að hann hefir framkvæmt það.
141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.
4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.
5 Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.
6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.
8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.
9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.
10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.
143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.
2 Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.
3 Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.
4 Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.
5 Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.
6 Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]
7 Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.
8 Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.
9 Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.
10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.
11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.
12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.
13 Þá mælti Drottinn við Móse: "Rís upp árla á morgun, gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.
14 Því að í þetta sinn ætla ég að senda allar plágur mínar yfir þig sjálfan, yfir þjóna þína og yfir fólk þitt, svo að þú vitir, að enginn er minn líki á allri jörðinni.
15 Því að ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni.
16 En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.
17 Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi.
18 Sjá, á morgun í þetta mund vil ég láta dynja yfir svo stórfellt hagl, að aldrei hefir slíkt komið á Egyptalandi, síðan landið varð til og allt til þessa dags.
19 Fyrir því send nú og tak sem skjótast inn fénað þinn og allt það, er þú átt úti. Allir menn og skepnur, sem úti verða staddar og ekki eru í hús inn látnar og fyrir haglinu verða, munu deyja."`
20 Sérhver af þjónum Faraós, sem óttaðist orð Drottins, hýsti inni hjú sín og fénað.
21 En þeir, sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins, létu hjú sín og fénað vera úti.
22 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins og þá skal hagl drífa yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur, og yfir allan jarðargróða í Egyptalandi."
23 Þá lyfti Móse staf sínum til himins, og Drottinn lét þegar koma reiðarþrumur og hagl. Og eldingum laust á jörð niður, og Drottinn lét hagl dynja yfir Egyptaland.
24 Og haglið dundi og eldingunum laust í sífellu niður innan um haglið, er var svo geysistórt, að slíkt hafði ekki komið á öllu Egyptalandi síðan það byggðist.
25 Og haglið laust til bana allt það, sem úti var í öllu Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og haglið lamdi allan jarðargróða og braut hvert tré merkurinnar.
26 Aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, kom ekkert hagl.
27 Þá sendi Faraó og lét kalla þá Móse og Aron og sagði við þá: "Að þessu sinni hefi ég syndgað. Drottinn er réttlátur, en ég og mitt fólk höfum á röngu að standa.
28 Biðjið til Drottins. Nóg er komið af reiðarþrumum og hagli. Vil ég þá gefa yður fararleyfi, og skuluð þér ekki bíða lengur."
29 Móse svaraði honum: "Jafnskjótt sem ég er kominn út úr borginni, skal ég fórna höndum til Drottins, og mun þá reiðarþrumunum linna og hagl ekki framar koma, svo að þú vitir, að jörðin tilheyrir Drottni.
30 Og veit ég þó, að þú og þjónar þínir óttast ekki enn Drottin Guð."
31 Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn.
32 En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp.
33 Því næst gekk Móse burt frá Faraó og út úr borginni og fórnaði höndum til Drottins. Linnti þá reiðarþrumunum og haglinu, og regn streymdi ekki lengur niður á jörðina.
34 En er Faraó sá, að regninu, haglinu og reiðarþrumunum linnti, hélt hann áfram að syndga og herti hjarta sitt, hann og þjónar hans.
35 Og hjarta Faraós harðnaði, og hann gaf Ísraelsmönnum eigi fararleyfi, eins og Drottinn hafði sagt fyrir munn Móse.
4 Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.
2 Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.
3 En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.
4 Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.
5 Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.
6 Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.
7 En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.
8 Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,
9 ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.
10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.
11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.
12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.
32 Þeir voru nú á leið upp til Jerúsalem. Jesús gekk á undan þeim, en þeir voru skelfdir, og þeir sem eftir fylgdu voru hræddir. Og enn tók hann til sín þá tólf og fór að segja þeim, hvað fram við sig ætti að koma.
33 "Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða og framselja hann heiðingjum.
34 Og þeir munu hæða hann, hrækja á hann, húðstrýkja og lífláta, en eftir þrjá daga mun hann upp rísa."
35 Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: "Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig."
36 Hann spurði þá: "Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?"
37 Þeir svöruðu: "Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri."
38 Jesús sagði við þá: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?"
39 Þeir sögðu við hann: "Það getum við." Jesús mælti: "Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist.
40 En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið."
41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes.
42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.
43 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.
44 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.
45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."
by Icelandic Bible Society