Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 75-76

75 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Asafs-sálmur. Ljóð.

Vér lofum þig, ó Guð, vér lofum þig, og þeir er ákalla nafn þitt, segja frá dásemdarverkum þínum.

"Þegar mér þykir tími til kominn, dæmi ég réttvíslega.

Þótt jörðin skjálfi með öllum þeim, er á henni búa, þá hefi ég samt fest stoðir. [Sela]

Ég segi við hina hrokafullu: Sýnið eigi hroka! og við hina óguðlegu: Hefjið eigi hornin!

Hefjið eigi hornin gegn himninum, mælið eigi drambyrði hnakkakerrtir!"

Því að hvorki frá austri né vestri né frá eyðimörkinni kemur neinn, sem veitt geti uppreisn,

heldur er Guð sá sem dæmir, hann niðurlægir annan og upphefur hinn.

Því að bikar er í hendi Drottins með freyðandi víni, fullur af kryddi. Af því skenkir hann, já, dreggjar þess súpa og sötra allir óguðlegir menn á jörðu.

10 En ég vil fagna að eilífu, lofsyngja Jakobs Guði.

11 Öll horn óguðlegra verða af höggvin, en horn réttlátra skulu hátt gnæfa.

76 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Asafs-sálmur. Ljóð.

Guð er augljós orðinn í Júda, í Ísrael er nafn hans mikið.

Skáli hans er í Salem og bústaður hans á Síon.

Þar braut hann sundur leiftur bogans, skjöld og sverð og hervopn. [Sela]

Þú birtist dýrlegur, ógurlegri en hin öldnu fjöll.

Hinir harðsvíruðu urðu öðrum að herfangi, þeir sofnuðu svefni sínum, og hendurnar brugðust öllum hetjunum.

Fyrir ógnun þinni, Jakobs Guð, hnigu bæði vagnar og hestar í dá.

Þú ert ógurlegur, og hver fær staðist fyrir þér, er þú reiðist?

Frá himnum gjörðir þú dóm þinn heyrinkunnan, jörðin skelfdist og kyrrðist,

10 þegar Guð reis upp til dóms til þess að hjálpa öllum hrjáðum á jörðu. [Sela]

11 Því að reiði mannsins verður að lofa þig, leifum reiðinnar gyrðir þú þig.

12 Vinnið heit og efnið þau við Drottin, Guð yðar, allir þeir sem eru umhverfis hann, skulu færa gjafir hinum óttalega,

13 honum sem lægir ofstopa höfðingjanna, sem ógurlegur er konungum jarðarinnar.

Sálmarnir 23

23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Sálmarnir 27

27 Davíðssálmur. Drottinn er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast?

Þegar illvirkjarnir nálgast mig til þess að fella mig, þá verða það andstæðingar mínir og óvinir, sem hrasa og falla.

Þegar her sest um mig, óttast hjarta mitt eigi, þegar ófriður hefst í gegn mér, er ég samt öruggur.

Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.

Því að hann geymir mig í skjóli á óheilladeginum, hann felur mig í fylgsnum tjalds síns, lyftir mér upp á klett.

Þess vegna hefst upp höfuð mitt yfir óvini mína umhverfis mig, að ég með fögnuði megi færa fórnir í tjaldi hans, syngja og leika Drottni.

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt, sýn mér miskunn og svara mér!

Mér er hugsað til þín, er sagðir: "Leitið auglitis míns!" Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.

Hyl eigi auglit þitt fyrir mér, vísa þjóni þínum eigi frá í reiði. Þú hefir verið fulltingi mitt, hrind mér eigi burt og yfirgef mig eigi, þú Guð hjálpræðis míns.

10 Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur Drottinn mig að sér.

11 Vísa mér veg þinn, Drottinn, leið mig um slétta braut sakir óvina minna.

12 Ofursel mig eigi græðgi andstæðinga minna, því að falsvitni rísa í gegn mér og menn er spúa rógmælum.

13 Ég treysti því að fá að sjá gæsku Drottins á landi lifenda!

14 Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.

Fyrsta bók Móse 43:16-34

16 Er Jósef sá Benjamín með þeim, sagði hann við ráðsmann sinn: "Far þú með þessa menn inn í húsið og slátra þú og matreið, því að þessir menn skulu eta með mér miðdegisverð í dag."

17 Og maðurinn gjörði sem Jósef bauð og fór með mennina inn í hús Jósefs.

18 Mennirnir urðu hræddir, af því að þeir voru leiddir inn í hús Jósefs, og sögðu: "Sakir silfurpeninganna, sem aftur komu í sekki vora hið fyrra sinnið, erum vér hingað leiddir, svo að hann geti ráðist að oss og vaðið upp á oss og gjört oss að þrælum og tekið asna vora."

19 Þá gengu þeir til ráðsmanns Jósefs og töluðu við hann úti fyrir dyrum hússins

20 og sögðu: "Æ, herra minn, vér komum hingað í fyrra skiptið að kaupa vistir.

21 En svo bar til, er vér komum í áfangastað og opnuðum sekki vora, sjá, þá voru silfurpeningar hvers eins ofan á í sekk hans, silfurpeningar vorir með fullri vigt, og vér erum nú komnir með þá aftur.

22 Og annað silfur höfum vér með oss til að kaupa vistir. Eigi vitum vér, hver látið hefir peningana í sekki vora."

23 Hann svaraði: "Verið ókvíðnir, óttist ekki! Yðar Guð og Guð föður yðar hefir gefið yður fjársjóð í sekki yðar. Silfur yðar er komið til mín." Síðan leiddi hann Símeon út til þeirra.

24 Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn, að þeir mættu þvo fætur sína, og ösnum þeirra gaf hann fóður.

25 Og tóku þeir nú gjöfina fram, að hún væri til taks, er Jósef kæmi um miðdegið, því að þeir höfðu heyrt, að þeir ættu að matast þar.

26 Er Jósef kom heim, færðu þeir honum gjöfina, sem þeir höfðu meðferðis, inn í húsið og hneigðu sig til jarðar fyrir honum.

27 En hann spurði, hvernig þeim liði, og mælti: "Líður yðar aldraða föður vel, sem þér gátuð um? Er hann enn á lífi?"

28 Þeir svöruðu: "Þjóni þínum, föður vorum, líður vel. Hann er enn á lífi." Og þeir hneigðu sig og lutu honum.

29 Jósef hóf upp augu sín og sá Benjamín bróður sinn, son móður sinnar, og mælti: "Er þetta yngsti bróðir yðar, sem þér gátuð um við mig?" Og hann sagði: "Guð sé þér náðugur, son minn!"

30 Og Jósef hraðaði sér burt, því að hjarta hans brann af ást til bróður hans, og hann vék burt til þess að gráta og fór inn í innra herbergið og grét þar.

31 Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk út, og hann lét ekki á sér sjá og mælti: "Berið á borð!"

32 Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta, sem með honum mötuðust, því að ekki mega Egyptar eta með Hebreum, fyrir því að Egyptar hafa andstyggð á því.

33 Og þeim var skipað til sætis gegnt honum, hinum frumgetna eftir frumburðarrétti hans og hinum yngsta eftir æsku hans, og mennirnir litu með undrun hver á annan.

34 Og hann lét bera skammta frá sér til þeirra, en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en skammtur nokkurs hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.

Fyrra bréf Páls til Korin 7:10-24

10 Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, _

11 en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn _, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna.

12 En við hina segi ég, ekki Drottinn: Ef bróðir nokkur á vantrúaða konu og hún lætur sér það vel líka að búa saman við hann, þá skilji hann ekki við hana.

13 Og kona, sem á vantrúaðan mann og hann lætur sér vel líka að búa saman við hana, skilji ekki við manninn.

14 Því að vantrúaði maðurinn er helgaður í konunni og vantrúaða konan er helguð í bróðurnum. Annars væru börn yðar óhrein, en nú eru þau heilög.

15 En ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.

16 Því að hvað veist þú, kona, hvort þú munir geta frelsað manninn þinn? Eða hvað veist þú, maður, hvort þú munir geta frelsað konuna þína?

17 Þó skal hver og einn vera í þeirri stöðu, sem Drottinn hefur úthlutað honum, eins og hann var, þegar Guð kallaði hann. Þannig skipa ég fyrir í öllum söfnuðunum.

18 Sá sem var umskorinn, þegar hann var kallaður, breyti því ekki. Sá sem var óumskorinn, láti ekki umskera sig.

19 Umskurnin er ekkert og yfirhúðin ekkert, heldur það að halda boðorð Guðs.

20 Hver og einn sé kyrr í þeirri stöðu, sem hann var kallaður í.

21 Varst þú þræll, er þú varst kallaður? Set það ekki fyrir þig, en gjör þér gott úr því, en ef þú getur orðið frjáls, þá kjós það heldur.

22 Því að sá þræll, sem kallaður er í Drottni, er frelsingi Drottins. Á sama hátt er sá, sem kallaður er sem frjáls, þræll Krists.

23 Þér eruð verði keyptir, verðið ekki þrælar manna.

24 Bræður, sérhver verði frammi fyrir Guði kyrr í þeirri stétt, sem hann var kallaður í.

Markúsarguðspjall 5:1-20

Þeir komu nú yfir um vatnið í byggð Gerasena.

Og um leið og Jesús sté úr bátnum, kom maður á móti honum frá gröfunum, haldinn óhreinum anda.

Hann hafðist við í gröfunum, og enginn gat lengur bundið hann, ekki einu sinni með hlekkjum.

Oft hafði hann verið fjötraður á fótum og höndum, en hann braut jafnóðum af sér hlekkina og sleit fjötrana, og gat enginn ráðið við hann.

Allar nætur og daga var hann í gröfunum eða á fjöllum, æpti og lamdi sig grjóti.

Þegar hann sá Jesú álengdar, hljóp hann og féll fram fyrir honum

og æpti hárri röddu: "Hvað vilt þú mér, Jesús, sonur Guðs hins hæsta? Ég særi þig við Guð, kvel þú mig eigi!"

Því að Jesús hafði sagt við hann: "Þú óhreini andi, far út af manninum."

Jesús spurði hann þá: "Hvað heitir þú?" Hinn svaraði: "Hersing heiti ég, vér erum margir."

10 Og hann bað Jesú ákaft að senda þá ekki brott úr héraðinu.

11 En þar í fjallinu var mikil svínahjörð á beit.

12 Og þeir báðu hann: "Send oss í svínin, lát oss fara í þau!"

13 Hann leyfði þeim það, og fóru þá óhreinu andarnir út og í svínin, og hjörðin, nær tveim þúsundum, ruddist fram af hamrinum í vatnið og drukknaði þar.

14 En hirðarnir flýðu og sögðu tíðindin í borginni og sveitinni. Menn fóru þá að sjá, hvað gjörst hafði,

15 komu til Jesú og sáu haldna manninn, sem hersingin hafði verið í, sitja þar klæddan og heilvita. Og þeir urðu hræddir.

16 En sjónarvottar sögðu þeim, hvað fram hafði farið við haldna manninn, og frá svínunum.

17 Og þeir tóku að biðja Jesú að fara burt úr héruðum þeirra.

18 Þá er hann sté í bátinn, bað sá, er haldinn hafði verið, að fá að vera með honum.

19 En Jesús leyfði honum það eigi, heldur sagði: "Far heim til þín og þinna, og seg þeim, hve mikið Drottinn hefur gjört fyrir þig og verið þér miskunnsamur."

20 Hann fór og tók að kunngjöra í Dekapólis, hve mikið Jesús hafði fyrir hann gjört, og undruðust það allir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society