Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 137

137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.

Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.

Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"

Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?

Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.

Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.

Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"

Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!

Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.

Sálmarnir 144

144 Eftir Davíð. Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu.

Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari, skjöldur minn og athvarf, hann leggur þjóðir undir mig.

Drottinn, hvað er maðurinn þess, að þú þekkir hann, mannsins barn, að þú gefir því gaum.

Maðurinn er sem vindblær, dagar hans sem hverfandi skuggi.

Drottinn, sveig þú himin þinn og stíg niður, snertu fjöllin, svo að úr þeim rjúki.

Lát eldinguna leiftra og tvístra óvinum, skjót örvum þínum og skelf þá.

Rétt út hönd þína frá hæðum, hríf mig burt og bjarga mér úr hinum miklu vötnum, af hendi útlendinganna.

Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

Guð, ég vil syngja þér nýjan söng, ég vil leika fyrir þér á tístrengjaða hörpu.

10 Þú veitir konungunum sigur, hrífur Davíð þjón þinn undan hinu illa sverði.

11 Hríf mig burt og bjarga mér af hendi útlendinganna. Munnur þeirra mælir tál, og hægri hönd þeirra er lyginnar hönd.

12 Synir vorir eru sem þroskaðir teinungar í æsku sinni, dætur vorar sem hornsúlur, úthöggnar í hallarstíl.

13 Hlöður vorar eru fullar og veita afurðir af hverri tegund, fénaður vor getur af sér þúsundir, verður tíþúsundfaldur á haglendum vorum,

14 uxar vorir klyfjaðir, ekkert skarð og engir hernumdir og ekkert óp á torgum vorum.

15 Sæl er sú þjóð, sem svo er ástatt fyrir, sæl er sú þjóð, sem á Drottin að Guði.

Sálmarnir 104

104 Lofa þú Drottin, sála mín! Drottinn, Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.

Þú hylur þig ljósi eins og skikkju, þenur himininn út eins og tjalddúk.

Þú hvelfir hásal þinn í vötnunum, gjörir ský að vagni þínum, og ferð um á vængjum vindarins.

Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.

Þú grundvallar jörðina á undirstöðum hennar, svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.

Hafflóðið huldi hana sem klæði, vötnin náðu upp yfir fjöllin,

en fyrir þinni ógnun flýðu þau, fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.

Þau gengu yfir fjöllin, steyptust niður í dalina, þangað sem þú hafðir búið þeim stað.

Þú settir takmörk, sem þau mega ekki fara yfir, þau skulu ekki hylja jörðina framar.

10 Þú sendir lindir í dalina, þær renna milli fjallanna,

11 þær svala öllum dýrum merkurinnar, villiasnarnir slökkva þorsta sinn.

12 Yfir þeim byggja fuglar himins, láta kvak sitt heyrast milli greinanna.

13 Þú vökvar fjöllin frá hásal þínum, jörðin mettast af ávexti verka þinna.

14 Þú lætur gras spretta handa fénaðinum og jurtir, sem maðurinn ræktar, til þess að framleiða brauð af jörðinni

15 og vín, sem gleður hjarta mannsins, olíu, sem gjörir andlitið gljáandi, og brauð, sem hressir hjarta mannsins.

16 Tré Drottins mettast, sedrustrén á Líbanon, er hann hefir gróðursett

17 þar sem fuglarnir byggja hreiður, storkarnir, er hafa kýprestrén að húsi.

18 Hin háu fjöll eru handa steingeitunum, klettarnir eru hæli fyrir stökkhérana.

19 Þú gjörðir tunglið til þess að ákvarða tíðirnar, sólin veit, hvar hún á að ganga til viðar.

20 Þegar þú gjörir myrkur, verður nótt, og þá fara öll skógardýrin á kreik.

21 Ljónin öskra eftir bráð og heimta æti sitt af Guði.

22 Þegar sól rennur upp, draga þau sig í hlé og leggjast fyrir í fylgsnum sínum,

23 en þá fer maðurinn út til starfa sinna, til vinnu sinnar fram á kveld.

24 Hversu mörg eru verk þín, Drottinn, þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.

25 Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.

26 Þar fara skipin um og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.

27 Öll vona þau á þig, að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.

28 Þú gefur þeim, og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.

29 Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau, þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau og hverfa aftur til moldarinnar.

30 Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til, og þú endurnýjar ásjónu jarðar.

31 Dýrð Drottins vari að eilífu, Drottinn gleðjist yfir verkum sínum,

32 hann sem lítur til jarðar, svo að hún nötrar, sem snertir við fjöllunum, svo að úr þeim rýkur.

33 Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

34 Ó að mál mitt mætti falla honum í geð! Ég gleðst yfir Drottni.

35 Ó að syndarar mættu hverfa af jörðunni og óguðlegir eigi vera til framar. Vegsama þú Drottin, sála mín. Halelúja.

Orðskviðirnir 8:22-36

22 Drottinn skóp mig í upphafi vega sinna, á undan öðrum verkum sínum, fyrir alda öðli.

23 Frá eilífð var ég sett til valda, frá upphafi, áður en jörðin var til.

24 Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til, þá er engar vatnsmiklar lindir voru til.

25 Áður en fjöllunum var hleypt niður, á undan hæðunum fæddist ég,

26 áður en hann skapaði völl og vengi og fyrstu moldarkekki jarðríkis.

27 Þegar hann gjörði himininn, þá var ég þar, þegar hann setti hvelfinguna yfir hafdjúpið,

28 þegar hann festi skýin uppi, þegar uppsprettur hafdjúpsins komust í skorður,

29 þegar hann setti hafinu takmörk, til þess að vötnin færu eigi lengra en hann bauð, þegar hann festi undirstöður jarðar.

30 Þá stóð ég honum við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma,

31 leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum.

32 Og nú, þér yngismenn, hlýðið mér, því að sælir eru þeir, sem varðveita vegu mína.

33 Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir, og látið hann eigi sem vind um eyrun þjóta.

34 Sæll er sá maður, sem hlýðir mér, sem vakir daglega við dyr mínar og geymir dyrastafa minna.

35 Því að sá sem mig finnur, finnur lífið og hlýtur blessun af Drottni.

36 En sá sem missir mín, skaðar sjálfan sig. Allir þeir, sem hata mig, elska dauðann.

Síðara bréf Páls til Tímó 1:1-14

Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar

Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.

Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði

er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.

Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna.

Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.

Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.

Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum,

10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.

11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.

12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.

13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.

14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.

Jóhannesarguðspjall 12:20-26

20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.

21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: "Herra, oss langar að sjá Jesú."

22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú.

23 Jesús svaraði þeim: "Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.

24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.

25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.

26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society