Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 140

140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,

þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.

Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]

Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.

Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]

Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.

Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.

Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]

10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.

11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.

12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.

13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.

14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.

Sálmarnir 142

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

Sálmarnir 141

141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.

Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.

Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.

Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.

Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.

Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.

Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.

Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.

Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.

10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.

Sálmarnir 143

143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.

Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.

Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.

Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.

Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.

Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]

Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.

Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.

10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.

11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.

12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.

Orðskviðirnir 8:1-21

Heyr, spekin kallar og hyggnin lætur raust sína gjalla.

Uppi á hæðunum við veginn, þar sem göturnar kvíslast _ stendur hún.

Við hliðin, þar sem gengið er út úr borginni, þar sem gengið er inn um dyrnar, kallar hún hátt:

Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna.

Þér óreyndu, lærið hyggindi, og þér heimskingjar, lærið skynsemi.

Hlýðið á, því að ég tala það sem göfuglegt er, og varir mínar tjá það sem rétt er.

Því að sannleika mælir gómur minn og guðleysi er viðbjóður vörum mínum.

Einlæg eru öll orð munns míns, í þeim er ekkert fals né fláræði.

Öll eru þau einföld þeim sem skilning hefir, og blátt áfram fyrir þann sem hlotið hefir þekkingu.

10 Takið á móti ögun minni fremur en á móti silfri og fræðslu fremur en úrvals gulli.

11 Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.

12 Ég, spekin, er handgengin hyggindunum og ræð yfir ráðdeildarsamri þekking.

13 Að óttast Drottin er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn _ það hata ég.

14 Mín er ráðspekin og framkvæmdarsemin, ég er hyggnin, minn er krafturinn.

15 Fyrir mína hjálp ríkja konungarnir og úrskurða höfðingjarnir réttvíslega.

16 Fyrir mína hjálp stjórna stjórnendurnir og tignarmennin _ allir valdsmenn á jörðu.

17 Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín, finna mig.

18 Auður og heiður eru hjá mér, ævagamlir fjármunir og réttlæti.

19 Ávöxtur minn er betri en gull og gimsteinar og eftirtekjan eftir mig betri en úrvals silfur.

20 Ég geng á götu réttlætisins, á stigum réttarins miðjum,

21 til þess að gefa þeim sanna auðlegð, er elska mig, og fylla forðabúr þeirra.

Bréf Páls til Fílemons

Páll, bandingi Krists Jesú, og Tímóteus bróðir vor, heilsa elskuðum vini okkar og samverkamanni Fílemon,

svo og Appíu systur okkar og Arkippusi samherja okkar og söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þínu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég þakka Guði mínum ávallt, er ég minnist þín í bænum mínum.

Því að ég heyri um trúna, sem þú hefur á Drottni Jesú, og um kærleika þinn til hinna heilögu.

Ég bið þess, að trú þín, sem þú átt með oss, verði mikilvirk í þekkingunni á öllu því góða, sem tilheyrir Kristi.

Ég hlaut mikla gleði og huggun af kærleika þínum, þar eð þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu hinna heilögu.

Því er það, að þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það, sem skylt er,

þá fer ég þó heldur bónarveg vegna kærleika þíns, þar sem ég er eins og ég er, hann Páll gamli, og nú líka bandingi Krists Jesú.

10 Ég bið þig þá fyrir barnið mitt, sem ég hef getið í fjötrum mínum, hann Onesímus.

11 Hann var þér áður óþarfur, en er nú þarfur bæði þér og mér.

12 Ég sendi hann til þín aftur, og er hann þó sem hjartað í brjósti mér.

13 Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér, til þess að hann í þinn stað veitti mér þjónustu í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins.

14 En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gjöra, til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung, heldur af fúsum vilja.

15 Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega,

16 ekki lengur eins og þræli, heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér, bæði sem maður og kristinn.

17 Ef þú því telur mig félaga þinn, þá tak þú á móti honum, eins og væri það ég sjálfur.

18 En hafi hann eitthvað gjört á hluta þinn, eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings.

19 Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun gjalda. Að ég ekki nefni við þig, að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig.

20 Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists.

21 Í fullu trausti til hlýðni þinnar rita ég til þín og veit, að þú munt gjöra jafnvel fram yfir það, sem ég mælist til.

22 En hafðu líka til gestaherbergi handa mér, því að ég vona, að ég vegna bæna yðar muni verða gefinn yður.

23 Epafras, sambandingi minn vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér. Sömuleiðis

24 Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samverkamenn mínir.

Jóhannesarguðspjall 12:9-19

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum.

10 Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,

11 því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

12 Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.

13 Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!"

14 Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:

15 Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.

16 Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann.

17 Nú vitnaði fólkið, sem með honum var, þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni og vakti hann frá dauðum.

18 Vegna þess fór einnig mannfjöldinn á móti honum, því menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þetta tákn.

19 Því sögðu farísear sín á milli: "Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society