Book of Common Prayer
131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.
2 Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.
3 Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.
132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,
2 hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:
3 "Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,
4 eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,
5 fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."
6 Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.
7 Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.
8 Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.
9 Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.
10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.
11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.
12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."
13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:
14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.
15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,
16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.
17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.
18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."
133 Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman,
2 eins og hin ilmgóða olía á höfðinu, er rennur niður í skeggið, skegg Arons, er fellur niður á kyrtilfald hans,
3 eins og dögg af Hermonfjalli, er fellur niður á Síonfjöll. Því að þar hefir Drottinn boðið út blessun, lífi að eilífu.
134 Já, lofið Drottin, allir þjónar Drottins, þér er standið í húsi Drottins um nætur.
2 Fórnið höndum til helgidómsins og lofið Drottin.
3 Drottinn blessi þig frá Síon, hann sem er skapari himins og jarðar.
135 Halelúja. Lofið nafn Drottins, lofið hann, þér þjónar Drottins,
2 er standið í húsi Drottins, í forgörðum húss Guðs vors.
3 Lofið Drottin, því að Drottinn er góður, leikið fyrir nafni hans, því að það er yndislegt.
4 Því að Drottinn hefir útvalið sér Jakob, gert Ísrael að eign sinni.
5 Já, ég veit, að Drottinn er mikill og að Drottinn vor er öllum guðum æðri.
6 Allt, sem Drottni þóknast, það gjörir hann, á himni og jörðu, í hafinu og öllum djúpunum.
7 Hann lætur skýin uppstíga frá endimörkum jarðar, gjörir eldingarnar til að búa rás regninu, hleypir vindinum út úr forðabúrum hans.
8 Hann laust frumburði Egyptalands, bæði menn og skepnur,
9 sendi tákn og undur yfir Egyptaland, gegn Faraó og öllum þjónum hans.
10 Hann laust margar þjóðir og deyddi volduga konunga:
11 Síhon, Amorítakonung, og Óg, konung í Basan, og öll konungsríki í Kanaan,
12 og gaf lönd þeirra að erfð, að erfð Ísrael, lýð sínum.
13 Drottinn, nafn þitt varir að eilífu, minning þín, Drottinn, frá kyni til kyns,
14 því að Drottinn réttir hlut þjóðar sinnar og aumkast yfir þjóna sína.
15 Skurðgoð þjóðanna eru silfur og gull, handaverk manna.
16 Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,
17 þau hafa eyru, en heyra ekki, og eigi er heldur neinn andardráttur í munni þeirra.
18 Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir, er á þau treysta.
19 Ísraels ætt, lofið Drottin, Arons ætt, lofið Drottin!
20 Leví ætt, lofið Drottin, þér sem óttist Drottin, lofið hann!
21 Lofaður sé Drottinn frá Síon, hann sem býr í Jerúsalem! Halelúja.
7 Son minn, varðveit þú orð mín og geym þú hjá þér boðorð mín.
2 Varðveit þú boðorð mín, og þá munt þú lifa, og áminning mína eins og sjáaldur auga þíns.
3 Bind þau á fingur þína, skrifa þau á spjald hjarta þíns.
4 Seg við spekina: "Þú ert systir mín!" og kallaðu skynsemina vinkonu,
5 svo að þær varðveiti þig fyrir léttúðarkonu, fyrir blíðmálugri konu sem annar á.
6 Út um gluggann á húsi mínu, út um grindurnar skimaði ég
7 og sá þar meðal sveinanna ungan og vitstola mann.
8 Hann gekk á strætinu nálægt horni einu og fetaði leiðina að húsi hennar,
9 í rökkrinu, að kveldi dags, um miðja nótt og í niðdimmu.
10 Gekk þá kona í móti honum, búin sem portkona og undirförul í hjarta _
11 hávær er hún og óhemjuleg, fætur hennar tolla aldrei heima,
12 hún er ýmist á götunum eða á torgunum, og situr um menn hjá hverju horni _,
13 hún þrífur í hann og kyssir hann og segir við hann, ósvífin í bragði:
14 "Ég átti að greiða heillafórn, í dag hefi ég goldið heit mitt.
15 Fyrir því fór ég út til móts við þig, til þess að leita þín, og hefi nú fundið þig.
16 Ég hefi búið rúm mitt ábreiðum, marglitum ábreiðum úr egypsku líni.
17 Myrru, alóe og kanel hefi ég stökkt á hvílu mína.
18 Kom þú, við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum.
19 Því að maðurinn minn er ekki heima, hann er farinn í langferð.
20 Peningapyngjuna tók hann með sér, hann kemur ekki heim fyrr en í tunglfylling."
21 Hún tældi hann með sínum áköfu fortölum, ginnti hann með kjassmælum sínum.
22 Hann fer rakleiðis á eftir henni, eins og naut gengur fram á blóðvöllinn, og eins og hjörtur, sem anar í netið,
23 uns örin fer í gegnum lifur hans, eins og fuglinn hraðar sér í snöruna, og veit ekki, að líf hans er í veði.
24 Og nú, þér yngismenn, hlýðið á mig og gefið gaum að orðum munns míns.
25 Lát eigi hjarta þitt teygjast á vegu hennar, villst eigi inn á stigu hennar.
26 Því að margir eru þeir, sem hún hefir sært til ólífis, og mesti grúi allir þeir, sem hún hefir myrt.
27 Hús hennar er helvegur, er liggur niður til heimkynna dauðans.
13 Þetta hef ég skrifað yður, sem trúið á nafn Guðs sonar, til þess að þér vitið, að þér hafið eilíft líf.
14 Og þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.
15 Og ef vér vitum, að hann heyrir oss, um hvað sem vér biðjum, þá vitum vér, að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um.
16 Ef einhver sér bróður sinn drýgja synd, sem er ekki til dauða, þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum líf, þeim sem ekki syndgar til dauða. Til er synd til dauða. Fyrir henni segi ég ekki að hann skuli biðja.
17 Allt ranglæti er synd, en til er synd, sem ekki er til dauða.
18 Vér vitum, að hver sem af Guði er fæddur syndgar ekki, sá sem af Guði er fæddur varðveitir hann og hinn vondi snertir hann ekki.
19 Vér vitum, að vér tilheyrum Guði og allur heimurinn er á valdi hins vonda.
20 Vér vitum, að Guðs sonur er kominn og hefur gefið oss skilning, til þess að vér þekkjum sannan Guð. Vér erum í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.
55 Nú nálguðust páskar Gyðinga, og margir fóru úr sveitinni upp til Jerúsalem fyrir páskana til að hreinsa sig.
56 Menn leituðu að Jesú og sögðu sín á milli í helgidóminum: "Hvað haldið þér? Skyldi hann ekki koma til hátíðarinnar?"
57 En æðstu prestar og farísear höfðu gefið út skipun um það, að ef nokkur vissi hvar hann væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu tekið hann.
12 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum.
2 Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.
3 Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.
4 Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:
5 "Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?"
6 Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.
7 Þá sagði Jesús: "Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.
8 Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt."
by Icelandic Bible Society