Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:145-176

145 Ég kalla af öllu hjarta, bænheyr mig, Drottinn, ég vil halda lög þín.

146 Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur þínar.

147 Ég er á ferli fyrir dögun og hrópa og bíð orða þinna.

148 Fyrr en vakan hefst eru augu mín vökul til þess að íhuga orð þitt.

149 Hlýð á raust mína eftir miskunn þinni, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir ákvæðum þínum.

150 Þeir eru nærri, er ofsækja mig af fláræði, þeir eru langt burtu frá lögmáli þínu.

151 Þú ert nálægur, Drottinn, og öll boð þín eru trúfesti.

152 Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.

153 Sjá þú eymd mína og frelsa mig, því að ég hefi eigi gleymt lögmáli þínu.

154 Flyt þú mál mitt og leys mig, lát mig lífi halda samkvæmt fyrirheiti þínu.

155 Hjálpræðið er fjarri óguðlegum, því að þeir leita eigi fyrirmæla þinna.

156 Mikil er miskunn þín, Drottinn, lát mig lífi halda eftir ákvæðum þínum.

157 Margir eru ofsækjendur mínir og fjendur, en frá reglum þínum hefi ég eigi vikið.

158 Ég sé trúrofana og kenni viðbjóðs, þeir varðveita eigi orð þitt.

159 Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, Drottinn, eftir miskunn þinni.

160 Allt orð þitt samanlagt er trúfesti, og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.

161 Höfðingjar ofsækja mig að ástæðulausu, en hjarta mitt óttast orð þín.

162 Ég gleðst yfir fyrirheiti þínu eins og sá er fær mikið herfang.

163 Ég hata lygi og hefi andstyggð á henni, en þitt lögmál elska ég.

164 Sjö sinnum á dag lofa ég þig sakir þinna réttlátu ákvæða.

165 Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.

166 Ég vænti hjálpræðis þíns, Drottinn, og framkvæmi boð þín.

167 Sál mín varðveitir reglur þínar, og þær elska ég mjög.

168 Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur, allir mínir vegir eru þér augljósir.

169 Ó að hróp mitt mætti nálgast auglit þitt, Drottinn, veit mér að skynja í samræmi við orð þitt.

170 Ó að grátbeiðni mín mætti koma fyrir auglit þitt, frelsa mig samkvæmt fyrirheiti þínu.

171 Lof um þig skal streyma mér af vörum, því að þú kennir mér lög þín.

172 Tunga mín skal mæra orð þitt, því að öll boðorð þín eru réttlæti.

173 Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.

174 Ég þrái hjálpræði þitt, Drottinn, og lögmál þitt er unun mín.

175 Lát sál mína lifa, að hún megi lofa þig og dómar þínir veiti mér lið.

176 Ég villist sem týndur sauður, leita þú þjóns þíns, því að þínum boðum hefi ég eigi gleymt.

Sálmarnir 128-130

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

129 Þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, _ skal Ísrael segja _

þeir hafa fjandskapast mjög við mig frá æsku, en þó eigi borið af mér.

Plógmennirnir hafa plægt um hrygg mér, gjört plógför sín löng,

en Drottinn hinn réttláti hefir skorið í sundur reipi óguðlegra.

Sneypast skulu þeir og undan hörfa, allir þeir sem hata Síon.

Þeir skulu verða sem gras á þekju, er visnar áður en það frævist.

Sláttumaðurinn skal eigi fylla hönd sína né sá fang sitt sem bindur,

og þeir sem fram hjá fara skulu ekki segja: "Blessun Drottins sé með yður." Vér blessum yður í nafni Drottins!

130 Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,

Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína!

Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?

En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég.

Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin.

Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar.

Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Orðskviðirnir 6:1-19

Son minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn, hafir þú gengið til handsala fyrir annan mann,

hafir þú ánetjað þig með orðum munns þíns, látið veiðast með orðum munns þíns,

þá gjör þetta, son minn, til að losa þig _ því að þú ert kominn á vald náunga þíns _ far þú, varpa þér niður og legg að náunga þínum.

Lát þér eigi koma dúr á auga, né blund á brá.

Losa þig eins og skógargeit úr höndum hans, eins og fugl úr höndum fuglarans.

Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.

Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra,

þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.

Hversu lengi ætlar þú, letingi, að hvílast? hvenær ætlar þú að rísa af svefni?

10 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast!

11 Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

12 Varmenni, illmenni er sá, sem gengur um með fláttskap í munni,

13 sem deplar augunum, gefur merki með fótunum, bendir með fingrunum,

14 elur fláræði í hjarta sínu, upphugsar ávallt illt, kveikir illdeilur.

15 Fyrir því mun ógæfa skyndilega yfir hann koma, snögglega mun hann sundurmolast og engin lækning fást.

16 Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð:

17 drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði,

18 hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka,

19 ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.

Fyrsta bréf Jóhannesar 5:1-12

Hver sem trúir, að Jesús sé Kristur, er af Guði fæddur, og hver sem elskar föðurinn elskar einnig barn hans.

Að vér elskum Guðs börn þekkjum vér af því, að vér elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.

Því að í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,

því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.

Hver er sá, sem sigrar heiminn, nema sá sem trúir, að Jesús sé sonur Guðs?

Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu einungis, heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.

Því að þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:]

Andinn og vatnið og blóðið, og þeim þremur ber saman.

Vér tökum manna vitnisburð gildan, en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs, hann hefur vitnað um son sinn.

10 Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gjört hann að lygara, af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð, sem Guð hefur vitnað um son sinn.

11 Og þetta er vitnisburðurinn, að Guð hefur gefið oss eilíft líf og þetta líf er í syni hans.

12 Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki hefur Guðs son á ekki lífið.

Jóhannesarguðspjall 11:45-54

45 Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann.

46 En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört.

47 Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: "Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn.

48 Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð."

49 En einn þeirra, Kaífas, sem það ár var æðsti prestur, sagði við þá: "Þér vitið ekkert

50 og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist."

51 Þetta sagði hann ekki af sjálfum sér, en þar sem hann var æðsti prestur það ár, gat hann spáð því, að Jesús mundi deyja fyrir þjóðina,

52 og ekki fyrir þjóðina eina, heldur og til að safna saman í eitt dreifðum börnum Guðs.

53 Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi.

54 Jesús gekk því ekki lengur um meðal Gyðinga á almannafæri, heldur fór hann þaðan til staðar í grennd við eyðimörkina, í þorp sem heitir Efraím, og þar dvaldist hann með lærisveinum sínum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society