Book of Common Prayer
120 Ég ákalla Drottin í nauðum mínum, og hann bænheyrir mig.
2 Drottinn, frelsa sál mína frá ljúgandi vörum, frá tælandi tungu.
3 Hversu mun fara fyrir þér nú og síðar, þú tælandi tunga?
4 Örvar harðstjórans eru hvesstar með glóandi viðarkolum.
5 Vei mér, að ég dvel hjá Mesek, bý hjá tjöldum Kedars.
6 Nógu lengi hefir sál mín búið hjá þeim er friðinn hata.
7 Þótt ég tali friðlega, vilja þeir ófrið.
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."
2 Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.
3 Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,
4 þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,
5 því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.
6 Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.
7 Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.
8 Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.
9 Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.
123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.
2 Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.
3 Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.
4 Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.
124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.
6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
125 Þeir sem treysta Drottni eru sem Síonfjall, er eigi bifast, sem stendur að eilífu.
2 Fjöll eru kringum Jerúsalem, og Drottinn er kringum lýð sinn héðan í frá og að eilífu.
3 Því að veldissproti guðleysisins mun eigi hvíla á landi réttlátra, til þess að hinir réttlátu skuli eigi rétta fram hendur sínar til ranglætis.
4 Gjör þú góðum vel til, Drottinn, og þeim sem hjartahreinir eru.
5 En þá er beygja á krókóttar leiðir mun Drottinn láta hverfa með illgjörðamönnum. Friður sé yfir Ísrael!
126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.
2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."
3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.
4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.
5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.
6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.
127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.
2 Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!
3 Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.
4 Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.
5 Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.
4 Heyrið, synir, áminning föður yðar og hlýðið til, svo að þér lærið hyggindi!
2 Því að góðan lærdóm gef ég yður, hafnið eigi kenning minni!
3 Þegar ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni,
4 þá kenndi faðir minn mér og sagði við mig: "Hjarta þitt haldi fast orðum mínum, varðveit þú boðorð mín, og muntu lifa!
5 Afla þér visku, afla þér hygginda! Gleym eigi og vík eigi frá orðum munns míns!
6 Hafna henni eigi, þá mun hún varðveita þig, elska hana, þá mun hún vernda þig.
7 Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar!
8 Haf hana í hávegum, þá mun hún hefja þig, hún mun koma þér til vegs, ef þú umfaðmar hana.
9 Hún mun setja yndislegan sveig á höfuð þér, sæma þig prýðilegri kórónu."
10 Heyr þú, son minn, og veit viðtöku orðum mínum, þá munu æviár þín mörg verða.
11 Ég vísa þér veg spekinnar, leiði þig á brautir ráðvendninnar.
12 Gangir þú þær, skal leið þín ekki verða þröng, og hlaupir þú, skalt þú ekki hrasa.
13 Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.
14 Kom þú eigi á götu óguðlegra og gakk eigi á vegi vondra manna.
15 Sneið hjá honum, farðu hann ekki, snú þú frá honum og farðu fram hjá.
16 Því að þeir geta ekki sofið, nema þeir hafi gjört illt, og þeim kemur ekki dúr á auga, nema þeir hafi fellt einhvern.
17 Því að þeir eta glæpabrauð og drekka ofbeldisvín.
18 Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.
19 Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur, þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.
20 Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum.
21 Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu.
22 Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.
23 Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.
24 Haltu fláræði munnsins burt frá þér og lát fals varanna vera fjarri þér.
25 Augu þín líti beint fram og augnalok þín horfi beint fram undan þér.
26 Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir.
27 Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.
7 Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð.
8 Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.
9 Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.
10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.
11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan.
12 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss.
13 Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum anda.
14 Vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins.
15 Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði.
16 Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
17 Með því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins, því að vér erum í þessum heimi eins og hann er.
18 Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
19 Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði.
20 Ef einhver segir: "Ég elska Guð," og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.
21 Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.
30 En Jesús var ekki enn kominn til þorpsins, heldur var hann enn á þeim stað, þar sem Marta hafði mætt honum.
31 Gyðingarnir, sem voru heima hjá Maríu að hugga hana, sáu, að hún stóð upp í skyndi og gekk út, og fóru þeir á eftir henni. Þeir hugðu, að hún hefði farið til grafarinnar að gráta þar.
32 María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn."
33 Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög
34 og sagði: "Hvar hafið þér lagt hann?" Þeir sögðu: "Herra, kom þú og sjá."
35 Þá grét Jesús.
36 Gyðingar sögðu: "Sjá, hversu hann hefur elskað hann!"
37 En nokkrir þeirra sögðu: "Gat ekki sá maður, sem opnaði augu hins blinda, einnig varnað því, að þessi maður dæi?"
38 Jesús varð aftur hrærður mjög og fór til grafarinnar. Hún var hellir og steinn fyrir.
39 Jesús segir: "Takið steininn frá!" Marta, systir hins dána, segir við hann: "Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag."
40 Jesús segir við hana: "Sagði ég þér ekki: ,Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs`?"
41 Nú var steinninn tekinn frá. En Jesús hóf upp augu sín og mælti: "Faðir, ég þakka þér, að þú hefur bænheyrt mig.
42 Ég vissi að sönnu, að þú heyrir mig ávallt, en ég sagði þetta vegna mannfjöldans, sem stendur hér umhverfis, til þess að þeir trúi, að þú hafir sent mig."
43 Að svo mæltu hrópaði hann hárri röddu: "Lasarus, kom út!"
44 Hinn dáni kom út vafinn líkblæjum á fótum og höndum og með sveitadúk bundinn um andlitið. Jesús segir við þá: "Leysið hann og látið hann fara."
by Icelandic Bible Society