Book of Common Prayer
118 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Það mæli Ísrael: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
3 Það mæli Arons ætt: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
4 Það mæli þeir sem óttast Drottin: "Því að miskunn hans varir að eilífu!"
5 Í þrengingunni ákallaði ég Drottin, hann bænheyrði mig og rýmkaði um mig.
6 Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?
7 Drottinn er með mér með hjálp sína, og ég mun fá að horfa á ófarir hatursmanna minna.
8 Betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta mönnum,
9 betra er að leita hælis hjá Drottni en að treysta tignarmönnum.
10 Allar þjóðir umkringdu mig, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
11 Þær umkringdu mig á alla vegu, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
12 Þær umkringdu mig eins og býflugur vax, brunnu sem eldur í þyrnum, en í nafni Drottins hefi ég sigrast á þeim.
13 Mér var hrundið, til þess að ég skyldi falla, en Drottinn veitti mér lið.
14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mér til hjálpræðis.
15 Fagnaðar- og siguróp kveður við í tjöldum réttlátra: Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
16 hægri hönd Drottins upphefur, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.
17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa og kunngjöra verk Drottins.
18 Drottinn hefir hirt mig harðlega, en eigi ofurselt mig dauðanum.
19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins, að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.
20 Þetta er hlið Drottins, réttlátir menn fara inn um það.
21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig og ert orðinn mér hjálpræði.
22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini.
23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum.
24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum.
25 Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi!
26 Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, frá húsi Drottins blessum vér yður.
27 Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós. Tengið saman dansraðirnar með laufgreinum, allt inn að altarishornunum.
28 Þú ert Guð minn, og ég þakka þér, Guð minn, ég vegsama þig.
29 Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
6 Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: "Ég vil segja frá stórvirkjum þínum."
7 Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.
10 Öll sköpun þín lofar þig, Drottinn, og dýrkendur þínir prísa þig.
11 Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu.
12 Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.
13 Konungdómur þinn er konungdómur um allar aldir og ríki þitt stendur frá kyni til kyns. Drottinn er trúfastur í öllum orðum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.
14 Drottinn styður alla þá, er ætla að hníga, og reisir upp alla niðurbeygða.
15 Allra augu vona á þig, og þú gefur þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
16 Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
20 Spekin kallar hátt á strætunum, lætur rödd sína gjalla á torgunum.
21 Hún hrópar á glaummiklum gatnamótum, við borgarhliðin heldur hún tölur sínar:
22 Hversu lengi ætlið þér, fávísir, að elska fávísi og hinir háðgjörnu að hafa yndi af háði og heimskingjarnir að hata þekkingu?
23 Snúist til umvöndunar minnar, sjá, ég læt anda minn streyma yfir yður, kunngjöri yður orð mín.
24 En af því að þér færðust undan, þá er ég kallaði, og enginn gaf því gaum, þótt ég rétti út höndina,
25 heldur létuð öll mín ráð sem vind um eyrun þjóta og skeyttuð eigi umvöndun minni,
26 þá mun ég hlæja í ógæfu yðar, draga dár að, þegar skelfingin dynur yfir yður,
27 þegar skelfingin dynur yfir yður eins og þrumuveður og ógæfa yðar nálgast eins og fellibylur, þegar neyð og angist dynja yfir yður.
28 Þá munu þeir kalla á mig, en ég mun ekki svara, þeir munu leita mín, en ekki finna mig.
29 Vegna þess að þeir hötuðu þekking og aðhylltust ekki ótta Drottins,
30 skeyttu ekki ráðum mínum og smáðu alla umvöndun mína,
31 þá skulu þeir fá að neyta ávaxtar breytni sinnar og mettast af sínum eigin vélræðum.
32 Því að fráhvarf fávísra drepur þá, og uggleysi heimskingjanna tortímir þeim.
33 En sá sem á mig hlýðir, mun búa óhultur, mun vera öruggur og engri óhamingju kvíða.
11 Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn. En Guði erum vér kunnir orðnir, já, ég vona, að vér séum einnig kunnir orðnir yður í hjörtum yðar.
12 Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu.
13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar.
14 Kærleiki Krists knýr oss,
15 því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.
16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.
17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.
18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.
19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.
20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.
21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.
35 Þá komu til hans Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: "Meistari, okkur langar, að þú gjörir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig."
36 Hann spurði þá: "Hvað viljið þið, að ég gjöri fyrir ykkur?"
37 Þeir svöruðu: "Veit okkur, að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri."
38 Jesús sagði við þá: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn, sem ég skírist?"
39 Þeir sögðu við hann: "Það getum við." Jesús mælti: "Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka, og þið munuð skírast þeirri skírn, sem ég skírist.
40 En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið."
41 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes.
42 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu.
43 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.
44 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.
45 Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."
by Icelandic Bible Society