Book of Common Prayer
33 Hann gjörir fljótin að eyðimörk og uppsprettur að þurrum lendum,
34 frjósamt land að saltsléttu sakir illsku íbúanna.
35 Hann gjörir eyðimörkina að vatnstjörnum og þurrlendið að uppsprettum
36 og lætur hungraða menn búa þar, að þeir megi grundvalla byggilega borg,
37 sá akra og planta víngarða og afla afurða.
38 Og hann blessar þá, svo að þeir margfaldast stórum og fénað þeirra lætur hann eigi fækka.
39 Og þótt þeir fækki og hnígi niður sakir þrengingar af böli og harmi,
40 þá hellir hann fyrirlitning yfir tignarmenn og lætur þá villast um veglaus öræfi,
41 en bjargar aumingjanum úr eymdinni og gjörir ættirnar sem hjarðir.
42 Hinir réttvísu sjá það og gleðjast, og öll illska lokar munni sínum.
43 Hver sem er vitur, gefi gætur að þessu, og menn taki eftir náðarverkum Drottins.
108 Ljóð. Davíðssálmur.
2 Hjarta mitt er stöðugt, ó Guð, ég vil syngja og leika, vakna þú, sála mín!
3 Vakna þú, harpa og gígja, ég vil vekja morgunroðann.
4 Ég vil lofa þig meðal lýðanna, Drottinn, vegsama þig meðal þjóðanna,
5 því að miskunn þín er himnum hærri, og trúfesti þín nær til skýjanna.
6 Sýn þig himnum hærri, ó Guð, og dýrð þín breiðist yfir gjörvalla jörðina,
7 til þess að ástvinir þínir megi frelsast. Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr mig.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað, ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
35 Guð sagði við Jakob: "Tak þig upp og far upp til Betel og dvel þú þar og gjör þar altari Guði, sem birtist þér, þegar þú flýðir undan Esaú bróður þínum."
2 Jakob sagði við heimafólk sitt og alla, sem með honum voru: "Kastið burt þeim útlendu goðum, sem þér hafið hjá yður, og hreinsið yður og hafið fataskipti,
3 og skulum vér taka oss upp og fara upp til Betel. Vil ég reisa þar altari þeim Guði, sem bænheyrði mig á tíma neyðar minnar og hefir verið með mér á þeim vegi, sem ég hefi farið."
4 Og þeir fengu Jakob öll þau útlendu goð, sem þeir höfðu hjá sér, og hringana, sem þeir höfðu í eyrum sér, og gróf Jakob það undir eikinni, sem er hjá Síkem.
5 Því næst fóru þeir af stað. En ótti frá Guði var yfir öllum borgunum, sem voru umhverfis þá, svo að sonum Jakobs var ekki veitt eftirför.
6 Og Jakob kom til Lúz, sem er í Kanaanlandi (það er Betel), hann og allt fólkið, sem með honum var.
7 Og hann reisti þar altari og kallaði staðinn El-Betel, því að Guð hafði birst honum þar, þegar hann flýði undan bróður sínum.
8 Þar andaðist Debóra, fóstra Rebekku, og var jörðuð fyrir neðan Betel, undir eikinni, og fyrir því heitir hún Gráteik.
9 Enn birtist Guð Jakob, er hann var á heimleið frá Mesópótamíu, og blessaði hann.
10 Og Guð sagði við hann: "Nafn þitt er Jakob. Eigi skalt þú héðan af Jakob heita, heldur skal nafn þitt vera Ísrael." Og hann nefndi hann Ísrael.
11 Og Guð sagði við hann: "Ég er Almáttugur Guð. Ver þú frjósamur og auk kyn þitt. Þjóð, já fjöldi þjóða skal frá þér koma, og konungar skulu út ganga af lendum þínum.
12 Og landið, sem ég gaf Abraham og Ísak, mun ég gefa þér, og niðjum þínum eftir þig mun ég gefa landið."
13 Því næst sté Guð upp frá honum, þaðan sem hann talaði við hann.
14 Jakob reisti upp merki á þeim stað, sem Guð talaði við hann, merkisstein, og dreypti yfir hann dreypifórn og hellti yfir hann olíu.
15 Og Jakob nefndi staðinn, þar sem Guð talaði við hann, Betel.
16 Þeir tóku sig upp frá Betel. En er þeir áttu skammt eftir ófarið til Efrata, tók Rakel léttasótt og kom hart niður.
17 Og er hún kom svo hart niður í barnburðinum, sagði ljósmóðirin við hana: "Óttast þú ekki, því að nú eignast þú annan son."
18 Og er hún var í andlátinu, _ því að hún dó _, þá nefndi hún hann Benóní, en faðir hans nefndi hann Benjamín.
19 Því næst andaðist Rakel og var jörðuð við veginn til Efrata, það er Betlehem.
20 Jakob reisti minnismerki á leiði hennar. Þar er legsteinn Rakelar allt til þessa dags.
11 Því að þetta er sá boðskapur, sem þér hafið heyrt frá upphafi: Vér eigum að elska hver annan.
12 Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn. Og af hverju myrti hann hann? Af því að verk hans voru vond, en verk bróður hans réttlát.
13 Undrist ekki, bræður, þótt heimurinn hati yður.
14 Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því að vér elskum bræður vora. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum.
15 Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.
16 Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna.
17 Ef sá, sem hefur heimsins gæði, horfir á bróður sinn vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir honum, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?
18 Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.
11 Maður sá var sjúkur, er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar.
2 En María var sú er smurði Drottin smyrslum og þerraði fætur hans með hári sínu. Bróðir hennar, Lasarus, var sjúkur.
3 Nú gjörðu systurnar Jesú orðsending: "Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur."
4 Þegar hann heyrði það, mælti hann: "Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna."
5 Jesús elskaði þau Mörtu og systur hennar og Lasarus.
6 Þegar hann frétti, að hann væri veikur, var hann samt um kyrrt á sama stað í tvo daga.
7 Að þeim liðnum sagði hann við lærisveina sína: "Förum aftur til Júdeu."
8 Lærisveinarnir sögðu við hann: "Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?"
9 Jesús svaraði: "Eru ekki stundir dagsins tólf? Sá sem gengur um að degi, hrasar ekki, því hann sér ljós þessa heims.
10 En sá sem gengur um að nóttu, hrasar, því hann hefur ekki ljósið í sér."
11 Þetta mælti hann, og sagði síðan við þá: "Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann."
12 Þá sögðu lærisveinar hans: "Herra, ef hann er sofnaður, batnar honum."
13 En Jesús talaði um dauða hans. Þeir héldu hins vegar, að hann ætti við venjulegan svefn.
14 Þá sagði Jesús þeim berum orðum: "Lasarus er dáinn,
15 og yðar vegna fagna ég því, að ég var þar ekki, til þess að þér skuluð trúa. En förum nú til hans."
16 Tómas, sem nefndist tvíburi, sagði þá við hina lærisveinana: "Vér skulum fara líka til að deyja með honum."
by Icelandic Bible Society