Book of Common Prayer
97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.
2 Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,
3 eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.
4 Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.
5 Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.
6 Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.
7 Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.
8 Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.
9 Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.
10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.
11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.
12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.
99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.
2 Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.
3 Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!
4 Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.
5 Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!
6 Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.
7 Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.
8 Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.
9 Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.
100 Þakkarfórnar-sálmur. Öll veröldin fagni fyrir Drottni!
2 Þjónið Drottni með gleði, komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng!
3 Vitið, að Drottinn er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.
4 Gangið inn um hlið hans með lofsöng, í forgarða hans með sálmum, lofið hann, vegsamið nafn hans.
5 Því að Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns.
94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
31 Nú frétti Jakob svofelld ummæli Labans sona: "Jakob hefir dregið undir sig aleigu föður vors, og af eigum föður vors hefir hann aflað sér allra þessara auðæfa."
2 Og Jakob sá á yfirbragði Labans, að hann bar ekki sama þel til sín sem áður.
3 Þá sagði Drottinn við Jakob: "Hverf heim aftur í land feðra þinna og til ættfólks þíns, og ég mun vera með þér."
4 Þá sendi Jakob og lét kalla þær Rakel og Leu út í hagann, þangað sem hjörð hans var.
5 Og hann sagði við þær: "Ég sé á yfirbragði föður ykkar, að hann ber ekki sama þel til mín sem áður; en Guð föður míns hefir verið með mér.
6 Og það vitið þið sjálfar, að ég hefi þjónað föður ykkar af öllu mínu megni.
7 En faðir ykkar hefir svikið mig og tíu sinnum breytt kaupi mínu, en Guð hefir ekki leyft honum að gjöra mér mein.
8 Þegar hann sagði: ,Hið flekkótta skal vera kaup þitt,` _ fæddi öll hjörðin flekkótt, og þegar hann sagði: ,Hið rílótta skal vera kaup þitt,` _ þá fæddi öll hjörðin rílótt.
9 Og þannig hefir Guð tekið fénaðinn frá föður ykkar og gefið mér hann.
10 Og um fengitíma hjarðarinnar hóf ég upp augu mín og sá í draumi, að hafrarnir, sem hlupu á féð, voru rílóttir, flekkóttir og dílóttir.
11 Og engill Guðs sagði við mig í draumnum: ,Jakob!` Og ég svaraði: ,Hér er ég.`
12 Þá mælti hann: ,Lít upp augum þínum og horfðu á: Allir hafrarnir, sem hlaupa á féð, eru rílóttir, flekkóttir og dílóttir; því að ég hefi séð allt, sem Laban hefir gjört þér.
13 Ég er Betels Guð, þar sem þú smurðir merkisstein, þar sem þú gjörðir mér heit. Tak þig nú upp, far burt úr þessu landi og hverf aftur til ættlands þíns."`
14 Þá svöruðu þær Rakel og Lea og sögðu við hann: "Höfum við nokkra hlutdeild og arf framar í húsi föður okkar?
15 Álítur hann okkur ekki vandalausar, þar sem hann hefir selt okkur? Og verði okkar hefir hann og algjörlega eytt.
16 Aftur á móti eigum við og börn okkar allan þann auð, sem Guð hefir tekið frá föður okkar. Og gjör þú nú allt, sem Guð hefir boðið þér."
17 Þá tók Jakob sig upp og setti börn sín og konur upp á úlfaldana
18 og hafði á burt allan fénað sinn og allan fjárhlut sinn, sem hann hafði aflað sér, fjáreign sína, sem hann hafði aflað sér í Mesópótamíu, og hóf ferð sína til Ísaks föður síns í Kanaanlandi.
19 Þegar Laban var farinn að klippa sauði sína, þá stal Rakel húsgoðum föður síns.
20 Og Jakob blekkti Laban hinn arameíska, með því að hann sagði honum eigi frá því, að hann mundi flýja.
21 Þannig flýði hann með allt, sem hann átti. Og hann tók sig upp og fór yfir fljótið og stefndi á Gíleaðsfjöll.
22 Laban var sagt það á þriðja degi, að Jakob væri flúinn.
23 Þá tók hann frændur sína með sér og elti hann sjö dagleiðir og náði honum á Gíleaðsfjöllum.
24 En Guð kom um nóttina til Labans hins arameíska í draumi og sagði við hann: "Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs."
2 Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta.
2 Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
3 Og á því vitum vér, að vér þekkjum hann, ef vér höldum boðorð hans.
4 Sá sem segir: "Ég þekki hann," og heldur ekki boðorð hans, er lygari og sannleikurinn er ekki í honum.
5 En hver sem varðveitir orð hans, í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.
6 Þeim sem segist vera stöðugur í honum, honum ber sjálfum að breyta eins og hann breytti.
7 Þér elskaðir, það er ekki nýtt boðorð, sem ég rita yður, heldur gamalt boðorð, sem þér hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið, sem þér heyrðuð.
8 Engu að síður er það nýtt boðorð, er ég rita yður, sem er augljóst í honum og í yður, því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
9 Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu.
10 Sá sem elskar bróður sinn, hann er stöðugur í ljósinu og í honum er ekkert, er leitt geti hann til falls.
11 En sá sem hatar bróður sinn, hann er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer, því að myrkrið hefur blindað augu hans.
18 Gyðingar trúðu því ekki, að hann, sem sjónina fékk, hefði verið blindur, og kölluðu fyrst á foreldra hans
19 og spurðu þá: "Er þetta sonur ykkar, sem þið segið að hafi fæðst blindur? Hvernig er hann þá orðinn sjáandi?"
20 Foreldrar hans svöruðu: "Við vitum, að þessi maður er sonur okkar og að hann fæddist blindur.
21 En hvernig hann er nú orðinn sjáandi, vitum við ekki, né heldur vitum við, hver opnaði augu hans. Spyrjið hann sjálfan. Hann hefur aldur til. Hann getur svarað fyrir sig."
22 Þetta sögðu foreldrar hans af ótta við Gyðinga. Því Gyðingar höfðu þegar samþykkt, að ef nokkur játaði, að Jesús væri Kristur, skyldi hann samkundurækur.
23 Vegna þessa sögðu foreldrar hans: "Hann hefur aldur til, spyrjið hann sjálfan."
24 Nú kölluðu þeir í annað sinn á manninn, sem blindur hafði verið, og sögðu við hann: "Gef þú Guði dýrðina. Vér vitum, að þessi maður er syndari."
25 Hann svaraði: "Ekki veit ég, hvort hann er syndari. En eitt veit ég, að ég, sem var blindur, er nú sjáandi."
26 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað gjörði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?"
27 Hann svaraði þeim: "Ég er búinn að segja yður það, og þér hlustuðuð ekki á það. Hví viljið þér heyra það aftur? Viljið þér líka verða lærisveinar hans?"
28 Þeir atyrtu hann og sögðu: "Þú ert lærisveinn hans, vér erum lærisveinar Móse.
29 Vér vitum, að Guð talaði við Móse, en um þennan vitum vér ekki, hvaðan hann er."
30 Maðurinn svaraði þeim: "Þetta er furðulegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann er, og þó opnaði hann augu mín.
31 Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara. En ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann heyrir hann.
32 Frá alda öðli hefur ekki heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, sem blindur var borinn.
33 Ef þessi maður væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört."
34 Þeir svöruðu honum: "Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna oss!" Og þeir ráku hann út.
35 Jesús heyrði, að þeir hefðu rekið hann út. Hann fann hann og sagði við hann: "Trúir þú á Mannssoninn?"
36 Hinn svaraði: "Herra, hver er sá, að ég megi trúa á hann?"
37 Jesús sagði við hann: "Þú hefur séð hann, hann er sá sem er nú að tala við þig."
38 En hann sagði: "Ég trúi, herra," og féll fram fyrir honum.
39 Jesús sagði: "Til dóms er ég kominn í þennan heim, svo að blindir sjái og hinir sjáandi verði blindir."
40 Þetta heyrðu þeir farísear, sem með honum voru, og spurðu: "Erum vér þá líka blindir?"
41 Jesús sagði við þá: "Ef þér væruð blindir, væruð þér án sakar. En nú segist þér vera sjáandi, því varir sök yðar."
by Icelandic Bible Society