Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 66-67

66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,

syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.

Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.

Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]

Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.

Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.

Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]

Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.

Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.

10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.

11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.

12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.

13 Ég kem í hús þitt með brennifórnir, efni heit mín við þig,

14 þau er varir mínar hétu og munnur minn nefndi, þá er ég var í nauðum staddur.

15 Ég færi þér brennifórn af feitum dýrum, ásamt fórnarilm af hrútum, ég fórna nautum og höfrum. [Sela]

16 Komið, hlýðið til, allir þér er óttist Guð, að ég megi segja frá, hvað hann hefir gjört fyrir mig.

17 Til hans hrópaði ég með munni mínum, en lofgjörð lá undir tungu minni.

18 Ef ég hygg á illt í hjarta mínu, þá heyrir Drottinn ekki.

19 En Guð hefir heyrt, gefið gaum að bænarópi mínu.

20 Lofaður sé Guð, er eigi vísaði bæn minni á bug né tók miskunn sína frá mér.

67 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Sálmur. Ljóð.

Guð sé oss náðugur og blessi oss, hann láti ásjónu sína lýsa meðal vor, [Sela]

svo að þekkja megi veg þinn á jörðunni og hjálpræði þitt meðal allra þjóða.

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Gleðjast og fagna skulu þjóðirnar, því að þú dæmir lýðina réttvíslega og leiðir þjóðirnar á jörðunni. [Sela]

Lýðirnir skulu lofa þig, ó Guð, þig skulu gjörvallir lýðir lofa.

Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.

Guð blessi oss, svo að öll endimörk jarðar megi óttast hann.

Sálmarnir 19

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

Sálmarnir 46

46 Til söngstjórans. Eftir Kóraíta. Fyrir kvenraddir. Ljóð.

Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum.

Fyrir því hræðumst vér eigi, þótt jörðin haggist og fjöllin bifist og steypist í skaut sjávarins.

Látum vötnin gnýja og freyða, látum fjöllin gnötra fyrir æðigangi hafsins. [Sela]

Elfar-kvíslir gleðja Guðs borg, heilagan bústað Hins hæsta.

Guð býr í henni, eigi mun hún bifast, Guð hjálpar henni, þegar birtir af degi.

Þjóðir gnúðu, ríki riðuðu, raust hans þrumaði, jörðin nötraði.

Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Komið, skoðið dáðir Drottins, hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu.

10 Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.

11 "Verið kyrrir og viðurkennið, að ég er Guð, hátt upphafinn meðal þjóðanna, hátt upphafinn á jörðu."

12 Drottinn hersveitanna er með oss, Jakobs Guð vort vígi. [Sela]

Fyrsta bók Móse 29:20-35

20 Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar.

21 Og Jakob sagði við Laban: "Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar."

22 Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu.

23 En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni.

24 Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans.

25 En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban: "Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?"

26 Og Laban sagði: "Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri.

27 Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár."

28 Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína.

29 Og Laban fékk Rakel dóttur sinni Bílu ambátt sína fyrir þernu.

30 Og hann gekk einnig í sæng með Rakel og hann elskaði Rakel meira en Leu. Og hann vann hjá honum í enn önnur sjö ár.

31 Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja.

32 Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: "Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig."

33 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: "Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son." Og hún nefndi hann Símeon.

34 Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: "Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu." Fyrir því nefndi hún hann Leví.

35 Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: "Nú vil ég vegsama Drottin." Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.

Fyrra bréf Páls til Tímót 3:14-4:10

14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,

15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.

16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.

Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.

Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.

Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.

Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.

Það helgast af orði Guðs og bæn.

Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.

En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.

Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.

Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.

10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.

Markúsarguðspjall 10:23-31

23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."

24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.

25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?"

27 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt."

28 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér."

29 Jesús sagði: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins,

30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.

31 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society