Book of Common Prayer
70 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Guð, lát þér þóknast að frelsa mig, Drottinn, skunda mér til hjálpar.
3 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.
4 Lát þá hörfa undan sakir smánar sinnar, er hrópa háð og spé.
5 En allir þeir er leita þín, skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu, skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Guð!"
6 Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi, Drottinn!
71 Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar.
2 Frelsa mig og bjarga mér eftir réttlæti þínu, hneig eyru þín til mín og hjálpa mér.
3 Ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar, því að þú ert bjarg mitt og vígi.
4 Guð minn, bjarga mér úr hendi illgjarnra, undan valdi illvirkja og harðstjóra.
5 Því að þú ert von mín, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku.
6 Við þig hefi ég stuðst frá móðurlífi, frá móðurskauti hefir þú verið skjól mitt, um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
7 Ég er mörgum orðinn sem undur, en þú ert mér öruggt hæli.
8 Munnur minn er fullur af lofstír þínum, af dýrð þinni daginn allan.
9 Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.
10 Því að óvinir mínir tala um mig, þeir er sitja um líf mitt, bera ráð sín saman:
11 "Guð hefir yfirgefið hann. Eltið hann og grípið hann, því að enginn bjargar."
12 Guð, ver eigi fjarri mér, Guð minn, skunda til liðs við mig.
13 Lát þá er sýna mér fjandskap farast með skömm, lát þá íklæðast háðung og svívirðing, er óska mér ógæfu.
14 En ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.
15 Munnur minn skal segja frá réttlæti þínu, frá hjálpsemdum þínum allan daginn, því að ég veit eigi tölu á þeim.
16 Ég vil segja frá máttarverkum Drottins, ég vil boða réttlæti þitt, það eitt.
17 Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
18 Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.
19 Máttur þinn og réttlæti þitt, ó Guð, nær til himins, þú sem hefir framið stórvirki, Guð, hver er sem þú?
20 Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú munt láta oss lifna við að nýju og láta oss aftur stíga upp úr undirdjúpum jarðar.
21 Þú munt auka við tign mína og aftur veita mér huggun.
22 Þá vil ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn, leika á gígju fyrir þér, þú Hinn heilagi í Ísrael.
23 Varir mínar skulu fagna, er ég leik fyrir þér, og sál mín er þú hefir leyst.
24 Þá skal og tunga mín tala um réttlæti þitt liðlangan daginn, því að þeir urðu til skammar, já hlutu kinnroða, er óskuðu mér ógæfu.
74 Asafs-maskíl. Hví hefir þú, Guð, hafnað oss að fullu, hví rýkur reiði þín gegn gæsluhjörð þinni?
2 Haf í minni söfnuð þinn, er þú aflaðir forðum og leystir til þess að vera kynkvísl óðals þíns, haf í minni Síonfjall, þar sem þú hefir tekið þér bústað.
3 Bein þú skrefum þínum til hinna endalausu rústa: Öllu hafa óvinirnir spillt í helgidóminum!
4 Fjandmenn þínir grenjuðu inni á samkomustað þínum, reistu upp hermerki sín.
5 Eins og menn sem reiða hátt axir í þykkum skógi,
6 höggva þeir allan útskurð, mölva með exi og hamri.
7 Þeir hafa lagt eld í helgidóm þinn, vanhelgað bústað nafns þíns til grunna.
8 Þeir hugsuðu með sjálfum sér: "Vér skulum tortíma þeim öllum." Þeir brenndu öll samkomuhús Guðs í landinu.
9 Vér sjáum eigi merki vor, þar er enginn spámaður framar, og enginn er hjá oss sem veit hve lengi.
10 Hversu lengi, ó Guð, á fjandmaðurinn að hæða, á óvinurinn að spotta nafn þitt um aldur?
11 Hví dregur þú að þér hönd þína, hví geymir þú hægri hönd þína í barmi þér?
12 Og þó er Guð konungur minn frá fornum tíðum, sá er framkvæmir hjálpræðisverk á jörðu.
13 Þú klaufst hafið með mætti þínum, þú braust sundur höfuð drekans á vatninu,
14 þú molaðir sundur hausa Levjatans, gafst hann dýrum eyðimerkurinnar að æti.
15 Þú lést lindir og læki spretta upp, þú þurrkaðir upp sírennandi ár.
16 Þinn er dagurinn og þín er nóttin, þú gjörðir ljós og sól.
17 Þú settir öll takmörk jarðarinnar, sumar og vetur hefir þú gjört.
18 Minnst þess, Drottinn, að óvinurinn lastmælir, og heimskur lýður smánar nafn þitt.
19 Ofursel eigi villidýrunum sál turtildúfu þinnar, gleym eigi um aldur lífi þinna hrjáðu.
20 Gef gætur að sáttmála þínum, því að skúmaskot landsins eru full af bælum ofríkisins.
21 Lát eigi þann er kúgun sætir, snúa aftur með svívirðing, lát hina hrjáðu og snauðu lofa nafn þitt.
22 Rís upp, Guð, berst fyrir málefni þínu, minnst þú háðungar þeirrar, er þú sætir af heimskingjum daginn á enda.
23 Gleym eigi hrópi fjenda þinna, glaumkæti andstæðinga þinna, þeirri er sífellt stígur upp.
23 Dagar Söru voru hundrað tuttugu og sjö ár, það var aldur Söru.
2 Og Sara dó í Kirjat Arba (það er Hebron) í Kanaanlandi. Og Abraham fór til að harma Söru og gráta hana.
3 Síðan gekk hann burt frá líkinu og kom að máli við Hetíta og sagði:
4 "Ég er aðkomandi og útlendingur meðal yðar. Látið mig fá legstað til eignar hjá yður, að ég megi koma líkinu frá mér og jarða það."
5 Þá svöruðu Hetítar Abraham og sögðu:
6 "Heyr oss fyrir hvern mun, herra minn. Þú ert Guðs höfðingi vor á meðal. Jarða þú líkið í hinum besta af legstöðum vorum. Enginn meðal vor skal meina þér legstað sinn, að þú megir jarða líkið."
7 Þá stóð Abraham upp og hneigði sig fyrir landslýðnum, fyrir Hetítum,
8 og mælti við þá: "Ef það er yðar vilji, að ég megi jarða líkið og koma því frá mér, þá heyrið mig og biðjið fyrir mig Efron Sóarsson,
9 að hann láti mig fá Makpelahelli, sem hann á og er yst í landeign hans. Hann láti mig fá hann fyrir fullt verð til grafreits meðal yðar."
10 En Efron sat þar meðal Hetíta. Þá svaraði Hetítinn Efron Abraham, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum þeim, sem gengu út og inn um borgarhlið hans, og mælti:
11 "Nei, herra minn, heyr mig! Landið gef ég þér, og hellinn, sem í því er, hann gef ég þér líka. Í augsýn samlanda minna gef ég þér hann. Jarða þú þar líkið."
12 Þá hneigði Abraham sig fyrir landslýðnum,
13 mælti því næst til Efrons í viðurvist landslýðsins á þessa leið: "Heyr nú, gef gaum að máli mínu! Ég greiði fé fyrir landið. Tak þú við því af mér, að ég megi jarða líkið þar."
14 Þá svaraði Efron Abraham og mælti:
15 "Herra minn, gef fyrir hvern mun gaum að máli mínu! Jörð, sem er fjögur hundruð silfursikla virði, hvað er það okkar í milli? Jarða þú líkið."
16 Og Abraham lét að orðum Efrons, og Abraham vó Efron silfrið, sem hann hafði til tekið í viðurvist Hetíta, fjögur hundruð sikla í gangsilfri.
17 Þannig var landeign Efrons, sem er hjá Makpela gegnt Mamre, landeignin og hellirinn, sem í henni var, og öll trén, er í landeigninni voru, innan takmarka hennar hringinn í kring,
18 fest Abraham til eignar, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum, sem út og inn gengu um borgarhlið hans.
19 Eftir það jarðaði Abraham Söru konu sína í helli Makpelalands gegnt Mamre (það er Hebron) í Kanaanlandi.
20 Þannig fékk Abraham landið og hellinn, sem í því var, hjá Hetítum til eignar fyrir grafreit.
32 Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum.
33 Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna,
34 slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta.
35 Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.
36 Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.
37 Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.
38 Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.
39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið.
40 Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.
12 Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.
2 Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.
60 Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: "Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?"
61 Jesús vissi með sjálfum sér, að kurr var með lærisveinum hans út af þessu, og sagði við þá: "Hneykslar þetta yður?
62 En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var?
63 Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.
64 En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa." Jesús vissi frá upphafi, hverjir þeir voru, sem trúðu ekki, og hver sá var, sem mundi svíkja hann.
65 Og hann bætti við: "Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það."
66 Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.
67 Þá sagði Jesús við þá tólf: "Ætlið þér að fara líka?"
68 Símon Pétur svaraði honum: "Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,
69 og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs."
70 Jesús svaraði þeim: "Hef ég eigi sjálfur útvalið yður tólf? Þó er einn yðar djöfull."
71 En hann átti við Júdas Símonarson Ískaríots, sem varð til að svíkja hann, einn þeirra tólf.
by Icelandic Bible Society