Book of Common Prayer
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
147 Halelúja. Það er gott að leika fyrir Guði vorum, því að hann er yndislegur, honum hæfir lofsöngur.
2 Drottinn endurreisir Jerúsalem, safnar saman hinum tvístruðu af Ísrael.
3 Hann læknar þá, er hafa sundurkramið hjarta, og bindur um benjar þeirra.
4 Hann ákveður tölu stjarnanna, kallar þær allar með nafni.
5 Mikill er Drottinn vor og ríkur að veldi, speki hans er ómælanleg.
6 Drottinn annast hrjáða, en óguðlega lægir hann að jörðu.
7 Syngið Drottni með þakklæti, leikið á gígju fyrir Guði vorum.
8 Hann hylur himininn skýjum, býr regn handa jörðinni, lætur gras spretta á fjöllunum.
9 Hann gefur skepnunum fóður þeirra, hrafnsungunum, þegar þeir kalla.
10 Hann hefir eigi mætur á styrkleika hestsins, eigi þóknun á fótleggjum mannsins.
11 Drottinn hefir þóknun á þeim er óttast hann, þeim er bíða miskunnar hans.
12 Vegsama Drottin, Jerúsalem, lofa þú Guð þinn, Síon,
13 því að hann hefir gjört sterka slagbrandana fyrir hliðum þínum, blessað börn þín, sem í þér eru.
14 Hann gefur landi þínu frið, seður þig á hinu kjarnbesta hveiti.
15 Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.
16 Hann gefur snjó eins og ull, stráir út hrími sem ösku.
17 Hann sendir hagl sitt sem brauðmola, hver fær staðist frost hans?
18 Hann sendir út orð sitt og lætur ísinn þiðna, lætur vind sinn blása, og vötnin renna.
19 Hann kunngjörði Jakob orð sitt, Ísrael lög sín og ákvæði.
20 Svo hefir hann eigi gjört við neina þjóð, þeim kennir hann ekki ákvæði sín. Halelúja.
23 Vei hirðunum, sem eyða og tvístra gæsluhjörð minni! segir Drottinn.
2 Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um hirðana, sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki litið eftir þeim. Sjá, ég skal vitja vonskuverka yðar á yður _ segir Drottinn.
3 En ég vil sjálfur safna leifum hjarðar minnar saman úr öllum löndum, þangað sem ég hefi rekið þá, og leiða þá aftur í haglendi þeirra, og þeir skulu frjóvgast og þeim fjölga.
4 Og ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða _ segir Drottinn.
5 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun uppvekja fyrir Davíð réttan kvist, er ríkja skal sem konungur og breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu.
6 Á hans dögum mun Júda hólpinn verða og Ísrael búa óhultur, og þetta mun verða nafn hans, það er menn nefna hann með: "Drottinn er vort réttlæti!"
7 Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma _ segir Drottinn _ að menn munu eigi framar segja: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi!"
8 heldur: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi og flutti heim niðja Ísraels húss úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hafði rekið þá, svo að þeir mættu búa í landi sínu!"
8 Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.
9 Því að í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega.
10 Og í honum, sem er höfuð hvers konar tignar og valds, hafið þér öðlast hlutdeild í þessari fyllingu.
11 Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama,
12 þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum.
13 Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum, þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin.
14 Hann afmáði skuldabréfið, sem þjakaði oss með ákvæðum sínum. Hann tók það burt með því að negla það á krossinn.
15 Hann fletti vopnum tignirnar og völdin, leiddi þau opinberlega fram til háðungar og hrósaði sigri yfir þeim í Kristi.
16 Enginn skyldi því dæma yður fyrir mat eða drykk eða það sem snertir hátíðir, tunglkomur eða hvíldardaga.
17 Þetta er aðeins skuggi þess, sem koma átti, en líkaminn er Krists.
18 Látið þá ekki taka af yður hnossið, sem þykjast af auðmýkt sinni og engladýrkun og státa af sýnum sínum. Þeir hrokast upp af engu í hyggju holds síns
19 og halda sér ekki við hann, sem er höfuðið og styrkir allan líkamann og samantengir taugum og böndum, svo að hann þróast guðlegum þroska.
20 Ef þér eruð dánir með Kristi undan valdi heimsvættanna, hvers vegna hagið þér yður þá eins og þér lifðuð í heiminum og látið leggja fyrir yður boð eins og þessi:
21 "Snertu ekki, bragðaðu ekki, taktu ekki á"? _
22 Allt þetta er þó ætlað til að eyðast við notkunina! _ mannaboðorð og mannalærdómar!
23 Þetta hefur að sönnu orð á sér um speki, slík sjálfvalin dýrkun og auðmýking og harðneskja við líkamann, en hefur ekkert gildi, heldur er til þess eins að fullnægja holdinu.
7 Því sagði Jesús aftur: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna.
8 Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki.
9 Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.
10 Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.
11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.
12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.
13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.
14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,
15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.
16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.
17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.
by Icelandic Bible Society