Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 121-123

121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.

Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.

Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.

Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.

Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.

Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.

Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

122 Ég varð glaður, er menn sögðu við mig: "Göngum í hús Drottins."

Fætur vorir standa í hliðum þínum, Jerúsalem.

Jerúsalem, þú hin endurreista, borgin þar sem öll þjóðin safnast saman,

þangað sem kynkvíslirnar fara, kynkvíslir Drottins _ það er regla fyrir Ísrael _ til þess að lofa nafn Drottins,

því að þar standa dómarastólar, stólar fyrir Davíðs ætt.

Biðjið Jerúsalem friðar, hljóti heill þeir, er elska þig.

Friður sé kringum múra þína, heill í höllum þínum.

Sakir bræðra minna og vina óska ég þér friðar.

Sakir húss Drottins, Guðs vors, vil ég leita þér hamingju.

123 Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.

Eins og augu þjónanna mæna á hönd húsbónda síns, eins og augu ambáttarinnar mæna á hönd húsmóður sinnar, svo mæna augu vor á Drottin, Guð vorn, uns hann líknar oss.

Líkna oss, Drottinn, líkna oss, því að vér höfum fengið meira en nóg af spotti.

Sál vor hefir fengið meira en nóg af háði hrokafullra, af spotti dramblátra.

Sálmarnir 131-132

131 Drottinn, hjarta mitt er eigi dramblátt né augu mín hrokafull. Ég fæst eigi við mikil málefni, né þau sem mér eru ofvaxin.

Sjá, ég hefi sefað sál mína og þaggað niður í henni. Eins og afvanið barn hjá móður sinni, svo er sál mín í mér.

Vona, Ísrael, á Drottin, héðan í frá og að eilífu.

132 Drottinn, mun þú Davíð allar þrautir hans,

hann sem sór Drottni, gjörði heit hinum volduga Jakobs Guði:

"Ég vil eigi ganga inn í tjaldhús mitt, eigi stíga í hvílurúm mitt,

eigi unna augum mínum svefns né augnalokum mínum blunds,

fyrr en ég hefi fundið stað fyrir Drottin, bústað fyrir hinn volduga Jakobs Guð."

Sjá, vér höfum heyrt um hann í Efrata, fundið hann á Jaarmörk.

Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.

Tak þig upp, Drottinn, og far á hvíldarstað þinn, þú og örk máttar þíns.

Prestar þínir íklæðist réttlæti og dýrkendur þínir fagni.

10 Sakir Davíðs þjóns þíns vísa þú þínum smurða eigi frá.

11 Drottinn hefir svarið Davíð óbrigðulan eið, er hann eigi mun rjúfa: "Af ávexti kviðar þíns mun ég setja mann í hásæti þitt.

12 Ef synir þínir varðveita sáttmála minn og reglur mínar, þær er ég kenni þeim, þá skulu og þeirra synir um aldur sitja í hásæti þínu."

13 Því að Drottinn hefir útvalið Síon, þráð hana sér til bústaðar:

14 "Þetta er hvíldarstaður minn um aldur, hér vil ég búa, því að hann hefi ég þráð.

15 Vistir hans vil ég vissulega blessa, og fátæklinga hans vil ég seðja með brauði,

16 presta hans vil ég íklæða hjálpræði, hinir guðhræddu er þar búa skulu kveða fagnaðarópi.

17 Þar vil ég láta Davíð horn vaxa, þar hefi ég búið lampa mínum smurða.

18 Óvini hans vil ég íklæða skömm, en á honum skal kóróna hans ljóma."

Jesaja 45:14-19

14 Svo segir Drottinn: Auður Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér, í fjötrum skulu þeir koma, og þeir skulu falla fram fyrir þér og grátbæna þig og segja: "Guð er hjá þér einum, enginn annar er til, enginn annar guð."

15 Sannlega ert þú Guð, sem hylur þig, Ísraels Guð, frelsari.

16 Skurðgoðasmiðirnir verða sér til skammar, já, til háðungar allir saman, þeir ganga allir sneyptir.

17 En Ísrael frelsast fyrir Drottin eilífri frelsun. Þér skuluð eigi verða til skammar né háðungar að eilífu.

18 Já, svo segir Drottinn, sá er himininn hefir skapað _ hann einn er Guð, sá er jörðina hefir myndað og hana til búið, hann, sem hefir grundvallað hana og hefir eigi skapað hana til þess, að hún væri auðn, heldur myndað hana svo, að hún væri byggileg: Ég er Drottinn, og enginn annar.

19 Ég hefi ekki talað í leynum, einhvers staðar í landi myrkranna. Ég hefi eigi sagt við Jakobsniðja: "Leitið mín út í bláinn!" Ég, Drottinn, tala það sem rétt er og kunngjöri sannmæli.

Bréf Páls til Kólossumann 1:24-2:7

24 Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan.

25 En hans þjónn er ég orðinn samkvæmt því hlutverki, sem Guð hefur mér á hendur falið yðar vegna: Að flytja Guðs orð óskorað,

26 leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu.

27 Guð vildi kunngjöra þeim, hvílíkan dýrðar ríkdóm heiðnu þjóðirnar eiga í þessum leyndardómi, sem er Kristur meðal yðar, von dýrðarinnar.

28 Hann boðum vér, er vér áminnum sérhvern mann og fræðum með allri speki, til þess að vér getum leitt hvern mann fram fullkominn í Kristi.

29 Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti, sem kröftuglega verkar í mér.

Ég vil að þér vitið, hversu hörð er barátta mín vegna yðar og þeirra í Laódíkeu og allra þeirra, sem ekki hafa séð mig sjálfan.

Mig langar, að þeir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist gjörvalla auðlegð þeirrar sannfæringar og skilnings, sem veitir þekkinguna á leyndardómi Guðs, Kristi.

En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.

Þetta segi ég til þess að enginn tæli yður með áróðurstali,

því að ég er hjá yður í andanum, þótt ég sé líkamlega fjarlægur, og ég horfi með fögnuði á góða skipan hjá yður og festu yðar í trúnni á Krist.

Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum.

Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt, og auðugir að þakklátsemi.

Jóhannesarguðspjall 8:12-19

12 Nú talaði Jesús aftur til þeirra og sagði: "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins."

13 Þá sögðu farísear við hann: "Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur."

14 Jesús svaraði þeim: "Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer.

15 Þér dæmið að hætti manna. Ég dæmi engan.

16 En ef ég dæmi, er dómur minn réttur, því ég er ekki einn, með mér er faðirinn, sem sendi mig.

17 Og í lögmáli yðar er ritað, að vitnisburður tveggja manna sé gildur.

18 Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig."

19 Þeir sögðu við hann: "Hvar er faðir þinn?" Jesús svaraði: "Hvorki þekkið þér mig né föður minn. Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society