Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 61-62

61 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Eftir Davíð.

Heyr, ó Guð, hróp mitt, gef gaum bæn minni.

Frá endimörkum jarðar hrópa ég til þín, meðan hjarta mitt örmagnast. Hef mig upp á bjarg það, sem mér er of hátt.

Leið mig, því að þú ert orðinn mér hæli, öruggt vígi gegn óvinum.

Lát mig gista í tjaldi þínu um eilífð, leita hælis í skjóli vængja þinna. [Sela]

Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín, þú hefir uppfyllt óskir þeirra er óttast nafn þitt.

Þú munt lengja lífdaga konungs, láta ár hans vara frá kyni til kyns.

Hann skal sitja um eilífð frammi fyrir Guði, lát miskunn og trúfesti varðveita hann.

Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.

62 Til söngstjórans. Fyrir Jedútún. Davíðssálmur.

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hversu lengi ætlið þér að ryðjast allir saman gegn einum manni til að fella hann eins og hallan vegg, eins og hrynjandi múr?

Þeir ráðgast um það eitt að steypa honum úr tign hans, þeir hafa yndi af lygi, þeir blessa með munninum, en bölva í hjartanu. [Sela]

Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín.

Hann einn er klettur minn og hjálpræði, háborg mín _ ég verð eigi valtur á fótum.

Hjá Guði er hjálpræði mitt og vegsemd, minn örugga klett og hæli mitt hefi ég í Guði.

Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli. [Sela]

10 Hégóminn einn eru mennirnir, tál eru mannanna börn, á metaskálunum lyftast þeir upp, einber hégómi eru þeir allir saman.

11 Treystið eigi ránfeng og alið eigi fánýta von til rændra muna, þótt auðurinn vaxi, þá gefið því engan gaum.

12 Eitt sinn hefir Guð talað, tvisvar hefi ég heyrt það: "Hjá Guði er styrkleikur."

13 Já, hjá þér, Drottinn, er miskunn, því að þú geldur sérhverjum eftir verkum hans.

Sálmarnir 112

112 Halelúja. Sæll er sá maður, sem óttast Drottin og hefir mikla unun af boðum hans.

Niðjar hans verða voldugir á jörðunni, ætt réttvísra mun blessun hljóta.

Nægtir og auðæfi eru í húsi hans, og réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu.

Hann upprennur réttvísum sem ljós í myrkrinu, mildur og meðaumkunarsamur og réttlátur.

Vel farnast þeim manni, sem er mildur og fús að lána, sem framkvæmir málefni sín með réttvísi,

því að hann mun eigi haggast að eilífu, hins réttláta mun minnst um eilífð.

Hann óttast eigi ill tíðindi, hjarta hans er stöðugt og treystir Drottni.

Hjarta hans er öruggt, hann óttast eigi, og loks fær hann að horfa á fjendur sína auðmýkta.

Hann hefir miðlað mildilega, gefið fátækum, réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu, horn hans gnæfir hátt í vegsemd.

10 Hinn óguðlegi sér það, og honum gremst, nístir tönnum og tortímist. Ósk óguðlegra verður að engu.

Sálmarnir 115

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Sefanía 3:14-19

14 Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem!

15 Drottinn hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, Drottinn, er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna.

16 Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: "Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast!

17 Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng."

18 Ég saman safna þeim, sem hryggir eru út af hátíðarsamkomunni, frá þér voru þeir, smán hvílir á þeim.

19 Sjá, á þeim tíma skal ég eiga erindi við þá, er þig þjáðu. Þá skal ég frelsa hið halta og smala saman því tvístraða, og ég skal gjöra þá fræga og nafnkunna á allri jörðunni.

Bréf Páls til Títusar 1

Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu

í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum,

en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors.

Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.

Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.

Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.

Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.

Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.

Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.

10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn,

11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.

12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: "Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar."

13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni,

14 og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.

15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.

16 Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.

Lúkasarguðspjall 1:1-25

Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gjörst hafa meðal vor,

samkvæmt því, sem oss hafa flutt þeir menn, er frá öndverðu voru sjónarvottar og þjónar orðsins.

Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þeófílus,

svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna, sem þú hefur fræðst um.

Á dögum Heródesar, konungs í Júdeu, var uppi prestur nokkur að nafni Sakaría, af sveit Abía. Kona hans var og af ætt Arons og hét Elísabet.

Þau voru bæði réttlát fyrir Guði og lifðu vammlaus eftir öllum boðum og ákvæðum Drottins.

En þau áttu ekki barn, því að Elísabet var óbyrja, og bæði voru þau hnigin að aldri.

En svo bar við, er röðin kom að sveit hans og hann var að gegna þjónustu fyrir Guði,

að það féll í hans hlut, samkvæmt venju prestdómsins, að ganga inn í musteri Drottins og fórna reykelsi.

10 En allur fólksfjöldinn var fyrir utan á bæn, meðan reykelsisfórnin var færð.

11 Birtist honum þá engill Drottins, sem stóð hægra megin við reykelsisaltarið.

12 Sakaría varð hverft við sýn þessa, og ótta sló á hann.

13 En engillinn sagði við hann: "Óttast þú eigi, Sakaría, því bæn þín er heyrð. Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes.

14 Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans.

15 Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi.

16 Og mörgum af Ísraels sonum mun hann snúa til Drottins, Guðs þeirra.

17 Og hann mun ganga fyrir honum í anda og krafti Elía til að snúa hjörtum feðra til barna og óhlýðnum til hugarfars réttlátra og búa Drottni altygjaðan lýð."

18 Sakaría sagði við engilinn: "Af hverju get ég vitað þetta? Ég er gamall og kona mín hnigin að aldri."

19 En engillinn svaraði honum: "Ég er Gabríel, sem stend frammi fyrir Guði, ég var sendur til að tala við þig og flytja þér þessa gleðifregn.

20 Og þú munt verða mállaus og ekki geta talað til þess dags, er þetta kemur fram, vegna þess að þú trúðir ekki orðum mínum, en þau munu rætast á sínum tíma."

21 Og fólkið beið eftir Sakaría og undraðist, hve honum dvaldist í musterinu.

22 En er hann kom út, gat hann ekki talað við þá, og skildu þeir, að hann hafði séð sýn í musterinu. Hann gaf þeim bendingar og var mállaus áfram.

23 Og er þjónustudagar hans voru liðnir, fór hann heim til sín.

24 En eftir þessa daga varð Elísabet kona hans þunguð, og hún leyndi sér í fimm mánuði og sagði:

25 "Þannig hefur Drottinn gjört við mig, er hann leit til mín að afmá hneisu mína í augum manna."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society