Book of Common Prayer
106 Halelúja! Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.
2 Hver getur sagt frá máttarverkum Drottins, kunngjört allan lofstír hans?
3 Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.
4 Minnst þú mín, Drottinn, með velþóknun þeirri, er þú hefir á lýð þínum, vitja mín með hjálpræði þínu,
5 að ég megi horfa með unun á hamingju þinna útvöldu, gleðjast yfir gleði þjóðar þinnar, fagna með eignarlýð þínum.
6 Vér höfum syndgað ásamt feðrum vorum, höfum breytt illa og óguðlega.
7 Feður vorir í Egyptalandi gáfu eigi gætur að dásemdarverkum þínum, minntust eigi þinnar miklu miskunnar og sýndu Hinum hæsta þrjósku hjá Hafinu rauða.
8 Þó hjálpaði hann þeim sakir nafns síns til þess að kunngjöra mátt sinn.
9 Hann hastaði á Hafið rauða, svo að það þornaði upp, og lét þá ganga um djúpin eins og um eyðimörk.
10 Hann frelsaði þá af hendi hatursmanna þeirra og leysti þá af hendi óvinanna.
11 Vötnin huldu fjendur þeirra, ekki einn af þeim komst undan.
12 Þá trúðu þeir orðum hans, sungu honum lof.
13 En þeir gleymdu fljótt verkum hans, treystu eigi á ráð hans.
14 Þeir fylltust lysting í eyðimörkinni og freistuðu Guðs í öræfunum.
15 Þá veitti hann þeim bæn þeirra og sendi þeim megurð.
16 Þá öfunduðust þeir við Móse í herbúðunum, við Aron, hinn heilaga Drottins.
17 Jörðin opnaðist og svalg Datan og huldi flokk Abírams,
18 eldur kviknaði í flokki þeirra, loginn brenndi hina óguðlegu.
19 Þeir bjuggu til kálf hjá Hóreb og lutu steyptu líkneski,
20 og létu vegsemd sína í skiptum fyrir mynd af uxa, er gras etur.
21 Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi,
22 dásemdarverk í landi Kams, óttaleg verk við Hafið rauða.
23 Þá hugði hann á að tortíma þeim, ef Móse, hans útvaldi, hefði eigi gengið fram fyrir hann og borið af blakið, til þess að afstýra reiði hans, svo að hann skyldi eigi tortíma.
24 Þeir fyrirlitu hið unaðslega land og trúðu eigi orðum hans.
25 Þeir mögluðu í tjöldum sínum og hlýddu eigi á raust Drottins.
26 Þá lyfti hann hendi sinni gegn þeim og sór að láta þá falla í eyðimörkinni,
27 tvístra niðjum þeirra meðal þjóðanna og dreifa þeim um löndin.
28 Þeir dýrkuðu Baal Peór og átu fórnir dauðra skurðgoða.
29 Þeir egndu hann til reiði með athæfi sínu, og braust því út plága meðal þeirra.
30 En Pínehas gekk fram og skar úr, og þá staðnaði plágan.
31 Og honum var reiknað það til réttlætis, frá kyni til kyns, að eilífu.
32 Þeir reittu hann til reiði hjá Meríba-vötnum, þá fór illa fyrir Móse þeirra vegna,
33 því að þeir sýndu þrjósku anda hans, og honum hrutu ógætnisorð af vörum.
34 Þeir eyddu eigi þjóðunum, er Drottinn hafði boðið þeim,
35 heldur lögðu þeir lag sitt við heiðingjana og lærðu athæfi þeirra.
36 Þeir dýrkuðu skurðgoð þeirra, og þau urðu þeim að snöru,
37 þeir færðu að fórnum sonu sína og dætur sínar illum vættum
38 og úthelltu saklausu blóði, blóði sona sinna og dætra, er þeir fórnfærðu skurðgoðum Kanaans, svo að landið vanhelgaðist af blóðskuldinni.
39 Þeir saurguðust af verkum sínum og frömdu tryggðrof með athæfi sínu.
40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.
41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.
42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.
43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.
44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.
45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar
46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.
47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.
48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.
3 En síðar meir mun ég úthella anda mínum yfir allt hold. Synir yðar og dætur yðar munu spá, gamalmenni yðar mun drauma dreyma, ungmenni yðar munu sjá sjónir.
2 Já, einnig yfir þræla og ambáttir mun ég á þeim dögum úthella anda mínum.
9 Og hvað viljið þér mér, Týrus og Sídon og öll héruð Filisteu! Ætlið þér að gjalda mér það, sem yður hefir gjört verið, eða ætlið þér að gjöra mér eitthvað? Afar skyndilega mun ég láta gjörðir yðar koma sjálfum yður í koll.
10 Þér hafið rænt silfri mínu og gulli og flutt bestu gersemar mínar í musteri yðar.
11 Júdamenn og Jerúsalembúa hafið þér selt Íónum til þess að flytja þá langt burt frá átthögum þeirra.
12 Sjá, ég mun kalla þá frá þeim stað, þangað sem þér hafið selt þá, og ég mun láta gjörðir yðar koma sjálfum yður í koll.
13 Og ég mun selja sonu yðar og dætur Júdamönnum, og þeir munu selja þá Sabamönnum, fjarlægri þjóð, því að Drottinn hefir sagt það.
14 Boðið þetta meðal þjóðanna: Búið yður í heilagt stríð! Kveðjið upp kappana! Allir herfærir menn komi fram og fari í leiðangur!
15 Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar! Heilsuleysinginn hrópi: "Ég er hetja!"
16 Flýtið yður og komið, allar þjóðir sem umhverfis eruð, og safnist saman. Drottinn, lát kappa þína stíga niður þangað!
17 Hreyfing skal koma á þjóðirnar og þær skulu halda upp í Jósafatsdal, því að þar mun ég sitja til þess að dæma allar þjóðirnar, sem umhverfis eru.
1 Pétur postuli Jesú Krists heilsar hinum útvöldu, sem eru dreifðir sem útlendingar í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu,
2 en útvaldir samkvæmt fyrirvitund Guðs föður og helgaðir af anda hans til að hlýðnast Jesú Kristi og verða hreinsaðir með blóði hans. Náð og friður margfaldist með yður.
3 Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum,
4 til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.
5 Kraftur Guðs varðveitir yður fyrir trúna til þess að þér getið öðlast hjálpræðið, sem er þess albúið að opinberast á síðasta tíma.
6 Fagnið því, þótt þér nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum.
7 Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists.
8 Þér hafið ekki séð hann, en elskið hann þó. Þér hafið hann ekki nú fyrir augum yðar, en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði,
9 þegar þér eruð að ná takmarki trúar yðar, frelsun sálna yðar.
10 Þessa frelsun könnuðu spámennirnir og rannsökuðu vandlega þegar þeir töluðu um þá náð, sem yður mundi hlotnast.
11 Þeir rannsökuðu, til hvers eða hvílíks tíma andi Krists, sem í þeim bjó, benti, þá er hann vitnaði fyrirfram um píslir Krists og dýrðina þar á eftir.
12 En þeim var opinberað, að eigi væri það fyrir sjálfa þá, heldur fyrir yður, að þeir þjónuðu að þessu, sem yður er nú kunngjört af þeim, sem boðuðu yður fagnaðarerindið í heilögum anda, sem er sendur frá himni. Inn í þetta fýsir jafnvel englana að skyggnast.
19 Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar.
2 Fjöldi manna fylgdi honum, og þar læknaði hann þá.
3 Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?"
4 Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu
5 og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.`
6 Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."
7 Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?"
8 Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig.
9 Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór."
10 Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast."
11 Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið.
12 Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."
by Icelandic Bible Society