Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:49-72

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.

58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.

59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.

60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.

61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.

62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.

63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.

64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.

65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.

66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.

67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.

68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.

69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.

70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.

71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.

72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.

Sálmarnir 49

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

Sálmarnir 53

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

Esrabók 6

Þá gaf Daríus konungur út þá skipun, að leita skyldi í skjalasafnshúsinu, þar sem og fjársjóðirnir voru lagðir fyrir til geymslu í Babýlon,

og bókrolla fannst í Ahmeta, borginni, sem er í skattlandinu Medíu. Og í henni var ritað á þessa leið: "Merkisatburður.

Á fyrsta ári Kýrusar konungs gaf Kýrus konungur út svolátandi skipun: Hús Guðs í Jerúsalem skal endurreist verða, til þess að menn megi þar færa fórnir, og grundvöllur þess skal lagður. Það skal vera sextíu álnir á hæð og sextíu álnir á breidd.

Lög af stórum steinum skulu vera þrjú og eitt lag af tré, og kostnaðurinn skal greiddur úr konungshöllinni.

Einnig skal gull- og silfuráhöldunum úr húsi Guðs, þeim er Nebúkadnesar hafði á burt úr musterinu í Jerúsalem og flutti til Babýlon, verða skilað aftur, svo að hvert þeirra komist aftur í musterið í Jerúsalem á sinn stað, og þú skalt leggja þau í hús Guðs."

"Fyrir því skuluð þér _ Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra, Afarsekear, í héraðinu hinumegin Fljóts _ halda yður þar frá.

Látið byggingu þessa Guðs húss í friði. Landstjóra Gyðinga og öldungum þeirra er heimilt að endurreisa þetta Guðs hús á sínum fyrra stað.

Og ég hefi gefið út skipun um, hvað þér skuluð láta þessum öldungum Gyðinga í té til byggingar þessa Guðs húss. Skal mönnum þessum greiddur kostnaðurinn skilvíslega af tekjum konungs, þeim er hann hefir af sköttum úr héraðinu hinumegin Fljóts, og það tafarlaust.

Og það sem með þarf, bæði ung naut, hrúta og lömb til brennifórna handa Guði himnanna, hveiti, salt, vín og olíu, það skal láta þeim í té, eftir fyrirsögn prestanna í Jerúsalem, á degi hverjum, og það prettalaust,

10 til þess að þeir megi færa Guði himnanna fórnir þægilegs ilms og biðja fyrir lífi konungsins og sona hans.

11 Og ég hefi gefið út þá skipun, að ef nokkur maður breytir á móti úrskurði þessum, þá skuli taka bjálka úr húsi hans og hann hengdur upp og negldur á hann, en hús hans skal fyrir þá sök gjöra að mykjuhaug.

12 En sá Guð, sem lætur nafn sitt búa þar, kollsteypi öllum þeim konungum og þjóðum, sem rétta út hönd sína til þess að breyta út af þessu eða til þess að brjóta niður þetta hús Guðs í Jerúsalem. Ég, Daríus, hefi gefið út þessa skipun. Skal hún kostgæfilega framkvæmd."

13 Þá fóru þeir Tatnaí, landstjóri héraðsins hinumegin Fljóts, Star Bósnaí og samborgarar þeirra nákvæmlega eftir fyrirmælum þeim, er Daríus konungur hafði sent.

14 Og öldungar Gyðinga byggðu, og miðaði þeim vel áfram fyrir spámannsstarf þeirra Haggaí spámanns og Sakaría Íddóssonar. Og þannig luku þeir byggingunni samkvæmt skipun Ísraels Guðs og samkvæmt skipun Kýrusar og Daríusar og Artahsasta Persakonungs.

15 Og hús þetta var fullgjört á þriðja degi adarmánaðar, það er á sjötta ríkisári Daríusar konungs.

16 Og Ísraelsmenn _ prestarnir og levítarnir og aðrir þeir, er komnir voru heim úr herleiðingunni _ héldu vígsluhátíð þessa Guðs húss með fögnuði.

17 Og þeir fórnuðu við vígslu þessa Guðs húss hundrað nautum, tvö hundruð hrútum og fjögur hundruð lömbum og í syndafórn fyrir allan Ísrael tólf geithöfrum eftir tölu Ísraels ættkvísla.

18 Og þeir skipuðu presta eftir flokkum þeirra og levíta eftir deildum þeirra, til þess að gegna þjónustu Guðs í Jerúsalem, samkvæmt fyrirmælum Mósebókar.

19 Og þeir, sem heim voru komnir úr herleiðingunni, héldu páska hinn fjórtánda dag hins fyrsta mánaðar.

20 Því að prestarnir og levítarnir höfðu hreinsað sig allir sem einn maður, allir voru hreinir. Og þeir slátruðu páskalambinu fyrir alla þá, er heim voru komnir úr herleiðingunni, og fyrir bræður þeirra, prestana, og fyrir sjálfa sig.

21 Síðan neyttu Ísraelsmenn þess, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, og allir þeir, er skilið höfðu sig frá saurugleik hinna heiðnu þjóða landsins og gengið í flokk með þeim, til þess að leita Drottins, Ísraels Guðs.

22 Og þannig héldu þeir hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með fögnuði, því að Drottinn hafði glatt þá og snúið hjarta Assýríukonungs til þeirra, svo að hann styrkti hendur þeirra við byggingu musteris Guðs, Ísraels Guðs.

Opinberun Jóhannesar 5:1-10

Í hægri hendi hans, er í hásætinu sat, sá ég bók, skrifaða innan og utan, innsiglaða sjö innsiglum.

Og ég sá sterkan engil, sem kallaði hárri röddu: "Hver er maklegur að ljúka upp bókinni og leysa innsigli hennar?"

En enginn var sá á himni eða jörðu eða undir jörðunni, sem lokið gæti upp bókinni og litið í hana.

Og ég grét stórum af því að enginn reyndist maklegur að ljúka upp bókinni og líta í hana.

En einn af öldungunum segir við mig: "Grát þú eigi! Sjá, sigrað hefur ljónið af Júda ættkvísl, rótarkvistur Davíðs, hann getur lokið upp bókinni og innsiglum hennar sjö."

Þá sá ég fyrir miðju hásætinu og fyrir verunum fjórum og öldungunum lamb standa, sem slátrað væri. Það hafði sjö horn og sjö augu, og eru það sjö andar Guðs, sendir út um alla jörðina.

Og það kom og tók við bókinni úr hægri hendi hans, er í hásætinu sat.

Þegar það hafði tekið við henni, féllu verurnar fjórar og öldungarnir tuttugu og fjórir niður frammi fyrir lambinu. Þeir höfðu hver um sig hörpu og gullskálar, fullar af reykelsi, það eru bænir hinna heilögu.

Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð.

10 Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á jörðunni.

Matteusarguðspjall 13:10-17

10 Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?"

11 Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.

12 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

13 Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.

14 Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.

16 En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.

17 Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society