Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 148-150

148 Halelúja. Lofið Drottin af himnum, lofið hann á hæðum.

Lofið hann, allir englar hans, lofið hann, allir herskarar hans.

Lofið hann, sól og tungl, lofið hann, allar lýsandi stjörnur.

Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum.

Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans boði voru þau sköpuð.

Og hann fékk þeim stað um aldur og ævi, hann gaf þeim lög, sem þau mega eigi brjóta.

Lofið Drottin af jörðu, þér sjóskrímsl og allir hafstraumar,

eldur og hagl, snjór og reykur, stormbylurinn, sem framkvæmir orð hans,

fjöllin og allar hæðir, ávaxtartrén og öll sedrustrén,

10 villidýrin og allur fénaður, skriðkvikindin og fleygir fuglar,

11 konungar jarðarinnar og allar þjóðir, höfðingjar og allir dómendur jarðar,

12 bæði yngismenn og yngismeyjar, öldungar og ungir sveinar!

13 Þau skulu lofa nafn Drottins, því að hans nafn eitt er hátt upp hafið, tign hans er yfir jörð og himni.

14 Hann lyftir upp horni fyrir lýð sinn, lofsöngur hljómi hjá öllum dýrkendum hans, hjá sonum Ísraels, þjóðinni, sem er nálæg honum. Halelúja.

149 Halelúja. Syngið Drottni nýjan söng, lofsöngur hans hljómi í söfnuði trúaðra.

Ísrael gleðjist yfir skapara sínum, synir Síonar fagni yfir konungi sínum.

Þeir skulu lofa nafn hans með gleðidansi, leika fyrir honum á bumbur og gígjur.

Því að Drottinn hefir þóknun á lýð sínum, hann skrýðir hrjáða með sigri.

Hinir trúuðu skulu gleðjast með sæmd, syngja fagnandi í hvílum sínum

með lofgjörð Guðs á tungu og tvíeggjað sverð í höndum

til þess að framkvæma hefnd á þjóðunum, hirtingu á lýðunum,

til þess að binda konunga þeirra með fjötrum, þjóðhöfðingja þeirra með járnhlekkjum,

til þess að fullnægja á þeim skráðum dómi. Það er til vegsemdar öllum dýrkendum hans. Halelúja.

150 Halelúja. Lofið Guð í helgidómi hans, lofið hann í voldugri festingu hans!

Lofið hann fyrir máttarverk hans, lofið hann eftir mikilleik hátignar hans!

Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju!

Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum!

Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellum skálabumbum!

Sálmarnir 114-115

114 Þegar Ísrael fór út af Egyptalandi, Jakobs ætt frá þjóðinni, er mælti á erlenda tungu,

varð Júda helgidómur hans, Ísrael ríki hans.

Hafið sá það og flýði, Jórdan hörfaði undan.

Fjöllin hoppuðu sem hrútar, hæðirnar sem lömb.

Hvað er þér, haf, er þú flýr, Jórdan, er þú hörfar undan,

þér fjöll, er þér hoppið sem hrútar, þér hæðir sem lömb?

Titra þú, jörð, fyrir augliti Drottins, fyrir augliti Jakobs Guðs,

hans sem gjörir klettinn að vatnstjörn, tinnusteininn að vatnslind.

115 Gef eigi oss, Drottinn, eigi oss, heldur þínu nafni dýrðina sakir miskunnar þinnar og trúfesti.

Hví eiga heiðingjarnir að segja: "Hvar er Guð þeirra?"

En vor Guð er í himninum, allt sem honum þóknast, það gjörir hann.

Skurðgoð þeirra eru silfur og gull, handaverk manna.

Þau hafa munn, en tala ekki, augu, en sjá ekki,

þau hafa eyru, en heyra ekki, nef, en finna engan þef.

Þau hafa hendur, en þreifa ekki, fætur, en ganga ekki, þau tala eigi með barka sínum.

Eins og þau eru, verða smiðir þeirra, allir þeir er á þau treysta.

En Ísrael treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

10 Arons ætt treystir Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

11 Þeir sem óttast Drottin treysta Drottni, hann er hjálp þeirra og skjöldur.

12 Drottinn minnist vor, hann mun blessa, hann mun blessa Ísraels ætt, hann mun blessa Arons ætt,

13 hann mun blessa þá er óttast Drottin, yngri sem eldri.

14 Drottinn mun fjölga yður, sjálfum yður og börnum yðar.

15 Þér eruð blessaðir af Drottni, skapara himins og jarðar.

16 Himinninn er himinn Drottins, en jörðina hefir hann gefið mannanna börnum.

17 Eigi lofa andaðir menn Drottin, né heldur neinn sá, sem hniginn er í dauðaþögn,

18 en vér viljum lofa Drottin, héðan í frá og að eilífu. Halelúja.

Jeremía 29:1

29 Þessi eru orð bréfsins, sem Jeremía spámaður sendi frá Jerúsalem til öldunga hinna herleiddu og til prestanna og til spámannanna og til alls lýðsins, sem Nebúkadnesar hafði herleitt frá Jerúsalem til Babýlon

Jeremía 29:4-14

"Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð, öllum hinum herleiddu, þeim er ég herleiddi frá Jerúsalem til Babýlon:

Reisið hús og búið í þeim, plantið garða og etið ávöxtu þeirra.

Takið yður konur og getið sonu og dætur, og takið sonum yðar konur og giftið dætur yðar, til þess að þær megi fæða sonu og dætur og yður fjölgi þar, en fækki ekki.

Látið yður umhugað um heill borgarinnar, sem ég herleiddi yður til, og biðjið til Drottins fyrir henni, því að heill hennar er heill sjálfra yðar.

Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Látið eigi spámenn yðar, sem meðal yðar eru, né spásagnamenn yðar tæla yður, og trúið ekki á drauma yðar, sem yður dreymir.

Því að þeir spá yður ranglega í mínu nafni, ég hefi ekki sent þá! _ segir Drottinn.

10 Svo segir Drottinn: Þegar sjötíu ár eru umliðin fyrir Babýlon, mun ég vitja yðar og efna við yður fyrirheit mitt að flytja yður aftur á þennan stað.

11 Því að ég þekki þær fyrirætlanir, sem ég hefi í hyggju með yður _ segir Drottinn _ fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

12 Þá munuð þér ákalla mig og fara og biðja til mín, og ég mun bænheyra yður.

13 Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,

14 vil ég láta yður finna mig _ segir Drottinn _ og snúa við högum yðar og safna yður saman frá öllum þjóðum og úr öllum þeim stöðum, þangað sem ég hefi rekið yður _ segir Drottinn _ og flytja yður aftur á þann stað, þaðan sem ég herleiddi yður.

Postulasagan 16:6-15

Þeir fóru um Frýgíu og Galataland, því heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu.

Og sem þeir voru komnir að Mýsíu, reyndu þeir að fara til Biþýníu, en andi Jesú leyfði það eigi.

Þeir fóru þá um Mýsíu og komu niður til Tróas.

Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: "Kom yfir til Makedóníu og hjálpa oss!"

10 En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn, leituðum vér færis að komast til Makedóníu, þar sem vér skildum, að Guð hafði kallað oss til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.

11 Nú lögðum vér út frá Tróas og sigldum beint til Samóþrake, en næsta dag til Neapólis

12 og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst vér nokkra daga.

13 Hvíldardaginn gengum vér út fyrir hliðið að á einni, en þar hugðum vér vera bænastað. Settumst vér niður og töluðum við konurnar, sem voru þar saman komnar.

14 Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði.

15 Hún var skírð og heimili hennar og hún bað oss: "Gangið inn í hús mitt og dveljist þar, fyrst þér teljið mig trúa á Drottin." Þessu fylgdi hún fast fram.

Lúkasarguðspjall 10:1-12

10 Eftir þetta kvaddi Drottinn til aðra, sjötíu og tvo að tölu, og sendi þá á undan sér, tvo og tvo, í hverja þá borg og stað, sem hann ætlaði sjálfur að koma til.

Og hann sagði við þá: "Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.

Farið! Ég sendi yður eins og lömb meðal úlfa.

Hafið ekki pyngju, ekki mal né skó, og heilsið engum á leiðinni.

Hvar sem þér komið í hús, þá segið fyrst: ,Friður sé með þessu húsi.`

Og sé þar friðar sonur, mun friður yðar hvíla yfir honum, ella hverfa aftur til yðar.

Verið um kyrrt í sama húsi, neytið þess, sem þar er fram boðið í mat og drykk. Verður er verkamaðurinn launa sinna. Eigi skuluð þér flytjast hús úr húsi.

Og hvar sem þér komið í borg og tekið er við yður, þá neytið þess, sem fyrir yður er sett.

Læknið þá, sem þar eru sjúkir, og segið þeim: ,Guðs ríki er komið í nánd við yður.`

10 En hvar sem þér komið í borg og eigi er við yður tekið, þá farið út á strætin og segið:

11 ,Jafnvel það dust, sem loðir við fætur vora úr borg yðar, þurrkum vér af oss handa yður. Vitið samt þetta, að Guðs ríki er komið í nánd.`

12 Ég segi yður: Bærilegra mun Sódómu á þeim degi en þeirri borg.

Lúkasarguðspjall 10:17-20

17 Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: "Herra, jafnvel illir andar eru oss undirgefnir í þínu nafni."

18 En hann mælti við þá: "Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu.

19 Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra.

20 Gleðjist samt ekki af því, að andarnir eru yður undirgefnir, gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society