Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:49-72

49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.

50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.

51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.

52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.

53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.

54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.

55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.

56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.

57 Drottinn er hlutskipti mitt, ég hefi ákveðið að varðveita orð þín.

58 Ég hefi leitað hylli þinnar af öllu hjarta, ver mér náðugur samkvæmt fyrirheiti þínu.

59 Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum þínum.

60 Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín.

61 Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.

62 Um miðnætti rís ég upp til þess að þakka þér þín réttlátu ákvæði.

63 Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.

64 Jörðin er full af miskunn þinni, Drottinn, kenn mér lög þín.

65 Þú hefir gjört vel til þjóns þíns eftir orði þínu, Drottinn.

66 Kenn mér góð hyggindi og þekkingu, því að ég trúi á boð þín.

67 Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.

68 Þú ert góður og gjörir vel, kenn mér lög þín.

69 Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.

70 Hjarta þeirra er tilfinningarlaust sem mör væri, en ég leita unaðar í lögmáli þínu.

71 Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.

72 Lögmálið af munni þínum er mér mætara en þúsundir af gulli og silfri.

Sálmarnir 49

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

Sálmarnir 53

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

Fyrri bók konunganna 17

17 Elía Tisbíti, frá Tisbe í Gíleað, sagði við Akab: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð Ísraels, lifir, sá er ég þjóna, skal þessi árin hvorki drjúpa dögg né regn, nema ég segi."

Og orð Drottins kom til hans, svolátandi:

"Far þú héðan og hald austur á bóginn, og fel þig við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.

Og þú skalt drekka úr læknum, og hröfnunum hefi ég boðið að fæða þig þar."

Hann gjörði sem Drottinn bauð honum, fór og settist að við lækinn Krít, sem er fyrir austan Jórdan.

Og hrafnarnir færðu honum brauð og kjöt á morgnana og brauð og kjöt á kveldin, og úr læknum drakk hann.

En eftir nokkurn tíma þornaði lækurinn upp, því að eigi hafði komið skúr á jörð.

Þá kom orð Drottins til hans, svolátandi:

"Tak þig upp og far til Sarefta, sem tilheyrir Sídon, og sest þar að. Sjá, ég hefi boðið ekkju nokkurri þar að fæða þig."

10 Þá tók hann sig upp og fór til Sarefta. Og er hann kom að borgarhliðinu, var ekkja þar að tína saman viðarkvisti. Hann kallaði til hennar og mælti: "Sæk þú mér dálítið af vatni í ílátinu, að ég megi drekka."

11 Og hún fór að sækja það, en hann kallaði á eftir henni og mælti: "Færðu mér líka brauðbita."

12 Hún svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn, lifir, á ég enga köku til, heldur aðeins hnefa mjöls í skjólu og lítið eitt af viðsmjöri í krús. Og sjá, ég er að tína saman fáeina viðarkvisti. Síðan ætla ég heim og matbúa þetta handa mér og syni mínum, að við megum eta það og deyja síðan."

13 En Elía sagði við hana: "Óttast ekki! Far þú heim og gjör sem þú sagðir. Gjör þú mér samt fyrst litla köku af því og fær mér út hingað, en matreið síðan handa þér og syni þínum.

14 Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölskjólan skal eigi tóm verða og viðsmjörið í krúsinni ekki þrjóta, allt til þess dags, er Drottinn gefur regn á jörð."

15 Þá fór hún og gjörði eins og Elía hafði sagt, og hún hafði nóg að eta, bæði hún og hann og sonur hennar, um langa hríð.

16 Mjölskjólan varð ekki tóm og viðsmjörið í krúsinni þraut ekki, samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn Elía.

17 Eftir þetta bar svo við, að sonur húsfreyju sýktist, og elnaði honum svo mjög sóttin, að hann dró eigi lengur andann.

18 Þá mælti hún við Elía: "Hvað á ég saman við þig að sælda, guðsmaður? Þú ert til mín kominn til að minna á misgjörð mína og til að láta son minn deyja."

19 En Elía sagði við hana: "Fá þú mér son þinn." Og hann tók hann úr kjöltu hennar og bar hann upp á loft, þar sem hann hafðist við, og lagði hann í rekkju sína.

20 Og hann kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, ætlar þú líka að fara svo illa með ekkjuna, sem ég gisti hjá, að láta son hennar deyja?"

21 Og hann teygði sig þrisvar yfir sveininn og kallaði til Drottins og mælti: "Drottinn, Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!"

22 Og Drottinn heyrði bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.

23 En Elía tók sveininn og bar hann ofan af loftinu niður í húsið og fékk hann móður hans. Og Elía mælti: "Sjá þú, sonur þinn er lifandi."

24 Þá sagði konan við Elía: "Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur."

Bréf Páls til Filippímann 2:1-11

Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs,

þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.

Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.

Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.

Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.

Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.

Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.

Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.

Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra,

10 til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu

11 og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.

Matteusarguðspjall 2:1-12

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs, komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem

og sögðu: "Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Vér sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu."

Þegar Heródes heyrði þetta, varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum.

Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum lýðsins og spurði þá: "Hvar á Kristur að fæðast?"

Þeir svöruðu honum: "Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:

Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ertu síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma, sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels."

Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim, nær stjarnan hefði birst.

Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: "Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið, og er þér finnið það látið mig vita, til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu."

Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim, uns hana bar þar yfir, sem barnið var.

10 Þegar þeir sáu stjörnuna, glöddust þeir harla mjög,

11 þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.

12 En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar, fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society