Book of Common Prayer
55 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðs-maskíl.
2 Hlýð, ó Guð, á bæn mína, fel þig eigi fyrir grátbeiðni minni.
3 Veit mér athygli og svara mér. Ég kveina í harmi mínum og styn
4 sakir háreysti óvinarins, sakir hróps hins óguðlega, því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.
5 Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ógnir dauðans falla yfir mig,
6 ótti og skelfing er yfir mig komin, og hryllingur fer um mig allan,
7 svo að ég segi: "Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,
8 já, ég skyldi svífa langt burt, ég skyldi gista í eyðimörkinni. [Sela]
9 Ég skyldi flýta mér að leita mér hælis fyrir þjótandi vindum og veðri."
10 Rugla, Drottinn, sundra tungum þeirra, því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
11 Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar, en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
12 Glötun er inni í henni, ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.
13 Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig _ það gæti ég þolað, og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig _ fyrir honum gæti ég farið í felur,
14 heldur þú, jafningi minn, vinur minn og kunningi,
15 við sem vorum ástúðarvinir, sem gengum í eindrægni saman í Guðs hús.
16 Dauðinn komi yfir þá; stígi þeir lifandi niður til Heljar, því að illska er í bústöðum þeirra, í hjörtum þeirra.
17 En ég hrópa til Guðs, og Drottinn mun hjálpa mér.
18 Kvöld og morgna og um miðjan dag harma ég og styn, og hann heyrir raust mína.
19 Hann endurleysir sál mína og gefur mér frið, svo að þeir geta eigi nálgast mig, því að mótstöðumenn mínir eru margir.
20 Guð mun heyra, og hann er ríkir frá eilífð mun lægja þá. [Sela] Þeir breytast ekki og óttast eigi Guð.
21 Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann, hann rauf sáttmál sitt.
22 Hálli en smjör er tunga hans, en ófriður er í hjarta hans, mýkri en olía eru orð hans, og þó brugðin sverð.
23 Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.
24 Og þú, ó Guð, munt steypa þeim niður í grafardjúpið. Morðingjar og svikarar munu eigi ná hálfum aldri, en ég treysti þér.
138 Eftir Davíð. Ég vil lofa þig af öllu hjarta, lofsyngja þér frammi fyrir guðunum.
2 Ég vil falla fram fyrir þínu heilaga musteri og lofa nafn þitt sakir miskunnar þinnar og trúfesti, því að þú hefir gjört nafn þitt og orð þitt meira öllu öðru.
3 Þegar ég hrópaði, bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugmóð, er ég fann kraft hjá mér.
4 Allir konungar á jörðu skulu lofa þig, Drottinn, er þeir heyra orðin af munni þínum.
5 Þeir skulu syngja um vegu Drottins, því að mikil er dýrð Drottins.
6 Því að Drottinn er hár og sér þó hina lítilmótlegu og þekkir hinn drambláta í fjarska.
7 Þótt ég sé staddur í þrengingu, lætur þú mig lífi halda, þú réttir út hönd þína gegn reiði óvina minna, og hægri hönd þín hjálpar mér.
8 Drottinn mun koma öllu vel til vegar fyrir mig, Drottinn, miskunn þín varir að eilífu. Yfirgef eigi verk handa þinna.
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
7 Hvert get ég farið frá anda þínum og hvert flúið frá augliti þínu?
8 Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gjörði undirheima að hvílu minni, sjá, þú ert þar.
9 Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans og settist við hið ysta haf,
10 einnig þar mundi hönd þín leiða mig og hægri hönd þín halda mér.
11 Og þótt ég segði: "Myrkrið hylji mig og ljósið í kringum mig verði nótt,"
12 þá myndi þó myrkrið eigi verða þér of myrkt og nóttin lýsa eins og dagur, myrkur og ljós eru jöfn fyrir þér.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
19 Ó að þú, Guð, vildir fella níðingana. Morðingjar! Víkið frá mér.
20 Þeir þrjóskast gegn þér með svikum og leggja nafn þitt við hégóma.
21 Ætti ég eigi, Drottinn, að hata þá, er hata þig, og hafa viðbjóð á þeim, er rísa gegn þér?
22 Ég hata þá fullu hatri, þeir eru orðnir óvinir mínir.
23 Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,
2 Móse kallaði saman allan Ísrael og sagði við þá: Þér hafið séð allt það, sem Drottinn gjörði fyrir augum yðar í Egyptalandi við Faraó og alla þjóna hans og allt land hans,
3 hin miklu máttarverk, er þú hefir séð með eigin augum, hin miklu tákn og undur.
4 En allt fram á þennan dag hefir Drottinn ekki gefið yður hjarta til að skilja með, augu til að sjá eða eyru til að heyra.
5 Ég leiddi yður í fjörutíu ár um eyðimörkina. Föt yðar slitnuðu ekki á yður, og skór þínir slitnuðu ekki á fótum þér,
6 brauð átuð þér ekki, og vín eða áfengan drykk drukkuð þér ekki, til þess að þér mættuð skilja, að ég er Drottinn, Guð yðar.
7 Er þér komuð hingað, og Síhon, konungur í Hesbon, og Óg, konungur í Basan, fóru í móti oss til orustu, þá unnum vér sigur á þeim
8 og tókum land þeirra og gáfum það Rúbenítum, Gaðítum og hálfri ættkvísl Manasse til eignar.
9 Varðveitið því orð þessa sáttmála og breytið eftir þeim, til þess að yður lánist vel allt, sem þér gjörið.
10 Þér standið í dag allir frammi fyrir Drottni, Guði yðar: höfuðsmenn yðar, ættkvíslir yðar, öldungar yðar, tilsjónarmenn yðar, allir karlmenn í Ísrael,
11 börn yðar og konur og útlendingar þínir, sem eru í herbúðum þínum, _ bæði viðarhöggsmenn og vatnsberar þínir _,
12 til þess að gangast undir sáttmála Drottins, Guðs þíns, og í eiðfest samfélag við hann, er Drottinn Guð þinn gjörir við þig í dag,
13 til þess að hann gjöri þig í dag að sínum lýð og hann sé þinn Guð, eins og hann hefir heitið þér og eins og hann hefir svarið feðrum þínum, Abraham, Ísak og Jakob.
14 En ég gjöri ekki þennan sáttmála og þetta eiðfesta samfélag við yður eina,
15 heldur bæði við þá, sem standa hér með oss í dag frammi fyrir Drottni Guði vorum, og einnig við þá, sem ekki eru hér með oss í dag.
9 Um hjálpina til hinna heilögu er sem sé óþarft fyrir mig að skrifa yður,
2 því að ég þekki góðan vilja yðar og hrósa mér af yður meðal Makedóna og segi, að Akkea hefur verið reiðubúin síðan í fyrra. Áhugi yðar hefur verið hvatning fyrir fjöldamarga.
3 En bræðurna hef ég sent, til þess að hrós vort um yður skyldi ekki reynast fánýtt í þessu efni og til þess að þér, eins og ég sagði, mættuð vera reiðubúnir.
4 Annars gæti svo farið, að vér, _ að vér ekki segjum þér _, þyrftum að bera kinnroða fyrir þetta traust, ef Makedónar skyldu koma með mér og finna yður óviðbúna.
5 Vér töldum því nauðsynlegt að biðja bræðurna að fara á undan til yðar og undirbúa þá gjöf yðar, sem heitin var áður, svo að hún mætti vera á reiðum höndum eins og blessun, en ekki nauðung.
6 En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.
7 Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.
8 Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks.
9 Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.
10 Sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar.
11 Þér verðið í öllu auðugir og getið jafnan sýnt örlæti sem kemur til leiðar þakklæti við Guð fyrir vort tilstilli.
12 Því að þessi þjónusta, sem þér innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu, heldur ber hún og ríkulega ávexti við að margir menn þakka Guði.
13 Þegar menn sjá, hvers eðlis þessi þjónusta er, munu þeir lofa Guð fyrir að þér haldið játningu yðar við fagnaðarerindi Krists og gefið með yður af örlæti, bæði þeim og öllum.
14 Og þeir munu biðja fyrir yður og þrá yður vegna yfirgnæfanlegrar náðar Guðs við yður.
15 Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!
15 Menn færðu og til hans ungbörnin, að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá.
16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
17 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."
18 Höfðingi nokkur spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
19 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.
20 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður."`
21 Hann sagði: "Alls þessa hef ég gætt frá æsku."
22 Þegar Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Enn er þér eins vant: Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér."
23 En er hann heyrði þetta, varð hann hryggur við, enda auðugur mjög.
24 Jesús sá það og sagði: "Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.
25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
26 En þeir, sem á hlýddu, spurðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
27 Hann mælti: "Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð."
28 Þá sagði Pétur: "Vér yfirgáfum allt, sem vér áttum, og fylgdum þér."
29 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn Guðs ríkis vegna
30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf."
by Icelandic Bible Society