Book of Common Prayer
63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.
2 Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.
3 Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,
4 því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.
5 Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.
6 Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,
7 þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.
8 Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.
9 Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.
10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.
11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.
12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
103 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn,
2 lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
3 Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein,
4 leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn.
5 Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn.
6 Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.
7 Hann gjörði Móse vegu sína kunna og Ísraelsbörnum stórvirki sín.
8 Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur.
9 Hann þreytir eigi deilur um aldur og er eigi eilíflega reiður.
10 Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
11 heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.
12 Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss.
13 Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.
14 Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.
15 Dagar mannsins eru sem grasið, hann blómgast sem blómið á mörkinni,
16 þegar vindur blæs á hann er hann horfinn, og staður hans þekkir hann ekki framar.
17 En miskunn Drottins við þá er óttast hann varir frá eilífð til eilífðar, og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
18 þeirra er varðveita sáttmála hans og muna að breyta eftir boðum hans.
19 Drottinn hefir reist hásæti sitt á himnum, og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
20 Lofið Drottin, þér englar hans, þér voldugu hetjur, er framkvæmið boð hans, er þér heyrið hljóminn af orði hans.
21 Lofið Drottin, allar hersveitir hans, þjónar hans, er framkvæmið vilja hans.
22 Lofið Drottin, öll verk hans, á hverjum stað í ríki hans. Lofa þú Drottin, sála mín.
11 Fyrir því skalt þú elska Drottin Guð þinn og varðveita boðorð hans, lög, ákvæði og skipanir alla daga.
2 Viðurkennið í dag _ því að ekki á ég orðastað við börn yðar, sem eigi hafa þekkt það né séð _, viðurkennið ögun Drottins Guðs yðar, mikilleik hans, hina sterku hönd hans og útréttan armlegg hans,
3 tákn hans og verk, sem hann gjörði í Egyptalandi á Faraó Egyptalandskonungi og öllu landi hans,
4 hversu hann fór með herlið Egypta, hesta þeirra og vagna, hversu hann lét vötn Sefhafsins flæða yfir þá, er þeir veittu yður eftirför, og tortímdi þeim fram á þennan dag,
5 og hversu hann gjörði til yðar í eyðimörkinni allt til þess er þér komuð hingað,
6 og hversu hann fór með Datan og Abíram, sonu Elíabs Rúbenssonar, hversu jörðin lauk upp munni sínum og svalg þá mitt á meðal allra Ísraelsmanna, ásamt fjölskyldum þeirra og tjöldum og öllum lifandi skepnum, sem voru í fylgd með þeim.
7 Því að augu yðar hafa séð öll hin miklu verk, sem Drottinn hefir gjört.
8 Fyrir því skuluð þér varðveita allar þær skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, til þess að þér verðið sterkir, komist inn í og fáið til eignar land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar,
9 og til þess að þér megið lifa langa ævi í landinu, sem Drottinn sór feðrum yðar að gefa þeim og niðjum þeirra, _ landi, sem flýtur í mjólk og hunangi.
10 Landið sem þú heldur nú inn í til þess að taka það til eignar, það er ekki eins og Egyptaland, þaðan sem þér fóruð, þar sem þú sáðir sæði þínu og vökvaðir landið með fæti þínum eins og kálgarð,
11 heldur er land það, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar, fjallaland og dala, og drekkur vatn af himnum þegar rignir,
12 land, sem Drottinn Guð þinn annast. Stöðuglega hvíla augu Drottins Guðs þíns yfir því frá ársbyrjun til ársloka.
10 Og ég sá annan sterkan engil stíga af himni ofan, hjúpaðan skýi. Regnboginn var yfir höfði honum og ásjóna hans var sem sólin og fætur hans sem eldstólpar.
2 Hann hafði í hendi sér litla bók opna. Hægra fæti stóð hann á hafinu, en vinstra fæti á jörðinni.
3 Hann kallaði hárri röddu, eins og þegar ljón öskrar. Er hann hafði kallað, töluðu þrumurnar sjö sínum raustum.
4 Og er þrumurnar sjö höfðu talað, ætlaði ég að fara að rita. Þá heyrði ég rödd af himni, sem sagði: "Innsigla þú það, sem þrumurnar sjö töluðu, og rita það ekki."
5 Og engillinn, sem ég sá standa á hafinu og á jörðinni, hóf upp hægri hönd sína til himins
6 og sór við þann, sem lifir um aldir alda, hann sem himininn skóp og það sem í honum er, jörðina og það sem á henni er, og hafið og það sem í því er: Enginn frestur skal lengur gefinn verða,
7 en þegar kemur að rödd sjöunda engilsins og hann fer að básúna, mun fram koma leyndardómur Guðs, eins og hann hafði boðað þjónum sínum, spámönnunum.
8 Og röddina, sem ég heyrði af himni, heyrði ég aftur tala við mig. Hún sagði: "Far og tak opnu bókina úr hendi engilsins, sem stendur á hafinu og á jörðunni."
9 Ég fór til engilsins og bað hann að fá mér litlu bókina. Og hann segir við mig: "Tak og et hana eins og hún er, hún mun verða beisk í kviði þínum, en í munni þínum mun hún verða sæt sem hunang."
10 Ég tók litlu bókina úr hendi engilsins og át hana upp, og í munni mér var hún sæt sem hunang. En er ég hafði etið hana, fann ég til beiskju í kviði mínum.
11 Þá segja þeir við mig: "Enn átt þú að spá um marga lýði og þjóðir og tungur og konunga."
44 Líkt er himnaríki fjársjóði, sem fólginn var í jörðu og maður fann og leyndi. Í fögnuði sínum fór hann, seldi allar eigur sínar og keypti akur þann.
45 Enn er himnaríki líkt kaupmanni, sem leitaði að fögrum perlum.
46 Og er hann fann eina dýrmæta perlu, fór hann, seldi allt, sem hann átti, og keypti hana.
47 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski.
48 Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt.
49 Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum
50 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
51 Hafið þér skilið allt þetta?" "Já," svöruðu þeir.
52 Hann sagði við þá: "Þannig er sérhver fræðimaður, sem orðinn er lærisveinn himnaríkis, líkur húsföður, sem ber fram nýtt og gamalt úr forðabúri sínu."
53 Þegar Jesús hafði lokið þessum dæmisögum, hélt hann þaðan.
54 Hann kom í ættborg sína og tók að kenna þeim í samkundu þeirra. Þeir undruðust stórum og sögðu: "Hvaðan kemur honum þessi speki og kraftaverkin?
55 Er þetta ekki sonur smiðsins? Heitir ekki móðir hans María og bræður hans Jakob, Jósef, Símon og Júdas?
56 Og eru ekki systur hans allar hjá oss? Hvaðan kemur honum þá allt þetta?"
57 Og þeir hneyksluðust á honum. En Jesús sagði við þá: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu og með heimamönnum."
58 Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra.
by Icelandic Bible Society