Book of Common Prayer
18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.
3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.
8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,
9 reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.
13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.
14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.
17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.
25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.
26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.
30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.
31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.
32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?
33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,
34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,
35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.
36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.
37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.
38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.
39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.
41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.
42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.
43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.
44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.
45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.
46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.
47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,
48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,
49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.
51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
3 Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel?
2 Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum.
3 Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið.
4 En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."
5 Og hún svaraði henni: "Ég vil gjöra allt, sem þú segir."
6 Síðan gekk hún ofan í láfann og gjörði allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.
7 Er Bóas hafði etið og drukkið og var í góðu skapi, þá fór hann og lagðist til hvíldar við endann á kornbingnum. Þá kom hún hljóðlega, fletti upp ábreiðunni til fóta honum og lagðist niður.
8 En um miðnætti varð manninum bilt við, og er hann settist upp, sjá, þá lá kona til fóta honum.
9 Og hann sagði: "Hver ert þú?" Hún svaraði: "Ég er Rut ambátt þín. Breið þú væng þinn yfir ambátt þína, því að þú ert lausnarmaður."
10 Þá sagði hann: "Blessuð sért þú af Drottni, dóttir mín! Þú hefir nú síðast sýnt elsku þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan.
11 Og ver þú nú óhrædd, dóttir mín. Að öllu, svo sem þú segir, mun ég við þig gjöra, því að allir samborgarmenn mínir vita, að þú ert væn kona.
12 Nú er það að vísu satt, að ég er lausnarmaður, en þó er til annar lausnarmaður, sem er nákomnari en ég.
13 Vertu hér í nótt, en á morgun, ef hann þá vill leysa þig, gott og vel, þá gjöri hann það, en vilji hann ekki leysa þig, þá mun ég leysa þig, svo sannarlega sem Drottinn lifir. Liggðu nú kyrr til morguns."
14 Hún lá til fóta honum til morguns. Þá stóð hún upp, áður en menn gátu þekkt hvor annan. Því að hann hugsaði: "Það má eigi spyrjast, að konan hafi komið í láfann."
15 Og hann sagði: "Kom þú með möttulinn, sem þú ert í, og haltu honum út." Og hún hélt honum út. Þá mældi hann sex mæla byggs og lyfti á hana. Síðan fór hún inn í borgina.
16 Er Rut kom til tengdamóður sinnar, mælti hún: "Hvernig gekk þér, dóttir mín?" Þá sagði hún henni frá öllu því, er maðurinn hafði við hana gjört.
17 Og hún sagði: "Þessa sex mæla byggs gaf hann mér, því að hann sagði: ,Þú mátt ekki fara heim til tengdamóður þinnar með tvær hendur tómar."`
18 Þá sagði Naomí: "Ver þú nú kyrr, dóttir mín, uns þú fréttir, hvernig málum lýkur, því að maðurinn mun ekki hætta fyrr en hann leiðir þetta mál til lykta í dag."
4 Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.
2 Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.
3 Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.
4 Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.
5 Það helgast af orði Guðs og bæn.
6 Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.
7 En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.
8 Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.
9 Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.
10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.
11 Bjóð þú þetta og kenn það.
12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.
13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.
14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.
15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.
16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.
31 Á þeirri stundu komu nokkrir farísear og sögðu við hann: "Far þú og hald á brott héðan, því að Heródes vill drepa þig."
32 Og hann sagði við þá: "Farið og segið ref þeim: ,Í dag og á morgun rek ég út illa anda og lækna og á þriðja degi mun ég marki ná.`
33 En mér ber að halda áfram ferð minni í dag og á morgun og næsta dag, því að eigi hæfir, að spámaður bíði dauða annars staðar en í Jerúsalem.
34 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú, sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum eins og hænan ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.
35 Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Þér munuð eigi sjá mig, fyrr en þar er komið, að þér segið: ,Blessaður sé sá er kemur, í nafni Drottins!"`
by Icelandic Bible Society