Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:1-24

119 Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins.

Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta

og eigi fremja ranglæti, en ganga á vegum hans.

Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.

Ó að breytni mín mætti vera staðföst, svo að ég varðveiti lög þín.

Þá mun ég eigi til skammar verða, er ég gef gaum að öllum boðum þínum.

Ég skal þakka þér af einlægu hjarta, er ég hefi numið þín réttlátu ákvæði.

Ég vil gæta laga þinna, þá munt þú alls ekki yfirgefa mig.

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

17 Veit þjóni þínum að lifa, að ég megi halda orð þín.

18 Ljúk upp augum mínum, að ég megi skoða dásemdirnar í lögmáli þínu.

19 Ég er útlendingur á jörðunni, dyl eigi boð þín fyrir mér.

20 Sál mín er kvalin af þrá eftir ákvæðum þínum alla tíma.

21 Þú hefir ógnað ofstopamönnunum, bölvaðir eru þeir, sem víkja frá boðum þínum.

22 Velt þú af mér háðung og skömm, því að ég hefi haldið reglur þínar.

23 Þótt þjóðhöfðingjar sitji og taki saman ráð sín gegn mér, þá íhugar þjónn þinn lög þín.

24 Og reglur þínar eru unun mín, boð þín eru ráðgjafar mínir.

Sálmarnir 12-14

12 Til söngstjórans. Á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Hjálpa þú, Drottinn, því að hinir trúuðu eru á brottu, hinir dygglyndu horfnir frá mönnunum.

Lygi tala þeir hver við annan, með mjúkfláum vörum og tvískiptu hjarta tala þeir.

Ó að Drottinn vildi eyða öllum mjúkfláum vörum, öllum tungum er tala drambsamleg orð,

þeim er segja: "Með tungunni munum vér sigra, varir vorar hjálpa oss, hver er drottnari yfir oss?"

"Sakir kúgunar hinna hrjáðu, sakir andvarpa hinna fátæku vil ég nú rísa upp," segir Drottinn. "Ég vil veita hjálp þeim, er þrá hana."

Orð Drottins eru hrein orð, skírt silfur, sjöhreinsað gull.

Þú, Drottinn, munt vernda oss, varðveita oss fyrir þessari kynslóð um aldur.

Hinir guðlausu vaða alls staðar uppi, og hrakmenni komast til vegs meðal mannanna.

13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?

Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?

Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,

að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.

Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Rutarbók 2:14-23

14 Er matmálstími kom, sagði Bóas við hana: "Kom þú hingað og et af brauðinu og dýf bita þínum í vínediksblönduna." Þá settist hún hjá kornskurðarmönnunum, og hann rétti henni bakað korn, og hún át sig sadda og leifði.

15 Síðan stóð hún upp og fór að tína. Þá lagði Bóas svo fyrir pilta sína: "Hún má einnig tína millum bundinanna, og gjörið henni ekkert mein

16 og dragið jafnvel öx út úr hnippunum handa henni og látið eftir liggja, svo að hún megi tína, og eigi skuluð þér atyrða hana."

17 Síðan tíndi hún á akrinum allt til kvelds. Og er hún barði kornið úr því, er hún hafði tínt, þá var það hér um bil efa af byggi.

18 Hún tók það og fór inn í borgina, og sá tengdamóðir hennar, hvað hún hafði tínt. Því næst tók hún fram það, er hún hafði leift, þá er hún var södd orðin, og fékk henni.

19 Þá sagði tengdamóðir hennar við hana: "Hvar hefir þú tínt í dag og hvar hefir þú unnið? Blessaður sé sá, sem vikið hefir þér góðu!" Hún sagði tengdamóður sinni frá, hjá hverjum hún hefði unnið, og mælti: "Maðurinn, sem ég hefi unnið hjá í dag, heitir Bóas."

20 Þá sagði Naomí við tengdadóttur sína: "Blessaður sé hann af Drottni, sem hefir ekki látið af miskunn sinni við lifandi og látna." Og Naomí sagði við hana: "Maðurinn er okkur nákominn; hann er einn af lausnarmönnum okkar."

21 Þá sagði Rut hin móabítíska: "Hann sagði og við mig: ,Haltu þig hjá mínum piltum, uns þeir hafa lokið öllum kornskurði hjá mér."`

22 Og Naomí sagði við Rut, tengdadóttur sína: "Það er gott, dóttir mín, að þú farir út með ambáttum hans. Þá munu menn eigi áreita þig á öðrum akri."

23 Síðan hélt hún sig hjá stúlkum Bóasar, þá er hún var að tína, uns byggskurðinum og hveitiskurðinum var lokið. Eftir það var hún kyrr hjá tengdamóður sinni.

Fyrra bréf Páls til Tímót 3

Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk.

Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari.

Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.

Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.

Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?

Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn.

Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.

Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, ekki tvímælismenn, ekki sólgnir í vín, ekki gefnir fyrir ljótan gróða.

Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku.

10 Einnig þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir.

11 Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.

12 Djáknar séu einkvæntir, og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum.

13 Því að þeir, sem vel hafa staðið í djáknastöðu, koma sér vel í veg og öðlast mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.

14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,

15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.

16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.

Lúkasarguðspjall 13:18-30

18 Hann sagði nú: "Hverju er Guðs ríki líkt? Við hvað á ég að líkja því?

19 Líkt er það mustarðskorni, sem maður tók og sáði í jurtagarð sinn. Það óx og varð tré og fuglar himins hreiðruðu sig í greinum þess."

20 Og aftur sagði hann: "Við hvað á ég að líkja Guðs ríki?

21 Líkt er það súrdeigi, er kona tók og fól í þrem mælum mjöls, uns það sýrðist allt."

22 Og hann hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi.

23 Einhver sagði við hann: "Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?" Hann sagði við þá:

24 "Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta.

25 Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: ,Herra, ljúk þú upp fyrir oss!` mun hann svara yður: ,Ég veit ekki, hvaðan þér eruð.`

26 Þá munuð þér segja: ,Vér höfum þó etið og drukkið með þér, og þú kenndir á götum vorum.`

27 Og hann mun svara: ,Ég segi yður, ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn!`

28 Þar verður grátur og gnístran tanna, er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður út rekna.

29 Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki.

30 En til eru síðastir, er verða munu fyrstir, og til eru fyrstir, er verða munu síðastir."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society