Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Book of Common Prayer

Daily Old and New Testament readings based on the Book of Common Prayer.
Duration: 861 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 1-4

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi þeirra, er hafa Guð að háði,

heldur hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.

Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.

Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.

Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra.

Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?

Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:

"Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."

Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.

Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:

"Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."

Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.

Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.

Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."

10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.

11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.

12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,

13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.

Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.

Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.

Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]

En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.

Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]

Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.

Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.

Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.

Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]

Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.

Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.

Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]

Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.

Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]

Færið réttar fórnir og treystið Drottni.

Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.

Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.

Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.

Sálmarnir 7

Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.

Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,

svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.

Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,

hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,

þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]

Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.

Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.

Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.

10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!

11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.

12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.

13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,

14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.

15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.

16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.

17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.

18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.

Rutarbók 1:1-18

Í þá daga, er dómararnir stjórnuðu, bar svo til, að hallæri var í landinu. Fór þá maður nokkur frá Betlehem í Júda til þess að dveljast sem útlendingur í Móabslandi ásamt konu sinni og tveimur sonum sínum.

Þessi maður hét Elímelek og kona hans Naomí, en synir hans tveir Mahlón og Kiljón. Þau voru af Efrataætt frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabslands og dvöldust þar.

Þá dó Elímelek, maður Naomí, en hún lifði eftir með báðum sonum sínum.

Þeir gengu að eiga móabítískar konur, og hét önnur Orpa, en hin Rut. Og þeir bjuggu þar hér um bil tíu ár.

Þá dóu þeir líka báðir, Mahlón og Kiljón, og konan lifði ein eftir báða sonu sína og mann sinn.

Þá bjóst Naomí til að hverfa aftur heim frá Móabslandi með tengdadætrum sínum, því að hún hafði heyrt í Móabslandi, að Drottinn hefði vitjað lýðs síns og gefið þeim brauð.

Lagði hún nú af stað þaðan, er hún hafði verið, og báðar tengdadætur hennar með henni. En er þær voru farnar á leið til þess að hverfa aftur til Júdalands,

þá sagði Naomí við báðar tengdadætur sínar: "Farið, snúið við, hvor um sig til húss móður sinnar. Drottinn auðsýni ykkur gæsku, eins og þið hafið auðsýnt hinum látnu og mér.

Drottinn gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns." Síðan kyssti hún þær. En þær tóku að gráta hástöfum

10 og sögðu við hana: "Nei, við viljum hverfa aftur með þér til þíns fólks!"

11 Naomí svaraði: "Hverfið aftur, dætur mínar! Hví viljið þið fara með mér? Mun ég enn bera sonu í skauti mínu, er verða megi menn ykkar?

12 Hverfið aftur, dætur mínar, farið heim, því að ég er orðin of gömul til að giftast aftur. En setjum nú svo, að ég hugsaði: ,Ég hefi enn von,` og að ég giftist meira að segja í kveld og fæddi einnig sonu, ættuð þið fyrir þá sök að bíða, til þess er þeir yrðu fulltíða?

13 Ættuð þið fyrir þá sök að loka ykkur inni og ekki giftast? Nei, dætur mínar, mig tekur mjög sárt til ykkar, því að hönd Drottins hefir lagst þungt á mig."

14 Þá tóku þær enn að gráta hástöfum. Og Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi, en Rut gat ekki slitið sig frá henni.

15 Þá mælti Naomí: "Sjá, mágkona þín er snúin heim aftur til síns fólks og síns guðs. Far þú heim aftur á eftir mágkonu þinni."

16 En Rut svaraði: "Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.

17 Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig."

18 Og er Naomí sá, að hún var fastráðin í því að fara með henni, hætti hún að tala um fyrir henni.

Fyrra bréf Páls til Tímót 1:1-17

Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar

Tímóteusi, skilgetnum syni sínum í trúnni. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

Þegar ég var á förum til Makedóníu, hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða sumum mönnum að fara ekki með annarlegar kenningar

og gefa sig ekki að ævintýrum og endalausum ættartölum, er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs.

Markmið þessarar hvatningar er kærleikur af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú.

Sumir eru viknir frá þessu og hafa snúið sér til hégómamáls.

Þeir vilja vera lögmálskennendur, þó að hvorki skilji þeir, hvað þeir sjálfir segja, né hvað þeir eru að fullyrða.

Vér vitum, að lögmálið er gott, noti maðurinn það réttilega

og viti að það er ekki ætlað réttlátum, heldur lögleysingjum og þverbrotnum, óguðlegum og syndurum, vanheilögum og óhreinum, föðurmorðingjum og móðurmorðingjum, manndrápurum,

10 frillulífismönnum, mannhórum, mannaþjófum, lygurum, meinsærismönnum, og hvað sem það er nú annað, sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu.

11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs, sem mér var trúað fyrir.

12 Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,

13 mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði.

14 Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.

16 En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Lúkasarguðspjall 13:1-9

13 Í sama mund komu einhverjir og sögðu honum frá Galíleumönnunum, að Pílatus hefði blandað blóði þeirra í fórnir þeirra.

Jesús mælti við þá: "Haldið þér, að þessir Galíleumenn hafi verið meiri syndarar en allir aðrir Galíleumenn, fyrst þeir urðu að þola þetta?

Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins.

Eða þeir átján, sem turninn féll yfir í Sílóam og varð að bana, haldið þér, að þeir hafi verið sekari en allir þeir menn, sem í Jerúsalem búa?

Nei, segi ég yður, en ef þér gjörið ekki iðrun, munuð þér allir farast eins."

En hann sagði þessa dæmisögu: "Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki.

Hann sagði þá við víngarðsmanninn: ,Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?`

En hann svaraði honum: ,Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð.

Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp."`

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society