Book of Common Prayer
42 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.
2 Eins og hindin, sem þráir vatnslindir, þráir sál mín þig, ó Guð.
3 Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði. Hvenær mun ég fá að koma og birtast fyrir augliti Guðs?
4 Tár mín urðu fæða mín dag og nótt, af því menn segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
5 Um það vil ég hugsa og úthella sál minni, sem í mér er, hversu ég gekk fram í mannþrönginni, leiddi þá til Guðs húss með fagnaðarópi og lofsöng, með hátíðaglaumi.
6 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
7 Guð minn, sál mín er beygð í mér, fyrir því vil ég minnast þín frá Jórdan- og Hermonlandi, frá litla fjallinu.
8 Eitt flóðið kallar á annað, þegar fossar þínir duna, allir boðar þínir og bylgjur ganga yfir mig.
9 Um daga býður Drottinn út náð sinni, og um nætur syng ég honum ljóð, bæn til Guðs lífs míns.
10 Ég mæli til Guðs: "Þú bjarg mitt, hví hefir þú gleymt mér? hví verð ég að ganga harmandi, kúgaður af óvinum?"
11 Háð fjandmanna minna er sem rotnun í beinum mínum, er þeir segja við mig allan daginn: "Hvar er Guð þinn?"
12 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.
2 Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?
3 Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,
4 svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.
5 Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.
2 Hanna gjörði bæn sína og mælti: Hjarta mitt fagnar í Drottni, horn mitt er hátt upp hafið fyrir fulltingi Guðs míns. Munnur minn er upp lokinn gegn óvinum mínum, því að ég gleðst yfir þinni hjálp.
2 Enginn er heilagur sem Drottinn, því að enginn er til nema þú, ekkert bjarg er til sem vor Guð.
3 Mælið eigi án afláts drambyrði, ósvífni komi eigi út af munni yðar. Því að Drottinn er Guð, sem allt veit, og af honum eru verkin vegin.
4 Bogi kappanna er sundur brotinn, en máttfarnir menn gyrðast styrkleika.
5 Mettir leigja sig fyrir brauð, en hungraðir njóta hvíldar. Óbyrjan fæðir jafnvel sjö, en margra barna móðirin mornar og þornar.
6 Drottinn deyðir og lífgar, færir til Heljar niður og leiðir upp þaðan.
7 Drottinn gjörir fátækan og ríkan, niðurlægir og upphefur.
8 Hann reisir hinn lítilmótlega úr duftinu, lyftir hinum snauða upp úr skarninu, leiðir þá til sætis hjá þjóðhöfðingjum og setur þá á tignarstól. Því að Drottni heyra stólpar jarðarinnar, á þá setti hann jarðríkið.
9 Fætur sinna guðhræddu varðveitir hann, en hinir guðlausu farast í myrkri, því að fyrir eigin mátt sigrar enginn.
10 Þeir sem berjast móti Drottni, verða sundur molaðir, hann lætur þrumur af himni koma yfir þá. Drottinn dæmir endimörk jarðarinnar. Hann veitir kraft konungi sínum og lyftir upp horni síns smurða.
31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: "Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir
32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa."
33 Þeir svöruðu honum: "Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?"
34 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.
35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.
36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.
48 Ljóð. Kóraítasálmur.
2 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur í borg vors Guðs, á sínu helga fjalli.
3 Yndisleg rís hún, gleði alls landsins, Síonarhæð, yst í norðri, borg hins mikla konungs.
4 Guð hefir í höllum hennar kunngjört sig sem vígi.
5 Því sjá, konungarnir áttu með sér stefnu, héldu fram saman.
6 Óðara en þeir sáu, urðu þeir agndofa, skelfdust, flýðu.
7 Felmtur greip þá samstundis, angist sem jóðsjúka konu.
8 Með austanvindinum brýtur þú Tarsis-knörru.
9 Eins og vér höfum heyrt, svo höfum vér séð í borg Drottins hersveitanna, í borg vors Guðs. Guð lætur hana standa að eilífu. [Sela]
10 Guð, vér ígrundum elsku þína inni í musteri þínu.
11 Eins og nafn þitt, Guð, svo hljómi lofgjörð þín til endimarka jarðar. Hægri hönd þín er full réttlætis.
12 Síonfjall gleðst, Júdadætur fagna vegna dóma þinna.
13 Kringið um Síon, gangið umhverfis hana, teljið turna hennar.
14 Hyggið að múrgirðing hennar, skoðið hallir hennar, til þess að þér getið sagt komandi kynslóð,
15 að slíkur sé Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.
87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.
2 Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.
3 Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]
4 Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.
5 En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.
6 Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]
7 Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."
3 Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér. Heimurinn þekkir oss ekki, vegna þess að hann þekkti hann ekki.
2 Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.
3 Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig, eins og Kristur er hreinn.
4 Hver sem synd drýgir fremur og lögmálsbrot. Syndin er lögmálsbrot.
5 Þér vitið, að Kristur birtist til þess að taka burt syndir. Í honum er engin synd.
6 Hver sem er stöðugur í honum syndgar ekki, hver sem syndgar hefur ekki séð hann og þekkir hann ekki heldur.
7 Börnin mín, látið engan villa yður. Sá sem iðkar réttlætið er réttlátur, eins og Kristur er réttlátur.
8 Hver sem synd drýgir heyrir djöflinum til, því að djöfullinn syndgar frá upphafi. Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.
by Icelandic Bible Society